oh så jobbigt

Ji minn, ég ætlaði að blogga í gær, en hafði ekki orku til að hugsa svo flóknar hugsanir, sem maður þarf að hugsa til að skrifa blogg.
Í gær var fyrsti dagurinn í vinnunni. Þegar ég kom var stelpa í móttökunni sem beið eftir mér til að taka á móti mér. Hún heitir Anna og hún sýnir mér og kennir mér starfið. Mitt starf felst í því að þrífa á elliheimili. Ég held að þetta elliheimili sé allt öðruvísi en öll elliheimili á Íslandi. Þetta er svona meira heimilislegt. Það er tildæmis frekar ætlast til þess að heimilisfólkið komi með sín eigin húsgögn. En það eru líka til húsgögn fyrir alla sem það vilja. Það eru litir á veggjunum, blóm,  mottur á gólfunum og ýmist annað til þess að lífga upp á staðinn. Þarna er þjónusta fyrir allskonar fólk. Það eru íbúðir fyrir fólk sem þarf enga þjónustu, getur séð um sig algjörlega sjálft, eldað, þrifið. En það fólk getur líka fengið heimaþjónustu ef það vill það. Síðan eru íbúðir fyrir fólk sem þarf ummönnun allan daginn. Og íbúðir fyrir fólk með Alzheimers eða elliglöp. Og allt annað eldra fólk. Flestar íbúðirnar samanstanda af svefnherbergi, stofu, baðherbergi og eldhús krók.  Það eru misstórar íbúðir samt. sumar eru mjög stórar fleiri en eitt herbergi. Og minnstu íbúðirnar eru svefnherbergi og bað. Það fer eftir deildum hvernig íbúðir eru. Fólkið sem getur séð um sig sjálft að mestu leiti, má líka hafa dýr, sumir eru með hund eða kött. Ég þríf aðallega á starfsmannahæðinni en líka smá hjá Alzheimersfólkinu. Ég þríf ekki inni hjá fólki. Í gær þreif ég starfsmannahæðina, klósett, setustofu, herbergi til að skipta um föt í og þvíumlíkt, og síðan eldhúsið hjá Alzheimersfólkinu. Stelpan, Anna er með mér og sýnir mér hvernig ég á að gera allt og hvað ég á að gera. Frá og með næstu viku mun ég leysa af konu sem heitir Birgitta, hún mun fara í sumarfrí þá. Anna er sem sagt að kenna mér rútínuna hennar Birgittu á meðan Birgitta vinnur fyrir Önnu.
Ég get ekki sagt að þetta sé skemmtileg vinna. og ég get ekki sagt að ég hlakki til allra virku dagana sem eru á milli dagsins í dag og föstudagsins 22. ágústs. En só far er þetta skárra en eldhúsvinnan síðasta sumar. En ég er hryllilega þreytt í lok dags, get varla staðið í fæturna, er svo þreytt í fótunum eftir að standa 7 og hálfan tíma. Í gær hafði ekki orku til að gera neitt eftir vinnu og ekki heldur í dag. Þetta er kannski eitthvað sem ég mun venjast.  Þetta er bara svo jobbigt!!!

Annars er flott hvernig maður getur talað við annað fólk og skilið hvort annað. Það er finnsk kona í vinnunni, hún talar sænsku og ég tala "sænsku" við hana og það virkar. Mér finnst það æði þegar maður getur talað svona skrítið tungumál við aðra manneskju sem hefur það heldur ekki að móðurmáli. Bæði í dag og gær hef ég þurft að svara spurningunni: "Hur har du lärt dig att prata svenska?" Og svarið mitt er: "Jag har inte alls lärt mig det." Öllum finnst þetta ótrúlega skrítið að ég skuli geta þetta, talað tungumál sem ég hef aldrei, lært né talað áður. En síðan segi ég að ég hafi leigt með sænskri stelpu tvo mánuði síðasta sumar. Ég bara hlusta og hermi. Á tveimur dögum í vinnunni hef ég lært fullt af nýjum orðum, en þau er reyndar flest hreingerninga tengd og því erfitt að nota þau í daglegu tali. Våning er hæð í húsi, trosa er tuska, att damma er að þurrka af eða dusta rik, kjol er pils ekki kjóll, städning eru ræstingar, bottan er jarðhæð í húsi með fleiri hæðum, sem sagt fyrsta hæð eins og við teljum. Svíar telja ekki hæðir eins og við, ég bý til dæmis á 7. hæð í sænska talinu en á 8. í íslenska talinu. Fyrir mér er rökréttara að byrja að telja á 1 en ekki B og halda síðan áfram 1,2,3. Í dag í vinnunni fór ég með Önnu að þrífa hjá gömlum manni sem heitir Olle. Anna kynnti mig fyrir honum á sænsku og sagði hvað ég heiti. Þá segir maðurinn bara Sæl og blessuð! Ég sagði þá bara Sæll og blessaður. Hann áttaði sig á því að nafnið er íslenskt! Hann spurði mig síðan hvort ég talaði norsku eða dönsku. Ég sagði honum að ég talaði dönsku, að ég hefði búið smá tíma í Danmörku, þá talaði hann fína dönsku við mig. Amma hans hafði nefnilega verið frá Danmörku frá Jótlandi. Hann sagðist hafa komið til Íslands einu sinni, en sú heimsókn hafi bara verið einn klukkutími. Hann var í flugi til Ameríku. Það átti ekkert að millilenda á Íslandi en af einhverri ástæðu þurfti að lenda og vera í klukkutíma.  Maðurinn sagði líka Önnu frá orðinu sími. Hann sagði henni þetta orð væri bara notað í íslensku af öllum norrænu málunum. Það þýddi í raun þráður en íslendingar nota það yfir það sem er kallað telefon. Þetta var skrítið spjall.

Ég fór ekkert út í gær eftir vinnu nema smá út á Karlaplan í matvöruverslun. Það tekur svona korter tuttugu mínútur að labba þangað.  Ég er búin að komast að því að Bítlarnir og Karlaplan eiga sér sameiginlega sögu. Sú upptaka sem er talin vera ein sú besta live upptaka Bítlanna var tekin upp í stúdíói sænska útvarpsins á Karlaplani. Sænska upptökustjóranum fannst þetta léleg upptaka, græjurnar lélegar. En John Lennon fannst hún frábær. Hann tjáði sig víst um þetta og sagði að sér finndist þetta vera með bestu live upptökunum sem þeir hefðu gert.
Ég fór bara beint heim eftir vinnu í dag og hef ekki farið útúr húsi, ég er búin að vera í rúman klukkutíma að skrifa þetta blogg. Mig langar reyndar til þess að reyna að fá einhverja af finnsku Nordjobb stelpunum til þess að fara með mér í bíó og sjá Mamma Mia myndina, einhverja næstu daga, kannski bara um helgina. Ég keypti sænskt tímarit í gær þar sem er viðtal við Meryl Streep, sem leikur í myndinni. Ég er ekki búin að lesa það enn, en ég ætla að gera það. En Nú skal lætta ljóði av, eg kvøði ei longur á sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergþóra Jónsdóttir

Hvussu stuttligt er at hoyra kvæði títt, sum tú sigur okkurt og viljum vit orðum væl trúgva.

Minst til at eg elski teg ræðuliga nógv!

Mamma

Bergþóra Jónsdóttir, 16.7.2008 kl. 21:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Úlfhildur

höfundur

Úlfhildur Flosadóttir
Úlfhildur Flosadóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • nóvember 022
  • nóvember
  • flutningar 041
  • flutningar 035
  • flutningar 033

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 505

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband