2.3.2007 | 21:57
Hér kemur Úlfhildur klifurmús...
Tveir undarlegir dagar verð ég að segja. Gærdagurinn byrjaði í líkamsrækt. Gitte þurfti að byrja á því að finna strákana. Hún komst að því að strákarnir eru latir. Rasmus sagðist vera of illt í bakinu, honum var ekki baun illt í bakinu. Jónas sagðist ekki hafi borðað morgunmat og hefði farið of seint að sofa. Gitte ansaði því með "og?". James sagðist þurfa að fara til Århus, en síðan kom í ljós að hann þurfti ekki að fara fyrr en eftir hádegi. René var límdur við fréttir. Nepalski náunginn Pritivi hann sagðist ekki geta verið með því hann væri með blöðru á tánni. En við stelpurnar vorum allar á staðnum, Claus var líka og svo kom René. Við byrjuðum á styrktaræfingum á stóru boltunum. Þessar æfingar sem við gerum kallast á ensku Body Balance, það er eitthvað sem Gitte lærði í Ameríku, hún er víst ein af fáum í Danmörku sem stunda þetta á þennan hátt. Þegar við vorum búin í æfingunum sátum við á boltunum, þá sagði Gitte að okkur hefði flestum farið mjög fram í þessum æfingum. Hún sagðist sérstaklega tekið eftir breytingum hjá mér. Hún sagði að hún sæi mjög vel að líkaminn minn sé í betra jafnvægi núna en fyrir nokkrum vikum. Mikið var ég stolt. Við tókum síðan smá pásu en eftir pásuna ætluðum við að spila Badminton. Eftir pásuna bættist Pritivi í hópinn. Badminton er uppáhaldsíþróttin mín. Reyndar er hún nokkurnveginn eina íþróttin sem mér finnst gaman að leika. Ég átti að spila með Pritivi í tvendarleik. Leikurinn byrjaði. Ég var ekki með hugann við leikinn, hitti aldrei fjöðrina. Það var meðvitað. Pritivi var að segja mér hvað ég ætti að gera, ég kann fjárans reglurnar, og er betri en hann í badmintoni þar að auki. Síðan þegar þetta hélt áfram stoppaði Gitte mig og sagði mér að ég þyrfti að hitta fjöðrina. Ég sagði þá við hana að ég gæti ekki spilað með Pritivi. Ég var gífurlega pirruð og óánægð, Gitte spurði mig þá hvort hún ætti að spila fyrir mig. En síðan ákvað hún frekar að láta Dömlu spila í staðin fyrir mig svo við gætum talað saman og að ég gæti sagt henni ástæðuna fyrir því hvers vegna ég gæti ekki spilað með stráknum. Við fórum fram á gang og ég útskýrði allt. Staðreyndin er sú að Pritivi er leiðindagaur. Hann sagði um dagin við Kingu að hún væri of feit, Kinga er sko ekkert of feit. Hún er bara passleg, venjuleg. Hann sagði það sama við Joan, media kennarann. Síðan skrifaði hann ástarbréf til Mette, eitthvað um það að hann geti ekki lifað annan dag án hennar. Eftir að ég hafði lokið við að vaska upp á miðvikudaginn þá sat ég í stofunni, drakk te og var að lesa blað, þá kom Pritivi og settist við hliðina á mér. Fór að babbla eitthvað. Það er svo erfitt að skilja hvað hann segir. Ég þarf að segja ha svona fimm sinnum og giska síðan hvað það var sem hann sagði. Hann gagnríndi mig fyrir það hvernig ég var í útilegunni. Hann sagði að ég hefði bara setið allt kvöldið og ekki talað við neinn, sem var ósatt. Það er satt að ég sat mest allt kvöldið, en ég sat ekki ein og ég talaði við fólkið. Ég var að segja frá draugunum í skólanum og tók þátt í öðrum umræðum. Það var hann sem sat allt kvöldið og sagði ekki orð. "The pot calling the kettle black." Ég varð dálítð pirruð, ekki bara útaf þessu heldur líka útaf því að mig langði bara til að slappa af, drekka teið mitt og lesa þennan túrista bækling um Fredericia sem var mjög áhugaverður. Það eru líka fleiri sem eiga í vandræðum með hann,Damla þar á meðal. Ég sagði Gitte frá þessu öllu saman. Mér bara líkar ekki við náungan. Hún sagði að svona mál þurfi að taka alvarlega og að hún ætli að tala við Torben, og svo muni þau finna leið til að segja Pritivi að hann geti ekki hegðað sér svona. Ég var bara búin að fá nóg. Ég gat þetta ekki. Fyrir utan þetta uppþot hjá mér í gær, var þetta samt bara fínn dagur.
Dagurinn í dag er búinn að vera hryllilega langur og einstakur. Við vorum í tíma með Gitte í morgun og við fórum til Fredericia að klifra á klifurvegg. Ég var að hugsa í morgun um að fara ekki, ég hafði efasemdir um þetta. En ég var bara of forvitin til að fara ekki. Þannig að ég dreif mig bara með. Með það í huga að ég gæti prófað og ef mér líkaði ekki þá gæti ég bara setið hjá og horft á.Þegar við komum á staðinn, hittum við klifurkennarann. Ég sá strax að þetta var maður sem hægt væri til að treysta. Svona karl um fimmtugt held ég, og ég er viss um að hann er vog. En hvað um það, við fórum öll í svona belti, svo það væri hægt að fest reipið við okkur þegar við færum á vegginn. James byrjaði að klifra á auðveldasta staðnum hann þaut upp og svo niður, Jónas gerði það sama, síðan Damla og síðan Rasmus. Þá vorum bara ég og Berglind eftir, við vorum báðar hræddar. Ég fór þá af stað, ég byrjaði bara á því að fara svona metra upp og þá gafst ég upp. Og lét manninn slaka á reipinu svo ég kæmist niður. Þá fór Berglind upp, hún er lofthrædd en fór í fyrstu tilraun aðeins hærra en ég en kom síðan aftur niður. Næst fór Gitte upp, hún rúllaði þessu upp á sama hátt og Damla og strákarnir höfðu gert. Þegar hún kom niður var röðin aftur komin að mér. En ég var ennþá hrædd, ég er ekki lofthrædd, ég var bara hrædd . En ég fór aftur af stað upp og fór aðeins hærra upp en skiptið áður, en þá fraus ég, ég gat ekki hreyft á mér fótleggina eða handleggina. Þá gafst ég upp og lét mig síga aftur niður. Þá var röðin komin aftur að Berglindi. Hún fór upp og klifraði upp á topp alla leið. En við heyrðum hana margsegja "shit" á leiðinni upp. Henni tókst það! Þegar hún kom niður var adrenalínið á fullu og ofsa gleði. Þá spurði Gitte hvort ég væri tilbúin til að prófa aftur, ég svaraði því neitandi, en sagðist mundi gera það samt. Þetta var þriðja skiptið sem ég prófaði. Þetta er í smá móðu en ég man nokkurnveginn hvað gerðist. Ég byrjaði að klifra, komst á staðinn sem ég stoppaði í fyrri skiptin, ég fraus aftur á þeim stað. Ég fraus algjörlega. Það var hryllilega erfitt að færa fæturna. Ég var þarna föst í smá tíma þangað til Gitte kom bara og tók um fótinn á mér og færði hann, ég hélt þá áfram. Það eina sem hreyfðist þegar ég var svona frosin voru augun í mér og það komu tár. Eftir nokkur skref ofar, þá fóru fótleggirnir á mér að skjálfa og handleggirnir líka. Ég hef Aldrei skolfið svona rosalega. Maðurinn herti á reipinu, svo ég mundi finna fyrir meira öryggi og sagði mér að láta allan þungan falla í ólina og sleppa handleggjunum og slaka á. Ég gat samt bara sleppt einum handlegg í einu. Um þetta leiti var ég held ég svona hálfnuð upp og var búin að segja í örugglega 10 skipti að ég gæti þetta ekki, en ég vildi ekki hlusta á heilann í mér. Heilinn í mér var að segja mér tvennt á sama tíma. Hann sagði mér að gefast upp og hann sagði mér að halda áfram. Ég hélt áfram. Tárin voru hætt að streyma og ég klifraði áfram, þetta varð næstum auðveldara, eftir miðju. Það er seinni parturinn sem er í smá móðu, ég bara man að fæturnir á mér skulfu, þetta var sko meiri skjálfti en venjulegur jarðskjálfti. Ég man líka að ég heyrði Berglindi segja "þú getur þetta!" og Gitte "Du skal slappe af" síðan heyrði ég Jónas segja "You can do it girl!" En á því augnabliki voru eyrun mín ekki beint að hlusta. Ég var held ég í einhverjum öðrum heimi. Ég reyndi að slaka á í fótunum svo að þeir hættu að skjálfa svo ég gæti haldið áfram. Þetta gekk svona með ofsa skjálftum og pásum. Ég komst að lokum á toppinn, 10 metra. Það var band á toppnum, ef maður togaði í bandið þá hringdi bjalla á enda bandsins. Ég hringdi bjöllunni. En síðan tók við meiri erfiði, það var að komast niður aftur. Maðurinn sagði mér bara að halla mér aftur, sleppa höndunum af veggnum og taka um reipið og setja fótinn í vegginn. Þetta var brjálæðislega erfitt, það tók mig langan tíma að gera bara þetta. Ég var næstum að pissa í mig af hræðslu. Ég skalf líka. Ég veit samt ekki við hvað ég var hrædd. Ég var farin aftur að gráta. En á endanum tókst mér að sleppa höndunum og spyrna með fótunum í veginn og ganga niður. Þegar ég kom niður grét ég og skalf. Þá kom Gitte og tók utan um mig og Berglind kom líka. Ég bara grét, hágrét ef ég á að segja satt. Síðan settist ég bara á gólfið, fæturnir á mér gátu ekki haldið líkamanum uppi. En mikið var gott af finna fyrir gólfinu. Það tók dálítinn tíma fyrir mig að hætta að gráta og skjálfa en síðan var allt í lagi. Ég bara gat ekki ráðið við þetta. Ég var stolt af sjálfri mér. Ég spurði síðan hvað ég hefði verið lengi að þessu, þau sögðu mér að ég hefði verið svona korter. Þetta var án efa lengsta korter sem ég hef upplifað. Mér finnst þetta hafi verið um klukkutími, frekar en korter, tíminn var svo lengi að líða... En fyrir mér er þetta eitt mesta afrek sem ég hef afrekað um dagana. Þetta er held ég bara spurning um að vera í sambandi við rétta hlutan af heilanum. Þetta var miklu erfiðara andlega en líkamlega.
Um bloggið
Úlfhildur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hei hei, mamma er montin, hefði samt viljað vera á staðnum til að knúsa eftir niðurferðina. Ég hefði getað sagt þér að þú gætir þetta vel. Frábært! ..... og myndirnar alveg meiriháttar flottar.
stórt knús, stórt kreist og risa kramm
mamms
Bergþóra Jónsdóttir, 2.3.2007 kl. 22:17
Ég á ekki til eitt einasta orð. Það er aldeilis að þið eruð að púla þarna, og ég ætla að taka þig mér til fyrirmyndar og vera duglegri að fara í leikfimi, sérstaklega þegar heilinn er að segja nei. Er maður ekki í betra sambandi við tilfinningar sínar þegar maður hreyfir sig svona reglulega, það er auðveldara að fá útrás. Já þú ert sko að inspirera mig lillan mín.
Er þessi Pritivi kannski frá Indlandi eða einhverju suðrænu landi? Kannski óþarfi hjá mér að vera með fordóma, en ég man eftir nokkrum svona gæjum og mig minnir að þeir hafi verið alveg meinlausir greyin. Þá vantaði kannski bara athygli. En það er um að gera að láta þetta ekki yfir sig ganga enda hljómar það einsog hann þurfi aðeins að fullorðnast strákgreyið.
Mig langar einhverntíman að fara í badminton með þér, mér fannst það alltaf gaman en er ekki mjög góð, kann bara eiginlega ekki neitt.
Knús í hús,
Ímsí
ímsílíms (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 05:49
Þú varst nálægt nálægt því Íma, Pritivi er ekki frá Indlandi, heldur næsta bæ við, Nepal. Við erum með held ég kringum 10 Nepali í skólanum. Margir þeirra geta enn ekki pissað í klósettið. Okkur norðurlandabúunum til ama.
Badminton er skemmtileg íþrótt. Við gætum kannski einhverntíman fengið tíma í TBR og spilað. Ég er alltaf til í badminton, hvenær sem er. Það er hægt að leigja spaða og fjaðrir held ég líka.
En nú finn ég til í násast hverjum einasta vöðva í handleggjunum, fótleggjunum og maganum, eftir klifrið í gær. En ég er núna að pæla í að fara samt á skauta. Síðasta helgin sem skautasvellið í Fredericiu er opið. Þeir sem vilja geta farið í dag með Gitte sem er vaktkennari, skólinn borgar allt saman. Ég hef ekki skautað utandyra áður.
Úlfhildur Flosadóttir, 3.3.2007 kl. 12:19
Til hamingju Úlfhildur, ég myndi nú kalla þetta klifur stórsigur bæði andlega og líkamlega, þú ert algjör hetja að fara alla leið.
Gaman að lesa bloggið þitt, þú ert alveg frábær.
kveðja, Halla og co.
Þórhildur H Jónsdóttir (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 22:20
Hæ hetja!
Ég veit að þú getur allt sem þú leggur á þig að gera!!!! Skjálftinn og hræðslan er oft fylgifiskur, en það sem skiptir öllu máli er að reyna!!!! Það mikilvægasta er svo það að reyna aftur og aftur og gefast ekki upp. Svakalega er ég stolt af þér Úlfhildur mín...
ást Sigga
Sigga (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 18:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.