13.9.2010 | 00:58
Alls konar
Jæja þá er tími kominn fyrir nýja færslu.
Hér verður reynt að stikla á stóru yfir atburði síðustu 14 daga en atriðin verða að öllum líkindum í einni bendu ef ég þekki mig rétt.
Ég er semsagt búin að vera íslensku nemi í tvær vikur og enn sem komið er, er ég hæst ánægð. Bekkurinn er stór á minn mælikvarða, ég reikna með að það séu um 50-70 nemendur, það koma náttúrulega aldrei allir í tímana. 50- 70 nemendur er nú samt fámennt í samanburði við sumar aðrar deildir skólans. En 50-70 er hins vegar mjög fjölmennt í samanburði við 6 manna hóp í dönskudeildinni. Það voru viðbrigði fyrir mig að koma úr fámenninu í dönsku yfir í fjölmennið. En ég verð nú samt ekkert svo vör við allt þetta fólk. En auðvitað er maður lengur að kynnast öllu þessu fólki eða að þekkja það með nafni. Enn sem komið er þekki ég nú bara hann Vigni sem var í MH. En ég ætla nú samt að kynnast fleirum. Liður í þeirri ætlun er að taka þátt í vísindaferð Mímis á Morgunblaðið þar sem starfsemi þess verður kynnt, þó svo að Moggann þurfi ekki að kynna fyrir mér, ég hef farið tvisvar sinnum áður í svona skipulagðar skoðunarferðir á Moggann. Ég ætla fyrst og fremst í þessa ferð til að sýna mig og sjá aðra.
Upphálds fagið mitt í skólanum enn sem komið er er málfræðin. Mér finnst hún bara miklu áhugaverðari og skemmtilegri en nokkurn tíman bókmenntafræði. Mér finnst mun skemmtilegra að orðflokkagreina en að velta fyrir mér bragliðum. Ég er búin að læra það í málfræðinni að barn eins og hann Matthías Hallur frændi minn er komið með allt hljóðkerfi móðurmálsins á hreint. Ég reikna með að Matthías Hallur sé væntanlega auk hljóðkerfis móðurmálsins kominn með sænska hljóðkerfið nokkur á hreint. Í málfræðinni veltum við líka fyrir okkur hvernig málvitund fólks virkar, fólk hefur nefnilega mismunandi málvitund. Það er að segja það sem einum þykir eðlilegt í málinu getur öðrum þótt algjörlega út í hött.
Ég hef lítið að segja um bókmenntafræðina, hún er fín en höfðar í augnablikinu ekki eins til mín og málfræði. Eða kannski er það bara bragfræðin sem mér finnst leiðinleg en það er það sem við fengumst við í síðustu viku.
Í aðferðum og vinnubrögðum á þriðjudaginn fórum við að skoða Árnastofnun og fengum þar að skoða gömul skjöl sem var mjög merkilegt og gaman að mínu mati. Þar fengum við að sjá rit frá 12 öld og mig minnir að það sé elsta rit sem til er á norrænu máli í öllum heiminum. Ég fæ nú bara hroll við tilhugsunina að ég hafi séð slíkt rit með berum augum. Hin ritin sem við fengum að sjá voru samt heldur yngri. Við skoðuðum líka hljóðritasafnið og komst að því að vinnan þar er endalaus, en þar vinnur fólk við að færa gömul hljóðrit á kassettum yfir á stafrænt form og koma um leið skipulagið á skipulagt óskipulagið. Á fimmtudaginn fórum við síðan vestar í bæinn og skoðuðum Orðabók háskólans. Það var ekki eins skemmtileg heimsókn, eiginlega fannst mér hún leiðinleg á stórum köflum. Skrifstofur eru almennt ekkert mjög spennandi.
Ég er búin að fara tvisvar í þýsku, fyrst fór ég bara í einstaklingsviðtal til kennarans, sem kennir líka eitthvað í MH en hefur samt ekkert kennt mér þar, ég held hann sé mest í öldungadeildinni. Það samtal var bara stutt og fór fram á íslensku. Síðan núna á miðvikudaginn fór ég í fyrsta tímann. Það eru ekki eiginlegir tímar í þýsku en maður þarf að mæta níu sinnum í svokallað Workshop yfir önnina. Í tímann sem ég fór í á miðvikudaginn mættu tveir aðrir nemendur, maður mátti sko velja um nokkra tíma þannig að restin mætti á öðrum tímum. Ég fór nánast dansandi af gleði úr Nýja Garði þar sem þýskan var, því ég var betri í þýsku en hinir tveir nemendurnir sem þar voru. Það gaf mér rosalegt boost. Ég gat meira að segja rætt við kennarann á þýsku og ég held að mér hafi tekist nokkuð vel að koma frá mér því sem ég hafði að segja. Mér finnst mjög gaman að hafa núna átt samtal við Þjóðverja á þýsku. Ég hlakka bara rosalega til að halda áfram í þýsku. Þegar ég svaraði spurningu kennarans um af hverju ég sé í þýsku, fannst honum svarið mitt merkilegt. Ég sagði nefnilega að ég væri þarna eiginlega bara af því mér finnist tilgangslaust að vera búin að verja tveimur og hálfu ári í að læra eitthvað tungumál í framhaldsskóla og gera síðan ekkert við. Þetta er náttúrulega dagsatt, en það var eins og þetta væri ekki svar sem hann heyrði oft. Hann sagði mér þó að hann hefði heyrt skrítnari svör, til dæmis hafa komið strákar komið sem hafi viljað læra málið af því þeir eiga kærustu frá Þýskalandi.
Um bloggið
Úlfhildur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hæ.
Maður er svakalega fljótur að rifja upp tungumálakunnáttuna þegar maður þarf. Ótrúlegt hvað geymist vel í heilahólfinu, jafnvel eftir áratugi. Fann það best þegar ég fór til Ítalíu og gat fylgt eftir samræðum fólks. Set þig á RSS - ætla ekki að missa af neinu hér.
Knús
Siggan
Sigga (IP-tala skráð) 15.9.2010 kl. 18:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.