stórir hringir og hjartalaga

Núna er ég næstum því búin að vera íslenskunemi í mánuð. Á morgun, fimmtudag verður mánuður liðinn. Mikil ósköp líður tíminn hratt, verð ég að segja. Ég er meira að segja búin að skila og fá til baka fjögur verkefni. Það eru verkefni í málfræði og aðferðafræði. Nýjasta verkefnið sem ég fékk til baka var aðferðafræðiverkefni sem ég fékk 3 af 3 fyrir. En það var nú bara einfalt verkefni í gagnrýninni hugsun.

Enn hrífst ég ekki svo mjög af bókmenntafræðinni, en við erum búin að vera að fást við bragfræði og stílbrögð sem er eiginlega bara upprifjun frá því í framhaldsskóla og jafnvel úr grunnskóla. Fyrirlestrartímarnir eru yfirleitt mjög fínir, en það er önnur saga með umræðutímana sem mér finnst vitagagnslausir. Ég fæ alla veganna ekkert út úr þeim og ef ég á að segja satt hundleiðist mér í þeim. Mér finnst þeir að mestu vera vitleysa. En hingað til höfum við verið að túlka ljóð og mér finnst svo margir samnemendur mínir oftúlka ljóðin um of. Ég hef lært það að það er ótrúlegt hvað fólki dettur í hug. Sumt er svo langsótt og vitlaust.  En kannski aðhyllst ég bara einfaldar og skýrar túlkanir sem ég á auðvelt með að rökstyðja með hjálp ljóðsins. 

Málfræðin er alltaf æðisleg. Það kom sögulegur málfræðingur til okkar um daginn í aðferðum og vinnubrögðum að fræddi hópinn um sögu íslenskrar málfræði og þar varð ég margs vísari. Vissuð þið til dæmis að sterka beyging sagna er frá því 4000 fyrir Krist þegar málið var indóevrópska og að veika beygingin er nýjung úr germönsku frá 1000 fyrir Krist. Ég komst líka að því að um tíma datt táknið ð úr málinu en það var af því að það varð málbreyting í Noregi og ð hljóðið fór, en málbreytingin varð ekkert á íslensku og því varð ð aftur tekið í notkun síðar. Orðið hönd er af svo kölluðum kvenkyns u-stofni og er eina slíka orðið í íslensku. Með því að skoða gotnesku hafa fræðingarnir fundið út hvers vegna orðið beygist svona skringilega í þágufalli(hendi). En það er vegna þess að orðið yfir hönd á gotnesku er handus og u-ið þar kallar fram hljóðvarp þannig að a-ið breytist í e og u í i, eða eitthvað svoleiðis. En það sem mér fannst merkilegast í þessu var hvernig fræðingarnir hafa pælt í þessu og rannsaka einstök orð og finna reglu í hlutunum svona langt aftur í tímann með hjálp annarra útdauðra mála. En hvað um það, ég ætla ekki að skrifa upp allt það sem kennararnir segja eða ég hef glósað niður. Það er ekkert spennandi ;D

 Annars hefur mér fundist ég vera heldur heimspekilega þenkjandi upp á síðkastið.  Það er held ég öll gagnrýna hugsunin. Ekki það ég sé ekki heimspekilega þenkjandi og beiti gagnrýninni hugsun að staðaldri. Það er nú fjöldi kennara í MH sem predika gagnrýna hugsun og heimspeki. Það eru kennararnir sem staglast á því að þeir séu sko að undirbúa nemendur fyrir hugvísindi á háskólastigi. Ég tel óþarft að taka fram að þeir kennarar sem þetta segja eru flestir tungumálakennarar. (Innskot: Hver deild Háskólans, að minnsta kosta innan hugvísindasviðs, hefur sinn eigin, fílósófíska/aðferða kúrs og fær að velja sjálf hversu mikið er heimspeki og hversu mikið er aðferðafræði eða bara hvað er gert í þessum kúrsum. Í deild erlendra tungumála er kúrs sem byggður er á fræðinni á bakvið heimspekina. Þar er maður látinn læra um heimspekinga, allt frá Sókratesi. Og maður þarf að kunna góð deili á mönnum eins og Descartes eða Derrida, kenningum þeirra og geta borið þær saman. Þetta fannst mér drepleiðinlegt og sá engan(og enn sé engan) tilgang með að geta það. Ég hef alla veganna ekki séð hvernig fræðin um heimspekinga á gagnast mér í minni fræðigrein. Hitt er svo annað mál að heimspeki í reynd er gagnleg en við hana er ekki fengist í deild erlendra mála. Þar prófar maður ekki kenningar. En í aðferðafræði íslenskunnar er meira um að maður sé látinn beita heimspeki sjálfur.) Gagnrýnin hugsun og heimspeki er tvennt nátengt því með góðum vilja er hægt að beita gagnrýninni hugsun á næstum hvað sem er og þá leiðist maður gjarnan út í hringlaga heimspekihugsanir. Hvernig get ég verið viss um að grasið úti sé grænt en ekki fjólublátt? - Svarið við því er auðvitað að ég get ekki alls ekki verið viss um það, en á sama tíma veit ég að það er það af því fyrir löngu hefur fólk sett orð á sjónir sínir. Á einhverjum tímapunkti hefur verið maður, eða kannski öllu heldur menn sem hafa byrjað á kalla þetta grænt og það bara staðið óbreytt. Það er samfélagslega staðfest að gras er grænt, en gætu samt ekki augu allra verið að blekkja þá og það sem við sjáum grænt sé í raun eitthvað annað. Ég gæti meira að segja velt því fyrir mér hvort gras sé rétt heiti fyrirbærisins.  Það hljómar kannski óttalega absúrd og langsótt hugmynd en það er ekkert hægt að vera handviss um þetta. Í framhaldi af þessu gæti ég svo hugsað Hvernig veit ég eitthvað eða hvað veit ég. Reglulega hugsa ég um þetta og kemst alltaf að sömu árans niðurstöðunni um að í raun viti ég ekki neitt. En um leið og ég fullyrði að ég viti ekki neitt er ég að gefa til kynna að ég viti eitthvað. Því ég veit að ég veit að ég veit ekki neitt og um leið og ég veit að ég viti ekki neitt hefur niðurstaða mín um að ég viti ekki neitt fallið um sjálfa sig, því ég veit að minnsta kosti að ég viti ekki neitt. Ég hef því þegar öllu er á botninn hvolft einhverja vitneskju. Fyrir nokkrum árum hugsaði ég fyrst í hring og fannst það svo óþægilegt því ég varð bara rugluð af öllum hugsununum og beinlínis bara illt í höfðinu. En eftir því sem ég hugsa meira svona því minna óþægilegt er það. Hitt er svo annað mál að þegar ég hugsa um að mér finnist hringlaga hugsanir ekki jafn hræðilegar, finnst mér það hræðileg hugsun að mér gæti átt eftir að finnast það þægilegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergþóra Jónsdóttir

....sjáumst þá bara í vor elskan mín!

Bergþóra Jónsdóttir, 23.9.2010 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Úlfhildur

höfundur

Úlfhildur Flosadóttir
Úlfhildur Flosadóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • nóvember 022
  • nóvember
  • flutningar 041
  • flutningar 035
  • flutningar 033

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband