Ný byrjun

Þá er ég aftur komin á einskonar byrjunarreit. Í þetta sinn er ég að hefja háskólaævintýri í annað sinn. Fyrr á þessu ári hóf ég dönsku nám en ákvað að láta eina önn í þeim fræðum nægja í bili. Á morgun byrja ég í íslenskum fræðum. Á föstudaginn fór ég í skólann á kynningarfund. Á þeim kynntu kennararnir sig og sín fög, nemendafélag íslenskudeildarinnar, Mímir, kynnti sig einnig og gekk ég í félagið á staðnum að sjálfssögðu. Strákur sem var með mér í MH er líka að byrja í íslensku. Hann heitir Vignir og fékk held ég viðurkenningu fyrir ástundun í íslensku í skólanum við útskriftina í desember.  Ég held að hann sé einn af fáum strákum í þessari íslensku deild. Á föstudaginn leit það út fyrir að það væru aðallega stelpur að byrja í íslensku. Ef svo er í raun kemur mér það ekki á óvart. Mín reynsla í MH á málabraut að það voru iðulega fleiri stelpur í tungumálunum en strákar.

Ég hlakka rosalega til að byrja í skólanum þó það fylgi smá kvíði því að hefja eitthvað nýtt. Eftir sumarið verður gott að hafa eitthvað ákveðið plan út vikuna, annað en líkamsrækt. Ég eiginlega barasta hlakka til að þurfa að fara á fætur klukkan sjö á þriðjudagsmorgnum. Það er reyndar eini dagurinn sem ég þarf að vakna snemma. Nú fram að jólum mun ég leggja stund á aðferðafræði(ritun og frágang), inngang að málfræði og bókmenntafræði. Það sem heillar mig mest af þessu þrennu er málfræðin, þó svo að ég sé viss um að bókmenntafræði verði fín líka þótt það sé enging bein bókmenntasaga í áfanganum, en bókmenntasagan er það sem mér finnst skemmtilegast í bókmenntafræðinni.

Síðan fyrir utan íslenskuna skráði ég mig líka í þýskunámskeið sem ég er mjög spennt yfir en líka kvíðin. Það er að mestu fjarnám, en með þessu námskeiði á mér að gefast tækifæri til að bæta við þá þýskukunnáttu sem ég hef nú þegar. Námskeiðið er þannig skipulagt að nemendur fá að stjórna ferðinni að miklu leiti og hver fyrir sig fær að ákveða námsvægi. Ég ætla að reyna að láta tal vega mest, en síðan ritun, hlustun og lestur og með í þessu er auðvitað orðaforði líka sem ég vil auka. Ég hef velt því fyrir mér af hverju ég ætti að fara í svona þýskunámskeið. Niðurstaðan sem ég komst að er sú að það er tilgangslaust að verja tveimur og hálfu ári í að læra eitthvað tungumál ef maður ætlar sér síðan ekkert að gera við það. Mér þætti það alla veganna súrt að vera búin að verja svona miklum tíma í þetta og halda því svo ekki við og bæta við þekkinguna. Ég er meira að segja svo bjartsýn að "þegar" ég verð komin með þýskuna alveg á hreint þá ætla ég aftur að rifja upp frönskuna sem ég lærði víst eitthvað í í MH, það var nú samt mun minna en ég lærði í þýsku. 


Jæja já - meirihluti eða minnihluti?

Síðast þegar ég vissi var 100-45 = 55! Er ekki 45% minnihluti. Röksemdafærslan um að meirihluti bakara verði núna að koma úr Kópavogi eða meiri hluti allra grískumælandi úr miðbænum, er út í hött. Þó svo að MK og MR verði núna að taka in 45% allra sinna nemenda úr viðkomandi hverfum, þá er samt meiri hluti lausra skólaplássa í skólunum eftir fyrir hvern sem er, þessvegna nemanda af Kópaskeri. Hvað er fólk að kvarta? Metnaður nemenda í 10. bekk ætti ekkert að minnka við þetta fyrirkomulag, ef eitthvað er ætti hann að aukast. Það þarf meira til að komast inn í 55% í hverjum skóla en inn í 100% eins og áður var. En að sama skapa þá hefur hver umsækjandi í framhaldskóla forgang inn í skóla nálægt sér komist hann ekki inn í draumaskólann. Skilur fólk ekki að það er verið að koma til móts við allan þann fjölda nemenda sem fær bara meðaleinkunnir, sá hópur er miklu stærri en hópur afburðanemenda og hópur nemenda undir meðallagi. 
mbl.is Nían nægði ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að mestu MH hugleiðingar

page { margin: 0.79in } P { margin-bottom: 0.08in } -->

Vegna fjölda áskoranna ætla ég mér að reyna að halda áfram að blogga og blogga reglulegar en ég hef gert síðustu misseri. Annars finnst mér ég nú ekki hafa mikið að segja. Mér finnst dagarnir líða allir nokkurn veginn eins. Ég vakna, fer í skólann, síðan heim, læri heima, horfi á sjónvarpið og fer að sofa.

Annars er frá því að segja að ég ætla mér að útskrifast sem stúdent úr Menntaskólanum við Hamrahlíð nú í desember og er ég smátt og smátt að undirbúa mig fyrir það. Mér finnst skrítið að hugsa til þess að ég sé að verða loksins búin með menntahaldsskólann. Það er innanvið tveir mánuðir þangað til ég útskrifast og þrír mánuðir þangað til ég fer vonandi í háskóla. Svakaleg tilhugsun hvort tveggja. Ég er ánægð með að tíma mínum í MH sé brátt að ljúka en það er líka viss söknuður. Þessa dagana hugsa ég mjög mikið um tíma minn í MH, það er einskonar uppgjör. Þó að oft á tíðum hafi mér fundist MH vera grautfúl stofnum sem gerir fólk algjörlega gráhært, þá er finn ég samt fleira jákvætt við skólann, sérstaklega þegar ég hugsa til allra kennaranna. Ég tel mig hafa haft í langflestum tilfellum frábæra kennara sem er færir í sínu fagi. Ég fullyrði það að MH hefur mjög góða tungumálakennara á sínum snærum! Ég tel mig hafa hlotið sérstaklega góða íslenskukennslu, en finnst sorglegt hvað margir eru samt svo áhugalausir um íslensku að allt það sem kennararnir segja fer innum annað og út um hitt. Ég vil bara þakka öllum kennurunum fyrir!

MH er skóli með áfangakerfi, sem þýðir að maður er í raun búinn með stúdentspróf í stökum greinum á mismunandi tíma. Ég lauk við þýsku síðasta vor og ef ég á að segja satt þá líða dagar sem ég veit ekki hvað ég á að gera af mér í þýskuleysinu. Fyrir þremur árum hefði mig ekki grunað að ég ætti eftir að sakna þýsku. Ég trúi því eiginlega ekki enn að ég skuli vera búin þýsku. Ég lenti eiginlega fyrir tilviljun í þýsku, ég ætlaði aldrei í þýsku og hafði alls engan áhuga á málinu(heilaþvottur um að manni skuli ekki þykja þýska skemmtileg eða áhugaverð nú eða gagnleg hafði haft smá áhrif). Ég fór á málabraut og þurfti að velja mér tvö þriðjumál (kostirnir voru franska, spænska og þýska) og valdi ég spænsku og frönsku. Ætlaði ég mér að læra mest í spænsku(þriðja mál er það kallað) og hafa frönsku sem fjórða mál. En síðan kom babb í bátinn og ég þurfti að hætta í spænsku og tók þá frönskuna sem þriðja mál og neyddist því að fara í þýsku sem fjórða mál. Ég var mjög fúl yfir því að þurfa að vera í þýsku og áhuginn var á frekar lágu stigi. Ári síðar þegar ég kom frá Danmörku og fór aftur í skólann hafði ég val um að halda áfram í frönsku og þýsku eða setja frönskuna í fjórða mál og vera búin með hana og einbeita mér að þýsku sem þriðja máli, sem ég og gerði. Þannig var nú það. Og mjög góðir kennarar urðu til þess að ég fann minn innri áhuga á málinu. Æi mér finnst þetta allt mjög skrítið. Það er ekki nóg að maður skuli vera dönsku nörd, svo þarf maður að fíla þýsku líka. Ég ætlaði nú annars ekki að blaðra um þýsku eða MH í þessu bloggi.

Vikan sem er að líða var stutt í skólanum vegna vetrarfrís síðastliðinn mánudag, en samt var hún löng. Mörg lokaverkefni og þvíumlíkt sem tók sinn tíma. Ég las tildæmis Mýrina eftir Arnald Indriðason og fannst hún alveg ágæt. Ég var líka hópvinnu með tveimur öðrum og stóð sjálfa mig í því að leiðrétta málfar og stafsetningu hópfélaga minna. Stóðu þeir stundum á gati yfir orðtökunum og orðunum sem mér datt í hug. Ég hallast að því að ég sé barasta betri í íslensku en margir aðrir í skólanum, því þetta gerist núna æ oftar.


áður óbirt ókláruð bloggfærsla frá Svíþjóð. frá 17. ágúst 2008

og ég man ekki neitt af því sem ég hef gert síðan síðasta laugardag....Ó jú, nú man ég.

Ég fór á Nordiska Museet á sunnudaginn. Ef ég á að seigja eins og er þá hafði ég ekki miklar væntingar. En ég fór engu að síður og gekk frá Östermalm út á Djurgården þar sem safnið var. Ég er farin að geta gengið án þess að villast, sem er líka gott því kortið mitt hefur séð betri daga, ef satt skal seigja ætti það að vera á gjörgæsludeild fyrir kort, svo slasað er það. En hvað um það ég gekk semsagt til Djurgården og fór á safnið. Og það var sko gaman á safninu. Maður getur séð ýmislegt óvenjulegt þarna á ýmsum sýningum. Fyrst var grímu sýning. Allskonar grímur frá ýmsum tímumm sögunnar. Það voru grímur sem voru notaðar af fólki á grímudansleikjum, fangagrímur sem voru notaðar i fangelsum, hokkí og skilmingahjálmar með grind fyrir andlitinu og ýmsar aðrar gerðir af grímum. Næst var sýning með leikföngum, sem sænskir krakkar hafa leikið sér með. Elsta dótið var frá byrjun 20. aldarinnar og það nýjasta frá byrjun 21. aldarinnar. Það voru bílar, púsl, spil, flugvélamódel, heilu hersveitirnar sænski herinn eins og hann lagði sig var þarna í tinformi, það voru líka hinir og þessir aðrir tindátar, það voru líka dúkkur og þar var Barbie fremst í flokki. Næsta sýning á safninu var hápunkturinn fyrir mig, það var dúkkuhúsasýning. Það er einginn furða að Svíar séu þekktir fyrir hönnun og húsgögn því sænskar mömmur hafa útbúið alveg ótrúleg dúkkuhús fyrir börnin sín allt frá 17. öld. Elsta dúkkuhúsið var var frá 17. öld og það nýjasta var frá lokum 20. aldarinnar. Maður getur séð hvernig dúkkuhús hafa þróast. Mörg af eldri húsunum byrjuðu líf sitt sem venjulegir skápar með glerhurðum, en fengu síðan annað hlutverk sem dúkkuhús. Öll húsin voru veggfóðruð og teppalögð með alvöru. Og öll húsgögn voru alvöru lika, ýmist keypt úr leikfangabúðum eða smíðuð heima. Í einu húsinu voru gullkertastjakar og ljósakrónur og ýmist annað úr alvöru gulli og borðbúnaður úr silfri. Eitt húsið var opið eldhús og borðstofa, það var eitt af elstu húsunum. Þar voru foreldrar að verki sem fanst upplagt að dóttirin gæti lært húsverkin í eldhúsinu og leikið sér í leiðinni. og það sást á þessu húsi að það hafði verið mikið leikið með það.  Saga hvers hús var sögð, hver eigandi hafði verið. Við sum húsin stóð að eigandinn hafði ekki mátt leika með dúkkuhúsið sitt, bara fengið að horfa. Mér finnst það sorglegt. Ég held að það hafi örugglega einhverntíman fallið tár fyrir framan þessi læstu hús. Það er auðvitað skemmtilegra að fá að snerta og leika sér í stað þess að horfa bara á úr fjarlægð. Það var samt búið að leika með flest húsin.  Nýjasta húsið frá 1990 og eitthvað, sem er Dallas draumarhús,hefur aldrei átt eiganda, það fór beint á safnið, en er samt alveg með húsgögnum og öllu. Mér fannst þetta alveg æðislegt.
næst var sýning á skóm frá hinum og þessum tímum. það voru háhælaðir skór, stígvél, sandalar, barnaskór, klossar. Og allt voru þetta notaðir skór. Sumir nokkur hundruð ára gamlir. Maður getur séð hvernig fólk tekur ástfóstri við ákveðið par af skóm, það var eitt par af tré klossum, sem sást á að eigandi hafði gengið á þeim þangað til hann var kominn í gegnum þykkasta tré hlutann, undir táberginu. Það hlýtur að hafa tekið þó nokkur ár!! En ég veit ég geri það sama, geng á mínum skóm þangað til það er enginn sóli eftir, það eru bestu skórnir.
Næst var sýning með týsku. Það voru dæmi um kvenna og karla týsku frá 18. öld til 20. aldar. Og ég get bara sagt að ég fæddist á réttum stað á réttri öld.  Ég held ég hefði ekki þolað alla kjólana frá 18. og 19. öld með korselettunum og krínólíninu.
Næst á dagskrá var síðan sýning um hefðir, sænskar hefðir það er að seigja. Flestar hefðirnar sem farið var í gegnum þekkir maður nú frá Íslandi, eins og skýrn, fermingu, brúðkaup, jarðarfarir, páska, föstudaginn langa, skýrdag, uppstigningardag , sprengidag, öskudag, bolludag og jól. En síðan eru miðsumarshátíðin og Lúsíumessa.


Við skýjin felum ekki sólina af illgirni

Mikið er ég eitthvað ekki í blogg stuði þessa dagana. bara eitt blogg í viku. Hvað á þetta eiginlega að þýða?
Nú á sunnudaginn fyrir viku hitti ég þessa sætu 5 manna fjölskyldu í bænum. Þau voru svo væn að bjóða mér í hádegismat. Mikið er skrítið að hitta þau í útlöndum. Þegar maður sér fólk annarstaðar en maður sér það vanalega þá er það alltaf eitthvað bogið. Það er eins þegar ég sé fólkið í vinnunni á morgnana eða í lok vinnudags, í sínum eigin fötum. Eftir hádegi, þegar litla fjölskyldan var búin að skila sér á lestarstöðina til að fara í lestina sína, fór ég a fornminjasafnið, Historiska museet. Ég get ekki sagt annað en að það hafi verið algjört æði. Ég var á safninu í rúma 2 tíma og náði ekki að sjá allt.  En ég náði að sjá það sem mig langaði mest til þess að skoða. Það var sýning frá fornum tímum, 12.000 fyrir Krist til 1050 eftir Krist og síðan sýning sem var sérstaklega um víkingana, 800-1050.  Mér finnst svo ótrúlegt að sænskt forminjasafn hafi minjar frá því 12.000 fyrir krist. Mér finnst bara svo skrítið að fólk hafi verið hér á Norðurlöndunum svona snemma. Það var beinagrind af sænskri konu frá því 9000 f.Kr. hún var líklegast móðir og veiðimaður. Mér finnst líka skrítið hvað mannfólkið var búið að læra og þróast mikið. Það hafði kunnáttu til þess að búa til flókin reiðtygi fyrir hestana sína,  höggva nákvæm munstur í málma og tré. Rosalega flott. Víkinga deildin var líka flott. Ég komst að því að sænskar konur á þessum tíma hafa verið eins og þær íslensku, með lyklavöldin á bænum. Í flestum gröfum frá 800-1050, þar sem kvenmannsbein hafa fundist, hafa fundist lyklar af öllum stærðum og gerðum.  Þó svo að mér hafi fundist æðislegt á safninu og gaman að skoða allt saman, þá verð ég að seigja það, þegar maður hefur skoðað eitt Norrænt fornminjasafn þá hefur maður séð þau öll. Ég hef núna farið á Þjóðminjasafn Íslands, forminjasafnið í Færeyjum, safnið í Jelling í Danmörku og fornminjasafnið í Svíþjóð. Það verður að segjast að ég hef séð meira og minna sömu hlutina á þessum söfnum. Það er mjög mikið um stein axir af öllum gerðum, og ýmis önnur verkfæri. Fötin eru mikið til eins, síðan eru kirkjuminjarnar líka mjög svipaðar.  En auðvitað er margt mismunandi í löndunum.  Á Íslandi og í Færeyjum er td. meira af hlutum tengdum sjónum, en í Danmörku og Svíþjóð eru td. alvöru rúnasteinar og eldri minjar. sagan á meginlandinu byrjar ekki bara um 800.  Og maður sér líka að víkingarnir í Svíþjóð voru ekki einangraðir og enging moldarbúar. Þeir voru heimsborgarar. Þeir voru með fína skartgripi og borðbúnað utan úr heimi, frá Frakklandi og ýmsum miðausturlöndum og Asíu. Fólkið hefur ferðast og komið með minjagripi og annað heim úr ferðalögunum.  Mér finnst alltaf gaman að skoða svona fornminjasöfn, það er eitthvað svo heillandi.  Í lokin fékk maður síðan sjálfur umhugsunarefni til að hafa með sér heim til að hugsa um. Það voru spurningarnar Hver mun seigja okkar sögu? Hver mun segja sögu víkinganna á Norðurlöndum sem lifa árið 2008? Eiga húsin okkar eftir að verða grafin upp við fornleyfauppgröft eftir 1000-2000 ár? Mér finnst í rauninni alveg fáránlegt að hugsa um að eigur manns gætu átt eftir að enda sem forminjar og kannski á safni sem forngripir. Enn agalegra finnst mér þó að hugsa um það að maður sjálfur gæti orðið að safnkosti á fornminjasafni!! Hræðileg tilhugsun. 

Allt gengur vel í vinnunni. Það er hlátur og gleði í næstum hverjum kaffi og matartíma.  Á þriðjudaginn gerðist nokkuð sem mér fannst mjög fyndið. Við sátum nokkur við borð og borðuðum morgunmat. Ég man ekki alveg hvernig þetta byrjaði en einhvern veginn barst talið að nafninu mínu og því að vera -dóttir. Sænska stelpan Fanny, sem vinnur í þvottahúsinu, vissi um þessa hefð á Íslandi að fólk héti ekki ættarnöfnum heldur væri það börn foreldra sinna. En hún spurði mig hvort þetta væri sjaldgæft að fólk notaði þessa leið til að einkenna sig. Ég gat nú svarað því snögglega, nei lang flestir Íslendingar heita eitthvað -son eða -dóttir.  Fólk með ættarnöfn er í minnihluta. Þeim fannst þetta öllum skrítið. En síðan tókst mér að fræða alla viðstadda smá um Norræna sögu. Fanny og danski strákurinn Thomas, vissu það ekki að þessi nafna hefð hefði verið líka í Danmörku og Svíþjóð. Danir eru bara komnir ansi langt frá hefðinni, en maður sér leifar, t.d. öll þessi nöfn sem enda á -sen. Svíar eru aðeins nær hefðinni.  Fullt af fólki heitir nöfnum sem enda á -son. En það merkilega er að það er eignarfalls S í öllum -son nöfnunum. Þannig t.d. Jensson, Jakobsson. Ég fræddi þau líka aðeins meira, með því að seigja þeim að einu sinni hafi verið sama tungumálið talað á öllum Norðurlöndunum, og að það væri líkt mínu tungumáli, íslensku. Thomas vissi um tilvist Norrænu, en Fanny og Jegana,stelpan frá Aserbaídsjan, vissu þetta ekki. Thomas sagðist hafa verið látinn lesa gömul norræn rit í skólanum, það hefur sjálfsagt verið Snorra-Edda, en hann viðurkenndi að hafa ekki skilið neitt, að þetta tungumál væri ekkert líkt nútíma dönsku. Hann hafi þurft að glósa mjög mikið. Híhí. Ég tel mig vera sleipa í að lesa Norrænu, það eru helst kenningarnar sem er snúnastar og ég skil ekki. Þá spurði Jegana, hvort Ísland væri nálægt Danmörku. Ég svaraði því með því að segja að það tæki 3 tíma að fljúga frá Íslandi til Danmerkur. Þá segir hún, "og þá svona 8-9 tíma að fara með rútu?"   Allt norræna fólkið við borðið fór að hlæja, yfirmaður okkar líka. Ég sagði, "Það er ekki hægt að keyra frá Íslandi til annars lands, þetta er eyja." Hún ætlaði ekki alveg að ná þessari staðreynd, fannst alveg mögulegt að væri brú eða göng. Það eru jú göng á milli Bretlands, sem er eyja og Frakklands. Ég útskýrði þá að Ísland væri úti í miðjum sjónum, að það væru engin önnur lönd nálægt. Ég sýndi henni líka á heimskortinu sem hangir á vegg í vinnunni, Þá náði hún því að það væri ekki hægt að keyra. Hún hló þá líka, sá hversu furðulega spurningin hefur hljómað í eyrum þeirra sem vissu um staðsetningu Íslands.  Ég nota hvert tækifæri til þess að fræða fólk um land mitt. Það bara truflar mig stundum að við vitum um hin norðurlöndin, vitum jafnvel um nöfn kóngafjölskyldnanna, nöfn á þingmönnum eða ráðherrum, á meðan norrænt fólk í hinum löndunum, veit um tilvist Íslands og veit að höfuðborgin heitir Reykjavík, vita að Björk er frá Íslandi og síðan ekkert meir.

Miðvikudagurinn í vinnunni var hreint út sagt agalegur. Ég var þreytt um morguninn tíminn ætlaði aldrei að líða en síðan fór ég að hugsa um Mary Poppins og þá fór allt á hraðferð þegar heilinn fór að spila fjörug Mary Poppinslög
"In every job that must be done, there is an element of fun. You find the fun and snap, the job's a game.  And every task you undertake becomes a piece of cake...
...A spoonful of sugar helps the medicine go down, the medicine go down, the medicine go down, Just a spoonfull of sugar helps the medicine go down, In a most delightful way
...Though quite intent in his pursuit, he has a merry tune to toot, he knows a song, will move the job along"
og síðan náttúrulega "Supercalifragilisticexpialidocious, even though the sound of it is, something quite atrocious, if you say it loud enough you'll, always sound precocious, Supercaligragilisticexpialidocious...
...you know:, you can say it backwards, which is:, Dociousaliexpisticfracticalirupus, but that's going to be too far. Don't you think?, Indubitably!"

Eftir hádegi fór hinsvegar allt í klessu, ég fékk ekki að skúra í matsalnum klukkan 14:30 samkvæmt áætlun því gestirnir þurftu að hafa sinn kaffitíma þar inni, því þeir gátu ekki gert það eins og vanalega í setustofunni, því smiðirnir höfðu borað í vegg klukkan 8:30 um morguninn og þeir höfðu ekki þrifið upp eftir sig og þannig var stofunni lokað. Klukkan 14:30 var ég því bara með Kelly að hjálpa henni með hennar verk og síðan klukkan 15:40 tókum við matsalinn á 15 mínútum, algjört met. Það tekur mig vanalega þrjú korter til klukkutíma. síðan klukkan 16:00 fór ég og tók tvö klósett sem ég átti eftir af mínum dagsverkum á 15 mínútum. Ég var síðan komin út úr húsinu klukkan 16:34. En ég verð að segja að ég var ekki í mjög góðu skapi. Ég var svona klukkutíma að róa mig niður. Þegar ég kom útúr húsinu, þá vildi ég ekki sjá meira af Stockholms Borgerskap. Ég var sko búin að fá meira en nóg. Það versta var að þeir voru með grillveislu á miðvikudaginn fyrir gesti og starfsfólk og fjölskyldur þeirra, sem ég hafði ætlað mér að fara í og borða grillmat. En ég gat ekki fyrir nokkra muni verið einni mínútu lengur þarna. Ég fór í staðinn bara í Nordjobb og horfði á Italiensk for begyndere með nokkrum finnskum nordjobburum á nordjobbskrifstofunni. Ég hef náttúrulega séð þessa mynd nokkrum sinnum áður, en hún er vel þess virði að sjá aftur og aftur. Hún er ein af þessum sætu og góðu dönsku bíómyndum.

Annars lenti ég í leiðindum í gærmorgun á leiðinni i vinnuna. Það var grenjandi rigning, ég labbaði 5 mínútur út á lestarstöð en þegar ég var komin þangað áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt lestarkortinu og peningum heima, þannig að ég var neydd til að fara heim og ná í það. Ég var gegnumblaut þegar ég kom síðan í lestina, og þegar ég kom í vinnuna.  En hún Fanny er svo sæt við mig, hún laumaði fötunum mínum í þurrkara seinnipartinn þannig að fötin mín voru þurr þegar ég fór heim. Ég launaði henni með því að hjálpa henni í þvottahúsinu þegar ég var búin með öll mín dagsverk. Hún var ein í þvottahúsinu eftir hádegi því samstarfskona hennar í þvottahúsinu fékk að fara fyrr heim. Fanny var dálítið stressuð yfir öllu því sem hún þurfti að gera áður en hún lokaði þvottahúsinu. En það var ekkert mál fyrir mig að hjálpa henni, ég hafði þennan hálftíma í lok dagsins. Ég hefði bara verið að slóra annars.

Ég hef tekið eftir því að Svíar eru ekki eins og Íslendingar þegar kemur að regnveðri. Þeir eru alveg hryllilega túristalegir. Þeir fara í regnföt og stígvél!!! Þeir fara ekki bara í regnjakka heldur líka í regnbuxur yfir venjulegu buxurnar. Og það versta er að þeir fara í svona pokalegar flíkur,kannski helst eins og Ponsjó, en samt meira bara svona eins og stórir plastpokar með gati fyrir háls, hettu og ermum.  Svíar nota líka regnhlífar. Í gær í hádegismatnum í vinnunni spurði ég Kelly í hvernig verslun maður kaupir regnhlífar. Hún svaraði þá, sjálfsagt í samskonar búðum og þú mundir fara í áP8090073 Íslandi. Eh? Regnhlífar og Ísland, ég held ekki. Ég man ekki eftir að hafa séð regnhlífar til sölu neins staðar heima.  Ég held nú að flestir Íslendingar noti ekki regnhlífar. Ég held að þeir sem prufi að regnhlífar séu túristar, sem vita ekki betur eða innflytjendur sem eru ekki enn búnir að aðlagast íslensku veðri fullkomlega. En Kelly benti mér síðan á búð þar sem ég gæti keypt regnhlíf á leiðinni heim. Það var nákvæmlega það sem ég gerði eftir vinnu. Ég fór með Thomasi að kaupa regnhlíf, þegar við sáum körfuna með regnhlífunum í búðinni, gátum við ekki annað en að brosa, engar einlitar regnhlífar. Bara aðeins skrautlegar og takkí regnhlífar. En við völdum okkur samt regnhlífar, þær skástu. Ég brosi alltaf þegar ég horfi á regnhlífina mína. Ég verð að segja að mér finnst hún ekki vera sérstaklega falleg. En það var annaðhvort þessi eða rósótt. Ég hef tekið mynd af regnhlífinni. Fyrstu regnhlífinni sem ég hef keypt í lífi mínu.

Í dag fór ég á safn. Á náttúruvísindasafnið, inni í því er líka náttúrugripasafn. Ég var þarna safninu í svona tæpa 4 tíma, svo margt að skoða.  Fyrst saga jarðarinnar. Það var byrjað á að sýna hvernig land myndast. Talað um eldgos, jarðskjálfta, hveri og goshveri og þannig lagað. Síðan var heimskort þar sem rauð ljós lýstu þar sem er eldgosa/jarðskjálfta og hvera-virkni. Evrópa og Norður Ameríka nánast tómar heimsálfur, en síðan hrúguðust punktarnir á litla Ísland. Enda að finna allskonar jarðvirkni á íslandi, flekaskipti lika.  Við erum líka með upprunalega Geysinn!!!  Hver á sænsku er gejser. En 4 milljarða árasaga jarðarinnar var rakin, það voru risaeðlur, risaeðlubein og loðfílabein sem hafa fundist og síðan voru líkön af risaeðlum. Það var ein vélræn risaeðla sem svaf, það var skilti við hana þar sem stóð, "Ekki vekja mig, ég hef sofið í 100 milljón ár."
Síðan var önnur sýning þar sem saga mannsins var rekin. Mér finnst alltaf svo skrítið að í raun erum við bara apategund! við erum prímatar.  Forfeður okkar voru allir töluvert lægri í loftinu en við nútímamennirnir. Það voru sko líkön í raunstærð a safninu rosalega flott og raunveruleg. Margir þeirra voru líka með langar hendur og stutta fætur. Homo ergaster var fyrsti maðurinn með handleggi og fótleggi í sömu hlutföllum og Homo sapiens(við), hann var líka fyrstur til að yfirgefa Afríku. Síðan var evrópski maðurinn, Neanderthalsmaðurinn. Þeir voru lægri en homo sapiens og með stærri heila. Samt var heilinn í þeim ekki jafn þróaður og fullkominn og heili Homo sapiens. Mér finnst svo skrítið að það hafi verið til önnur mannategund. Og að sú mannategund hafi verið í samkeppni við menn(homo sapiens.) Það væri mjög skrítið ef maður sæi veru í dag sem liti út eins og maður en væri ekki í raun maður, maður í skilgreiningunni homo sapiens. 
Eftir sögu mannsins sá ég fjölbreytni náttúrunnar. Þar voru fjölmörg dýr, skordýr, fiskar, spendýr, pokadýr og fjöldinn allur af fiðrildum. Þar sá ég litla kengúru, uglur, krabba, og í glugga fyrir dýr í útrýmingarhættu sá ég síðan tvo lunda. Ég bara vona að þessi dýr sem voru í glugganum með lundunum hafi dáið áður en þau komust í útrýmingarhættu. Ég vona að Svíar séu ekki að aflífa dýr í útrýmingarhættu til að setja a safn. En annars munar ekki mikið um tvo lunda, alla veganna ekki við Ísland.  Fiðrilda veggurinn var æði, fiðrildi af öllum stærðum og gerðum, í fjölmörgum litum. Þeir voru heldur ekki með fiðrilda fordóma, því, það voru líka svona lítil og ómerkileg fiðrildi eins og finnast á Íslandi, lítil og brún eða hvít.
Eftir fjölbreytni náttúrunnar var síðan líf við pólana, Norðurpólinn og Suðurpólinn. Þar voru ýmiss kunnugleg dýr. Þar voru hvalir og fuglar sem búa líka a Ísland, það voru líka selir og síðan var rebbi, hann var merktur sem grænlenskur refur.  Þessi tiltekni refur getur hafa komið frá Grænlandi, en tegundin heitir Heimsskautarefur. Það var líka ísbjörn og a vegg við hliðina á honum var plaggat á norsku frá Svalbarða þar sem er sagt hvað maður eigi að gera ef maður rekst á ísbjörn. Þetta plaggat hefði geta komið að góðum notum á Íslandi fyrr í sumar. Ég komst að því að ég mundi ekki vilja rekast á nokkuð dýr frá Suðurskautslandinu, þau eru öll risa risa stór. Selirnir eru risar í samanburði við seli frá norðri og ég mundi alls ekki vilja hitta suðurskautslenskar rostung!! Ég varð nú bara nógu hrædd við þann sem situr uppstoppaður á safninu. Hann er sko risa stór. Það voru náttúrulega líka mörgæsir, þær voru nú ekkert skelfilegar. Bara sætar.
Þar næst kom sænsk náttúra, þar sá ég ýmis dýr, suma fuglana þekkti ég og sum landdýrin þekkti ég. Flest landdýranna hafði ég ekki séð með berum augum áður.Ég hafði séð dádýr, mink, kanínur, mýs, hreindýr og björn, ég held að það sé allt og sumt. Myndir af öðrum hafði ég séð áður þannig að ég þekkti þau, það voru tildæmis, elgirnir, villisvín, hérar, bjórar og meginlandsrefirnir. En síðan voru dýr sem ég vissi ekki að byggju í Svíþjóð, ég vissi ekki að væru birnir, lynx-kettir og úlfar.  Það voru margir úlfar á safninu. Mikið rosalega voru nafnar mínir fallegir. Hvernig geta svona falleg og krúttleg dýr sem mann langar til að faðma að sér og leika sér við, verið svona hættuleg rándýr? Síðan voru dýr sem ég hafði aldrei heyrt um áður eins og þvottabjarnarhundur. En eitt dýr sá ég og hafði ekki glóru um hvað var, sá ekki merkingu við það. Þeir voru litlir loðnir með dökkan feld,og með tvær hvítar rendur á enninu. Ég held ég hafi séð mörð líka. En ég er ekki viss, í þekkti hvorki nafnið á sænsku né ensku. Ég skemmti mér frábærlega á safninu í dag. Alveg frábært. Ég held ég hafi bara einu sinni komið á Náttúrugripasafnið heima. Það var fyrir svona 10 árum, gæti jafnvel verið lengra síðan.
P8090075
Á morgun er ég að pæla í að kíkja á Vasa eða á Nordiska museet. Sé til, ég er líka að hugsa um að fara í dagsferð eitthvert, svo ég geti nú sagt að ég hafi séð eitthvað af Svíþjóð fyrir utan Stokkhólm. En ég er bíða eftir góðu veðri. Nenni ekki í dagsferð útúr bænum í grenjandi rigningu. Kannski það verða skárra veður næstu helgi.  Á meðan sólin lætur ekki sjá sig, þá er ég bara með regnhlífina mína.


bloggidíblogg

Ég byrjaði að skrifa blogg hérna á laugardaginn fyrir viku, en gafst síðan upp. Ekki vegna leti eða hugmyndaleysi, heldur vegna hita.  Það var víst 32 stiga hiti. Ég hélt sko að ég væri að fara deyja úr hita. Ég var hérna inni og var að bráðna.Engin orka til að gera nokkurn skapaðan hlut. En mér tókst samt að fara út um 6 leitið, það var farið að kólna örlítið þá.  Ég fór þá og fékk mér ís. Ég settist á bekk í garðinum við gosbrunninn og horfði á fólk. Ég sá síðan allt í einu hund koma hlaupandi á undan eiganda sínum og hundurinn fór beinustu leið í gosbrunninn til að kæla sig. Mikið öfundaði ég hundinn. Algjörlega ósanngjarnt að hundar megi kæla sig í gosbrunnum en menn ekki. Síðar gekk fram hjá mér annar hundur með eiganda sínum. Sá hundur var dökkur síberískur Husky. Ég get ekki sagt að ég hafi öfundað hann, með allan þennan dökka feld og um allan líkamann. Mikið held ég að honum hafi verið heitt. Ég fór síðan að pæla í þessu með feld á hundum annarsvegar og feld á mönnum hinsvegar. Við sem erum svo gott sem hárlaus spendýr, erum með heppilegri "feld" en td. hundar. Það er alltaf auðveldara á klæða sig í föt en úr. Maður getur alltaf bætt við fötum, en það sem maður getur farið úr endar ansi fljótt, og því er í raun betra að vera fáklæddari (vera með minni feld) af náttúrunnar hendi. Ef menn væru jafn mikinn feld og hundar, gætum við farið í föt þegar okkur er kalt, en mundum samt alveg lifa af úti bara á feldinum.  En við gætum aldrei farið úr feldinum á heitum sumardögum. Það er ábyggilega ekki að ástæðulausu að skrítnu egypsku kettirnir eru hárlausir. Auðveldara að finna leið til að hlýja sér en að kæla sig. Bara smá pælingar.

Vikan hefur gengið alveg prýðilega fyrir utan hita. Á mánudaginn í vinnunni var ekki talað um neitt annað en hitann.  Þegar fólk var spurt hvað það hafði gert um helgina, kom alltaf sama svarið hjá öllum; "Ekkert, það var of heitt til að gera nokkur skapaðan hlut." 

Í lok síðustu viku fann ég lausn allra vandamála. Þannig er mál með vexti að nýju skórnir mínir eru þægilegir og hentugir í vinni. En þeir meiddu mig á undarlegum stað, ég fékk mjög furðulegt sár, á fimmtudaginn fyrir rúmri viku var þetta sérstaklega vont. En daginn eftir keypti ég í misgripum púða til að setja í skó, ég hélt að það væru einhverskonar plástrar. En svo á laugardeginum fyrir viku datt mér síðan í hug að máta þessa púða í sandalana. Þeir pössuðu vel á staðinn þar sem skórnir meiddu mig, þannig að ég setti púðana þar. Ég fór síðan út í labbitúr út á Karlaplan, og ég fann ekki fyrir neinu, bara eins og að ganga á skýjum. Ef ég hefði nú gert þessi mistök fyrr í búðinni! Og af því að ég fann ekki fyrir neinu í fótunum þá ákvað ég að kíkja á hvað væri hinumegin við húsið mitt. Ég hef nefnilega ekki gert það áður vegna sára og eymsla í fótum. Og viti menn, það er matvöruverslun í 5 mínútna rölt fjarlægð frá húsinu mínu, og ég sem gekk í klukkutíma fyrsta kvöldið mitt hér í árangurslausri leit að matvöruverslun! Mikið varð ég pirruð að hafa verið svona nálægt matvöruverslun allan tímann. Ég finn ekki fyrir neinu neins staðar í fótunum núna, hefi fundið neitt síðan ég setti þessa púða í.Og nú er mig farið að langa til þess að fara út og sjá hluti, jafnvel þó að ég þurfi að sjá þá ein. Ég var búin að ákveða að fara í sólbað í dag en það var ekki hægt því það er grenjandi rigning. Ég greip því í staðinn hlaupaskónna mína og íþróttafötin of fór í World Class. Já worldclass er á mörgum stöðum í Stokkhólmi. Stöðin sem ég fór á er allt allt öðruvísi en World Class á Íslandi. Lítil stöð og rólegt. En eitt er skrítið með líkamsræktar stöðvar í Svíþjóð er að maður getur bara fengið árskort. Ekkert minna. Í World Class getur maður reyndar borgað 1 skipti í einu, en þá borgar maður 150 krónur. Of mikið. En stelpan í afgreiðslunni leyfði mér að fara ókeypis inn í dag, sem var fínt. Í World Class heima er hægt að fá eitt skipti, viku passa, mánaðarkort, 3 mánaða kort, 6 mánaða kort, einsárs kort og síðan verið í stöðugri áskrift. Mér finnst það ansi flott, þannig er þörfum flestra mætt. Þegar ég kom heimt fór ég á netið að athuga með aðrar líkamsræktarstöðvar (gym á sænsku, borið fram jim) Ég komst að því að það eru fleiri stórar keðjur sem eru ódýrari en World Class. Ég fann eina sem er í hverfinu mínu, á morgun ætla ég að kíkja á hana.
Eftirhádegi á morgun er ég að hugsa um að fara á safn. Ég er búin að finna öll þau söfn sem ég hef áhuga á að kíkja á. Þau eru 4 talsins. Þjóðminjasafnið, mér finnst þau alltaf spennandi. Ég er líka viss um að það er eitt og annað þar sem er svipað íslenskum hlutum. Ég er viss um að það eru rit rituð á norrænu, sem er ansi lík íslensku. Það var þannig á dönsku forminjasafni sem ég fór á. Ég þurfti ekkert að vera að lesa dönsku þýðinguna sem stóð til hliðar við plaggið sem ritað var á. Ég gat lesið það sem stóð á norrænu án hjálpar og skilið það sem stóð. Ég hef heyrt að það séu víst mikið af færeyskum forminjum í Svíþjóð sem Svíar hafa ekki látið af hendi. Ég veit samt ekki hvort þær minjar séu einhversstaðar til sýnis. Kannski bara í geymslu einhversstaðar. Síðan langar mig að kíkja á Vasasafnið. Kynnast aðeins skipinu sem ég hef heyrt svo mikið um. Norræna safnið, mig langar þangað bara mest af forvitni, það eru skrítnar sýningar þar,t.d. leikfangasýning með gömlum leikföngum, sýning um sænska söngvakeppni sjónvarpsins þar sem fjallað erum eurovisionsögu Svía, dúkað borð, hvernig borðhald hefur verið í tímanna rás og sýning um Sama, þeirra sögu og menningu. Síðan langar mig líka á Náttúruvísindasafnið, þar er meðal annars sýning um þróun mannsins, frá uppahafi til nútímans. Mér finnst þessi sýning hljóma sérstaklega spennandi.

Ég hef mikið verið að hugsa um sænsku kunnáttu mína upp á síðkastið. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um þetta mál. Ég hef sérstaklega hugsað um sænsku í samanburði við dönsku með eyrum Íslendings. Á sumum vígstöðum hefur sænskan betur en á öðrum hefur danskan afgerandi yfirburði. Mér fynnst sænskur orðaforða frekar auðveldur, oftar rökréttari(útfrá íslensku) en danskur. Uppbygging orða og hugsun á bakvið orð er oft nákvæmlega sá sami og íslensku. Svíar tala ekki um briller heldur segja þeir glasögon, sem þýðir gleraugu. Og sólgleraugu eru þá náttúrulega bra solglassögon, åhörande er áheyrandi, avundsjuk og öfundsjúkur og sum orð eru nákvæmlega eins t.d. moppa, með greini moppan, sum orð hljóma eins en eru skrifuð öðruvísi eins og til dæmis það að erfa er skrifað ärva en hljómar nákvæmlega eins. Og það að voga, skrifað våga á sænsku. Svíar telja líka eins og við, þeir byrja á tuginum og koma síðan með eininguna. en þeir hafa ekkert og á millu. 53 verður femmtitre en ekki fimmtíuogþrír og alls ekki treoghalvtreds, eins og Danir gera með eininguna fyrst og síðan tuginn. En þegar kemur að framburði þá vinnur danskan stórsigur. Þó svo að framburðurinn sé það sem vefst fyrir mest fyrir íslendingum þegar kemur að því að tala, þá finnst mér danskur framburður auðveldari, Það eru nefnilega færri snúin atriði í dönskum framburði, það er mest bara þetta flókna R(ég held ég muni aldrei ná því fullkomlega, þó svo að ég hafi fengið 10 í dönskum taláfanga.) og síðan hvernig sum orð enda, endirinn hverfur einfaldlega á sumum orðum. En oftast í dönsku hafa stafirnir oftast viðeigandi hljóð. Mér finnst það bara heppni ef ég hitti á rétt hljóð í sænsku. Ég bara næ því ekki hvernig Sk og sj geta orðið að kokhljóði, einhverju gh hljóði. Fyndnasta orð sem ég hef heyrt í sænsku er sjösjuk. Það eru tvö s í þessu orði en þegar maður seigir það þá er skyndilega ekkert S. T hefur líka undarlegt hljóð, t-ið getur haft s hljóð saman ber tjugu(talan 20). Bókstafurinn A hefur líka fáránlega mörg hljóð og sum þeirra ekkert lík neinu A hljóði. Ég ætla að skrifa hér upp samtal sem ég átti við konu í vinnunni í gær, sem heitir Ing-Marie Þar er mjög gott dæmi um líkindi orða í sænsku og íslensku og skrítinn framburð í sænsku. Framburður er skrifaður í hornklofum.
*I-M: Har du sett en karl? [Har dú sett en korl?]
-Ú: Vad? [vað?]
*I-M: En karl?[En korl?]
-Ú: Jag vet inte vad det är[Jag vet inte va de er]
*I-M: Vet du inte vad en karl är? [Vet dú inte va en korl er?]
-Ú:Nei [Nei]
*I-M: Nå, det är en mann. [No, de er en mann]
-Ú: Jag har inte sett en mann [Jag har inte sett en mann.]

Þar með lauk þessu samtali. Þarna þekkti ég ekki orðið karl, sem er nákvæmlega eins og í íslensku af því að A-ið hljómar eins og O. Hvernig á ég að vita að orð sem hljómar korl er skrifað karl.  Hljóðin A og O myndast ekki eins í munninum. O er kringlótt hljóð á meðan A er frekar ílangt. 
Annar bókstafur sem hljómar ekki eins og hann er skrifaður, það er G. G hljómar stundum eins og J. Tildæmis í orðinu Gymm, gym er borið fram jim.
Annað erfitt í sænsku er hvernig sum orð kippast. Það eru kippir í sumum orðum. Orðið Jätte kippist mjög mikið. Oftast koma þessir snöggu kippir í enda orðs. Sem dæmi er lestarstöðin T-Centralen. Fyrst er áhersla á T síðan kemur cent bara venjulegt, en síðan kippist í ralen. Endirinn kippist einhvernvegin upp.

Í lestinni heim úr vinnunni í fyrradag var þýsk mamma með 4 börn með sér. 3 stráka svona 10-12 ára og eina stelpu eitthvað eldri. Ég heyrði hvað strákarnir voru að tala um. Það var greinilegt að þeir höfðu verið í Svíðþjóð í smá tíma og verið nokkrum sinnum áður með lestinni á þessari leið. Þeir voru nefnilega að pikka sænskuna upp. Og þeir notuðu nákvæmlega sömu aðferð og ég til að læra hljóðin. Í lestinni kemur nefnilega alltaf rödd og segir hvaða stoppistöð kemur næst og í kvaða lestir er hægt að skipta á viðkomandi stöð. Þeir hlustuðu og endurtóku það sem röddin sagði. Það var greinilegt að þeir voru líka að læra í hvaða röð stoppistöðvarnar koma. Því þeir voru búnir að nefna Gärdet áður en stoppistöðin í Gärdet var komin. Það voru miklar rökræður milli strákanna um það hvernig ætti að bera fram þetta skrítna orð. G-ið er með J hljóði og síðan er kippur í enda orðsins. En síðan kom röddin og þá kom það fyrri áhersland á Gär- er löng og síðari áherslan er á -det og hún er stutt.

Ég ætlaði nú ekki að skrifa svona málfræði pistil. En þegar hugsanirnar koma þá ræð ég ekki við þær


Um Svía

Ég hef gert smá rannsókn á Svíum, útliti þeirra, hegðun í almenningssamgöngum og vinnumenningu þeirra.

Útlit sænskra kvenna. Í Færeyjum í fyrra talaði Laura um það hvað færeyskar mömmur væru alltaf svo vel tilhafðar um hárið. Litað hár og flottar klippingar. Ég fattaði ekki alveg hvað hún var að tala um. Mér fannst hárgreiðslurnar hjá færeysku mömmunum/konunum ósköp venjulegar, bara svona eins og á íslenskum mömmum/konum. En nú er ég farin að skilja það sem Laura meinti.  Ég hef nefnilega tekið eftir því að sænskar mömmur/konur, ca. 35 ára og uppúr, eru allar meira og minna með sömu hárgreiðsluna. Það eru samt nokkrar hárgreiðslur í gangi. En konurnar eru allar meira og minni með sama háralitinn. Ef þær eru ekki alveg ljóshærðar þá eru þær ljósskolhærðar. Ljóskolhærðu konurnar eru samt í meirihluta. Það virðast vera aðallega tvennskonar klippingar í gangi. Fyrri klippingin er þannig að hárið nær rétt niður fyrir eyru, númer tvö hárið nær rétt svo niður á axlir. Konurnar eru sumar með topp en aðrar ekki. Ég man ekki eftir að hafa séð sænska konu með svona klippingu með styttur í hárinu. Margar konur sem eru með síðarnefndu klippinguna eru með hárið spennt upp í klemmu.
Yngir konur og stelpur eru með venjulegar klippingar af öllum sortum eins og þykir venjulegt að allir sporti á Íslandi.
Allar konur og flestir menn, eru í sumarfötum! Konur á öllum aldri eru í sumarfötum, í stuttum pilsum, sumarkjólum, hvítum buxum, fínum og sumarlegum bolum og blússum, líka konurnar sem eru með mömmuklippingarnar. Síðan eru líka margir í stuttum stuttbuxum. Og allar í sandölum. Ég hlít að skera mig ofboðslega út úr, í þykkum gallabuxum og í stuttermabol, svörtum þar að auki.
Svíar eru sólbrúnir! Svona sólbrúnir eins og ég. Allir virðast vera sólbrúnir. Fullorðið fólk á öllum aldri og krakkar, allir. Mér finnst þetta svolítið skrítið. En samt í rauninni ekki, því það er búið vera glaðasólskyn hér alla dagana sem ég hef verið hér og hitinn yfirleitt um 24 gráður, en í dag var hann víst 27-30°C. Alveg agalegt. (smá innskot, ég hef uppgötvað nauðsyn þess að búa í loftkældu húsi, það er alltaf svo heitt inni hjá mér. Sængin sem ég er með, eða "ekki sængin" eins og rétt væri að seigja því hún er meira eins og teppi en venjuleg sæng, er of heit.)

Hegðun Svía í almenningssamgöngum. Svíar eru svipaðir Íslendingum þegar kemur að almenningssamgönum. Ef lestin er að fyllast en það eru samt stök sæti laus hér og þar, þá eru margir sem standa frekar en að setjast við hliðina á ókunnugum. Ég hef séð Íslendinga og Dani gera slíkt hið sama í strætó. Nú ef einhver sest hjá ókunnugum, í gangsætið, þá er annar fóturinn alltaf úti á ganginum. Aldrei hlið við hlið fyrir framan sætið. Það er náttúrulega alveg óásættanlegt að þurfa að snúa búknum í nákvæmlega sömu átt og sessunauturinn.
Svíar virðast vera þungt hugsi í lestinni, eða eru að gera eitthvað. Margir lesa blöð eða bækur og margir gera sudoku í lestinni. Fólk horfir ekki beint á hvert annað, sem mér finnst mjög skrítið. Ég veit ekki betur en svo að það tíðkist að fólk horfi á hvort annað og fylgist með hvoru öðru í strætóum heima. Ég er alla veganna vön að horfa og skoða fólk þegar það kemur inn í vagninn, án þess að stara á það. Fólkið hér sem ekki er að lesa eða að gera sudoku, horfir bara útum gluggann á lestinni, þar sem ekkert er að sjá nema svört lestargöngin. Ég hef svona laumast til að horfa á fólkið, til þess að gera þess rannsókn, en annars horfi ég út um gluggann og út í myrkrið.

Vinnumenning Svía. Ég held að vinnumenningin hér sé öðruvísi en á Íslandi eða alla veganna öðruvísi en ég mundi vilja hafa hana. Ég held reyndar líka að viðhorf fólks til vinnu sé annað. Það er eitt sem fer í taugarnar á mér í vinnunni,  það er hvað fólkið er svo ofsa rólegt. Ég hef ekkert á móti rólegheitum, ég er nú ansi róleg manneskja. En ég nenni ekki slóri í vinnunni. Mér finnst vinnurólegheit Svía vera óþarfa slór. Ég þarf endalaust að vera að teygja lopann. Ég hef lista yfir ákveðna hluti sem ég þarf að gera yfir daginn.  Alla dagana í þessari viku hef ég verið búin fyrir lok vinnudags. Í dag og í gær þurfti ég vanda mig rosalega í því að vinna hægt til þess að vera nú ekki búin með dagsverkin fyrir hádegi. Aðal ræstingarkonan, hefur sagt við mig að ég skuli bara taka því rólega og slappa af.  Það er bara hægara sagt en gert. Í mínum heila, vil ég nýta daginn, vinna eins og ég get á meðan ég er í vinnunni, og síðan þegar maður er búinn í vinnunni, getur maður verið í öllum þeim rólegheitum og afslappelsi sem manni sýnist. Ég er samt algerlega hlynnt pásum og matarhléum og því að fólk geti tekið sér 5 mínútna pásur yfir daginn þegar það þarfnast þess. En mér finnst að fólk eigi að vinna eins og það getur þar á milli. Mér finnst líka alveg sjálfsagt að fólk fái stundum að slóra smá í vinnunni þegar það er viðeigandi, en í mínum augum eru takmörk fyrir því hversu mikið er hægt að slóra. Allt í lagi að slóra fyrsta hálftímann eftir að maður kemur í vinnuna, þegar skipulagið er eins og það er í vinnunni hér, maður mætir klukkan 8 og síðan er kaffipása þegar klukkuna vantar korter í 9.  Þar sem þessar 45 mínútur nýtast frekar illa og eru í byrjun vinnudags, þá finnst mér í lagi að slóra smá. Eins finnst mér líka í lagi að fólk sitji smá lengur eftir að 30 mínútna hádegishléið er búið. En þessi smá tími ætti ekki að vera mikið meira en 10 mínútur, kannski korter. Mér finnst erfitt að vinna hægt. Minn eðlilegi og þægilegi vinnuhraði er of hraður. Í dag var ég búin svo snemma með dagsverkin að ég byrjaði á dagsverkum morgundagsins.  En það er bara svo leiðinlegt að slóra of mikið. Mér finnst þetta vera smá tímaeyðsla. Ég veit ekki hvort það tíðkist almennt í Svíþjóð að fólk vinni hægt, en ég held að sé allmennt ekki þannig á Íslandi, ég hef ekki reynslu af íslenskum vinnustað. En ég held að spurningin sem ég fékk frá færeyska stráknum í fyrra "Er satt að allir Íslendingar séu í þremur störfum?" seigi eitthvað um vinnusemi eða vinnumenningu á Íslandi. Vinna, vinna, vinna. En hvað um það. Annars er bara fínt í vinnunni, góðir samstarfsmenn. Ég fékk hrós frá yfirmanninum í gær fyrir að hafa plokkað visin blóm af blómunum fyrir framan aðalinnganginn að húsinu...

...Ég verð líka minna og minna þreytt eftir vinnu. En samt eru fæturnir á mér í klessu, plástrar útum allt og óþægindi. Þannig að ég fer bara beint heim eftir vinnu og sit þangað til ég fer að sofa, ekkert að nota fæturna að óþörfu. Læt fyrirverandi blöðrur, sár og eina núverandi blöðru jafna sig í friði. Annars er allt bara jätte bra! Ætla að reyna að þvo þvott á morgun í þvottahúsinu í húsinu mínu, á eftir að sjá hvernig það gengur og hvað það kostar.


Mamma Mia!!

P7200045Ef hugtakið að drepleiðast hefur einhvern tíman átt við í mínu lífi, þá átti það við á laugardaginn. Um tíma þá sat ég í alvöru og var að bíða eftir að geta háttað og farið að sofa. Manneskjan sem vanalega frestar því að fara að sofa eins lengi og hægt er og finnst venjulega nokkuð snemmt að fara að sofa á miðnætti. Fer alla vegana ekki oft að sofa fyrir miðnætti. Ég var ekkert þreytt, bara hafði ekkert að gera. En síðan þegar fór að nálgast kvöldmatarleitið og ég var búin að blogga smá, fór ég út. Ég borðaði á veitingastað. Ég fékk óvenjulegustu pizzu sem ég hef nokkru sinni borðað. Það Bolognese pizza. En hún var mjög góð. Ég borgaði um það bil 70 sænskar krónur fyrir pizzu og kók. Mér fannst það alveg sanngjarnt verð miðað við að pizzan var mjög matarmikil, og ég var sko alveg sprengsödd eftir á. Ég er búin að ákveða að fara aftur seinna á sama stað og prófa gúllassúpu sem ég sá á matseðlinum. Eftir þetta fór ég bara heim og hékk á netinu þangað til að ég fór að sofa.

Fyrripartur gærdagsins fór í afslappelsi. En síðan klukkan 2 hitti ég finnsku stelpuna Tiinu. Við hittumst á lestarstöðinni í Gamla Stan. Þar gengum við um Gamla Stan. Þó að þetta sé "bara" Stokkhólmur, þá er Gamla Stan alveg jafn merkilegur og allir litlu bæirnir á Grikklandi og Ítalíu með öllum litlu P7200064götunum. Ég held að við gleymum stundum því að okkar heimshluti, Norðurlöndin, er alveg jafn merkilegur og td. Suður-Evrópa. Við þurfum ekki alltaf að fara langt til þess að sjá eitthvað gamalt eða merkilegt, eitthvað frá miðöldum, eða nú eitthvað frá því fyrir Krist. Norðurlöndin, á meginlandi Evrópu,eiga sér langa sögu. Og í nútímaborg eins og Stokkhólmi er hægt að sjá margt gamalt og merkilegt. Ég semsagt skoðaði Gamla stan. Frá Gamla Stan gengum við yfir til Vasa stan, þar fengum við okkur ís og settumst niður í garði og nutum sólarinnar. Eftir þetta hittum við 3 aðrar finnskar Nordjobb stelpur.
Við fórum allar saman í bíó að sjá Mamma Mia! Ef ég á að segja satt þá hafði ég efasemdir um ágæti myndarinnar.  En hún kom mér sko á óvart.  Ef satt skal segja þá fannst mér myndin æði. Meryl Streep var mjög góð og allir leikararnir voru góðir, en það verður að segjast að Pierce Brosnan á sér ekki framtíð sem söngvari. Söguþráðurinn var skemmtilegur og ég hló. Í svona miðri mynd þá hugsaði ég með mér að ég mun kaupa þessa mynd á DVD einhverntíman. Mér fannst hún það góð. Og ég er búin að vera í góðu skapi alveg síðan ég kom útúr bíóinu. Ég er búin að vera spila hin og þessi ABBA lög í heilanum á mér í allan dag. S.O.S. hefur komið þó nokkrum sinnum. Líka Fernando, Knowing Me, Knowing You og bara hellingur fleiri. 

Í morgun fór ég vinnuna. Það var fyrsti dagurinn sem ég vinn ein. Yfir hreingerningakonan Kelly kom í dag úr sumarfríi. Ég sagði henni í morgun að ég væri hrædd um að ná ekki að gera allt það sem ætti að gera í dag, hún sagði mér bara að slappa af, ekkert stress. Það var ekkert mál að vera ein, bara svolítið skrítið. Mér finnst skemmtilegt að þrífa lyfturnar, því þar hittir maður fólk. Öllum finnst það skrítið að ég skuli bara fylgja lyftunni á meðan ég er að þrífa. Gömlu konunum finnst það gaman. Það var alveg svakalegt hjá Alzheimersfólkinu í dag, svo ofboðslega heitt. léleg, ef einhver loftkæling. Ég var sko alveg að bráðna.  Ég var búin að gera allt mitt í dag 40 mínútum áður en vinnudegi lauk. Ég hafi verið of snögg! Ég þarf að æfa mig í að vera að ekki svona snögg,  ekki taka 1 klósett á bara 5 mínútum.  Það bætti heldur ekki úr skák að Jegona vökvaði blóm á vitlausri hæð og vökvaði blómin mín. Ég hef færri verkefni á morgun, en nokkur eru stærri en þau sem ég hafði í dag. Ég hef ekki gert neitt í dag eftir vinnu, bara setið við tölvunni, jú ég lagði mig smá þegar ég kom. Síðan hef ég spjallað við mömmu og hlustað á ABBA lög á YouTube.  


Laugardagur í leti.

Nú er ég búin að vera hér í rúma viku. Það hefur allt gengið vel. Það gengur allt vel í vinnunni. Á mánudaginn verður aðallega afleysingarfólk eftir. Það er ein stelpa sem vinnur með mér sem er frá Azerbeijan, hún er 25 og heitir Jegona. Hún mun leysa Önnu af. Anna, stelpan sem er búin að vera með mér þessa vikuna er farin í sitt 4 vikna frí. Ég var ekki jafn þreytt eftir gærdaginn og dagana á undan. Ég hafði alla veganna næga orku til þess að fara smá út, fór í verslunarmiðstöðina á Karlaplani.  Ég keypti mér þar nýja sandala. Þeir eru mjög fínir og þægilegir Timberland sandalar. Þeir voru á sumarútsölu, 30% afsláttur, þeir áttu að kosta að 500 sænskar krónur eða 6650 íslenskar, en ég borgaði 350 sænskar krónur eða 4650 íslenskar. Ég held að það sé bara nokkuð gott. Þegar ég var að fara að borga í skóbúðinni, þá rétti ég stelpunni debitkortið mitt og hún bað um persónuskilríki. Ég bennti henni þá á bakhliðina á kortinu, barasta mynd, undirskrift og allt saman. Henni fannst þetta alveg genial að hafa myndir og allt saman á kortinu, og sagði að henni fynndist að þetta ætti að vera regla í Svíþjóð. Íslendingar eru nú ekki algalnir, þó við séum fámennþjóð.  En ég er pínu hrædd um að fá nýjar blöðrur eftir nýju skóna, en núna ég er tilbúin, búin að setja plástur á staðinn þar sem ég held að það gæti gerst. Svo er ekkert víst að nokkuð gerist, ég vona ekki. Síðan eftir þetta fór ég og fékk mér að borða og fór síðan í matvöruverslun. Síðan fór ég heim.
Ég hef verið að horfa á Guiding Light á netinu hérna. Allra nýjustu þættirnir frá Ameríku. Við erum sko 11 árum á eftir heima, það er árið 1997 í Leiðarljósi þar. Sumir leikarnir frá '97 eru ennþá og þá þekki ég vel, en það eru líka persónur sem eru í '97 sem eru ennþá en eru leiknar af nýjum leikurum. Ég er alveg ofsa spennt í nýja Leiðarljósinu. Þetta er bara æði. En ég verð bara að passa mig að horfa ekki á föstudagsþáttinn á laugardegi þegar hann kemur á netið heldur bíða þangað til á mánudag, annars hef ég ekkert Leiðarljós á mánudag. Ég gæti blaðrað endalaust um allt það sem gerist í Springfield, bænum þar sem Leiðarljós gerist. En ég ætla ekki að gera það. Ég ætla ekki spilla fyrir neinum sem gæti horft á Íslandi eftir 11 ár. 

Ég horfði semsagt á Leiðarljós þegar ég kom heim í gær og borðaði popp. Síðan talaði ég við mömmu í smá stund. Eftir það setti í ég myndina Little Miss Sunshine í tölvuna til að horfa á, hún fylgdi með tímaritinu sem ég keypti um daginn. En ég sofnaði útfrá henni, þá var öll þreytan komin. 

Í morgun svaf ég þangað til ég vaknaði um klukkan tíu. Þá sendi ég einni af finnsku stelpunum, sem ég hitti á námskeiðinu síðustu helgi, sms og spurði hvort hún vildi gera eitthvað með mér. Við erum búnar að ákveða að hittast á morgun og gera eitthvað saman. Eftir það fór ég í sturtu og horfði síðan aftur á Little Miss Sunshine, með smá lúr í miðri mynd, en ég spólaði bara til baka og horfði síðan á allt saman. Þessi mynd er alltaf svo frábær. Mæli eindregið með henni. Eftir þetta hef ég ekki gert nokkurn skapaðan hlut. Ég hef nákvæmlega ekkert að gera. Ég hef svona nokkurnveginn bara verið að bíða eftir því að það sé kominn háttatími, en klukkan er víst bara 20 mínútur í fimm, það er klukkuna vantar 20 mínútur í fimm. Ég er að hugsa um að fara út og athuga hvað fæst inni í Stockholms Glass og Pastahúsi, sem er hér rétt hjá. Ég er ekki ennþá búin að borða ís í Svíþjóð, ég verð nú að gera eitthvað í því. Ég verð líka að prófa nýju sandalana mína utandyra og kannski taka myndir líka.

 

p.s. búin að bæta við nokkrum myndum


oh så jobbigt

Ji minn, ég ætlaði að blogga í gær, en hafði ekki orku til að hugsa svo flóknar hugsanir, sem maður þarf að hugsa til að skrifa blogg.
Í gær var fyrsti dagurinn í vinnunni. Þegar ég kom var stelpa í móttökunni sem beið eftir mér til að taka á móti mér. Hún heitir Anna og hún sýnir mér og kennir mér starfið. Mitt starf felst í því að þrífa á elliheimili. Ég held að þetta elliheimili sé allt öðruvísi en öll elliheimili á Íslandi. Þetta er svona meira heimilislegt. Það er tildæmis frekar ætlast til þess að heimilisfólkið komi með sín eigin húsgögn. En það eru líka til húsgögn fyrir alla sem það vilja. Það eru litir á veggjunum, blóm,  mottur á gólfunum og ýmist annað til þess að lífga upp á staðinn. Þarna er þjónusta fyrir allskonar fólk. Það eru íbúðir fyrir fólk sem þarf enga þjónustu, getur séð um sig algjörlega sjálft, eldað, þrifið. En það fólk getur líka fengið heimaþjónustu ef það vill það. Síðan eru íbúðir fyrir fólk sem þarf ummönnun allan daginn. Og íbúðir fyrir fólk með Alzheimers eða elliglöp. Og allt annað eldra fólk. Flestar íbúðirnar samanstanda af svefnherbergi, stofu, baðherbergi og eldhús krók.  Það eru misstórar íbúðir samt. sumar eru mjög stórar fleiri en eitt herbergi. Og minnstu íbúðirnar eru svefnherbergi og bað. Það fer eftir deildum hvernig íbúðir eru. Fólkið sem getur séð um sig sjálft að mestu leiti, má líka hafa dýr, sumir eru með hund eða kött. Ég þríf aðallega á starfsmannahæðinni en líka smá hjá Alzheimersfólkinu. Ég þríf ekki inni hjá fólki. Í gær þreif ég starfsmannahæðina, klósett, setustofu, herbergi til að skipta um föt í og þvíumlíkt, og síðan eldhúsið hjá Alzheimersfólkinu. Stelpan, Anna er með mér og sýnir mér hvernig ég á að gera allt og hvað ég á að gera. Frá og með næstu viku mun ég leysa af konu sem heitir Birgitta, hún mun fara í sumarfrí þá. Anna er sem sagt að kenna mér rútínuna hennar Birgittu á meðan Birgitta vinnur fyrir Önnu.
Ég get ekki sagt að þetta sé skemmtileg vinna. og ég get ekki sagt að ég hlakki til allra virku dagana sem eru á milli dagsins í dag og föstudagsins 22. ágústs. En só far er þetta skárra en eldhúsvinnan síðasta sumar. En ég er hryllilega þreytt í lok dags, get varla staðið í fæturna, er svo þreytt í fótunum eftir að standa 7 og hálfan tíma. Í gær hafði ekki orku til að gera neitt eftir vinnu og ekki heldur í dag. Þetta er kannski eitthvað sem ég mun venjast.  Þetta er bara svo jobbigt!!!

Annars er flott hvernig maður getur talað við annað fólk og skilið hvort annað. Það er finnsk kona í vinnunni, hún talar sænsku og ég tala "sænsku" við hana og það virkar. Mér finnst það æði þegar maður getur talað svona skrítið tungumál við aðra manneskju sem hefur það heldur ekki að móðurmáli. Bæði í dag og gær hef ég þurft að svara spurningunni: "Hur har du lärt dig att prata svenska?" Og svarið mitt er: "Jag har inte alls lärt mig det." Öllum finnst þetta ótrúlega skrítið að ég skuli geta þetta, talað tungumál sem ég hef aldrei, lært né talað áður. En síðan segi ég að ég hafi leigt með sænskri stelpu tvo mánuði síðasta sumar. Ég bara hlusta og hermi. Á tveimur dögum í vinnunni hef ég lært fullt af nýjum orðum, en þau er reyndar flest hreingerninga tengd og því erfitt að nota þau í daglegu tali. Våning er hæð í húsi, trosa er tuska, att damma er að þurrka af eða dusta rik, kjol er pils ekki kjóll, städning eru ræstingar, bottan er jarðhæð í húsi með fleiri hæðum, sem sagt fyrsta hæð eins og við teljum. Svíar telja ekki hæðir eins og við, ég bý til dæmis á 7. hæð í sænska talinu en á 8. í íslenska talinu. Fyrir mér er rökréttara að byrja að telja á 1 en ekki B og halda síðan áfram 1,2,3. Í dag í vinnunni fór ég með Önnu að þrífa hjá gömlum manni sem heitir Olle. Anna kynnti mig fyrir honum á sænsku og sagði hvað ég heiti. Þá segir maðurinn bara Sæl og blessuð! Ég sagði þá bara Sæll og blessaður. Hann áttaði sig á því að nafnið er íslenskt! Hann spurði mig síðan hvort ég talaði norsku eða dönsku. Ég sagði honum að ég talaði dönsku, að ég hefði búið smá tíma í Danmörku, þá talaði hann fína dönsku við mig. Amma hans hafði nefnilega verið frá Danmörku frá Jótlandi. Hann sagðist hafa komið til Íslands einu sinni, en sú heimsókn hafi bara verið einn klukkutími. Hann var í flugi til Ameríku. Það átti ekkert að millilenda á Íslandi en af einhverri ástæðu þurfti að lenda og vera í klukkutíma.  Maðurinn sagði líka Önnu frá orðinu sími. Hann sagði henni þetta orð væri bara notað í íslensku af öllum norrænu málunum. Það þýddi í raun þráður en íslendingar nota það yfir það sem er kallað telefon. Þetta var skrítið spjall.

Ég fór ekkert út í gær eftir vinnu nema smá út á Karlaplan í matvöruverslun. Það tekur svona korter tuttugu mínútur að labba þangað.  Ég er búin að komast að því að Bítlarnir og Karlaplan eiga sér sameiginlega sögu. Sú upptaka sem er talin vera ein sú besta live upptaka Bítlanna var tekin upp í stúdíói sænska útvarpsins á Karlaplani. Sænska upptökustjóranum fannst þetta léleg upptaka, græjurnar lélegar. En John Lennon fannst hún frábær. Hann tjáði sig víst um þetta og sagði að sér finndist þetta vera með bestu live upptökunum sem þeir hefðu gert.
Ég fór bara beint heim eftir vinnu í dag og hef ekki farið útúr húsi, ég er búin að vera í rúman klukkutíma að skrifa þetta blogg. Mig langar reyndar til þess að reyna að fá einhverja af finnsku Nordjobb stelpunum til þess að fara með mér í bíó og sjá Mamma Mia myndina, einhverja næstu daga, kannski bara um helgina. Ég keypti sænskt tímarit í gær þar sem er viðtal við Meryl Streep, sem leikur í myndinni. Ég er ekki búin að lesa það enn, en ég ætla að gera það. En Nú skal lætta ljóði av, eg kvøði ei longur á sinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Úlfhildur

höfundur

Úlfhildur Flosadóttir
Úlfhildur Flosadóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • nóvember 022
  • nóvember
  • flutningar 041
  • flutningar 035
  • flutningar 033

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 500

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband