5.6.2007 | 21:20
Fimmti dagurinn - Skrítinn en góður dagur.
Þessi dagur var vægast sagt undarlegur. Ég var bara eitthvað að slæpast í náttfötunum upp í rúmi að taka myndaseríu númer tvö af höndunum á mér. Ég er með marblett sem ég hef ekki hugmynd um hvar, hvenær og hvernig ég fékk. Hann er á innanverðum framhandleggnum á vinstri handleggnum. Furðulegt, reyndar ekki í fyrsta sinn sem hrúturinn vaknar og sér marbletti sem hann kannast ekkert við að hafa fengið. En hvað um það. Um 11 leitið, kallaði Marjun upp til mín og spurði hvort ég vildi te og brauð. jú ég þáði það. Ég fór bara niður á náttfötunum, hún var sjálf bara í sloppnum. Undarlegt að sitja svona með eiginlega ókunnri manneskju, en við spjölluðum um himin og geyma í svona klukkutíma þangað til að ég áttaði mig á því að klukkan var korter yfir tólf. Og ég átti að hitta Birnu milli klukkan hálf eitt og eitt, og ég átti eftir að fara í sturtu. Ég þakkaði fyrir mig og samtalið og þaut í örsturtu og síðan upp á baðið mitt og hafði mig til. Og þarna stóð ég, klukkan 13:34, berfætt, komin í föt en var með hárið enn í einni bendu eftir sturtuna og snérist í kringum sjálfa mig með áhyggjur af því að verða of sein, þegar síminn svo hringdi, ég sá að það var Birna( smá útúrdúr um færeysku, færeyingar bera aldrei r-ið fram í nafninu hennar ég hef tekið eftir því að rn-ið verður alltaf "dn".), ég hrökk við ég hélt að hún mundi spyrja mig, hvenær ég kæmi, Ég svaraði og fór að segja eitthvað um það að ég væri á leiðinni(sem var nú ekki alveg rétt. ég hefði ekki komist fyrr en allaveganna 15 mínútum síðar. En svo kom í ljós að hún var að hringja til að láta mig vita að hún kæmist ekki fyrr en klukkan tvö. Ég sagði bara okey að það væri ekkert mál. Hún var eitthvað að afsaka sig, en það var ekkert að afsaka. Ég var ekki tilbúin. Síðan þegar því samtalinu lauk, þá andaði ég léttar og gat bara tekið mér minn tíma í hár, maskara, sokka, skó og eyrnalokka. Ég var samt smá dösuð eftir sturtuna og þetta litla tímastress mitt þannig að ég lagðist bara niður í smá tíma bara til að hvíla mig. En síðan var kominn tími til að fara í bæinn á Hótel Hafnía(ég á ennþá í basli með þetta, a-ið verður bara svo langt ef ég geri f hljóð á undan n-inu, það er það sama og með Keflavík, ég þarf að æfa mig í að segja Hafnía með stuttu a-i en með f hljóði).
Ég fór í Moggapeysuna mína sem hefur verið himnasending frá því að mamma kom með hana heim úr vinnunni fyrir 3 og hálfu ári síðan, alltaf jafn góð og síðan í lopapeysuna yfir. Síðan þegar ég var komin út uppgötvaði ég það var barasta hlítt úti og alsengin þörf á tveimur peysum. En mér var samt ekkert svo heitt í lopapeysunni. Ég spurði um Birnu í lobbíinu, á dönsku og maðurinn sagði mér að doka við á ensku. Jújú ég dokaði við. Síðan heyrði hann kvenmannsfótatak í tröppunum og kallaði þá til hennar að segja að ég væri komin. Ég er líka farin að þekkja hennar fótatak, það er ákveðið og heyrist vel því hún gengur um á hælum. Hún er sko álíka "hávaxin" og ég. Við fórum að tala saman á dönsku og maðurinn í afgreiðslunni horfði á mig með afsökunar augnaráði að hafa talað ensku við mig. Jæja það var komið að því að tala saman um framtíð mína á Hótel Hafnía. Við settumst við borð á barnum sem var lokaður en fengum samt gos að drekka. Framkvæmdastjórinn getur sko gert það... Við ræddum möguleikana en enduðum síðan á þvi að gera samkomulag. Samkomulagið er að ég klára þessa prufuviku og vinn bara átta tíma á dag. Prufuvikan endar á sunnudaginn þá er ég búin að vinna sjö daga samtals. Þá get ég tekið endanlega ákvörðun.. Ég á núna fjóra daga eftir og ef ég á að segja eins og er þá get ég ekki beðið þangað til klukkan 18:00 á sunnudaginn. Ég bara get ekki séð mig fyrir mér í eldhúsinu í allt sumar. Ég veit að þetta er bara fyrsta vikan mín og allt er erfitt. En mér finnst bara eldhúsvinna ekki spennandi. Þannig er það nú. Mér finnst hún meira að segja dálítið leiðinleg. Ég veit að ég á að vera ánægð með vinnuna því þetta er vinnan sem ég fékk. En ég get ekki að þessu gert, ég er ekki ánægð í eldhúsinu og sé mig ekki fyrir mér ánægða í eldhúsi. Síðan skammast ég mín rosalega fyrir að vera með þetta vesen og að hafa farið að gráta þarna á föstudagskvöldið. Ég veit að það er bara náttúrulegt að gráta, en það er samt svo ókúl. Mér finnst ég vera algjör smákrakki að vera að vola yfir þessu öllu saman. Og að vera að vola yfir því að hafa skælt fyrir framan yfirmenn mína. Æji, þetta er bara erfitt. Ég er ekki viss hvort ég geti þraukað viku í viðbót, en ég bara verð...Ég veit ekki afhverju ég valdi eldhús sem starf sem mig mundi langa til að vinna við í Norddjob umsókninni minni. Því eldhús og eldamennska er langt fyrir utan mitt áhugasvið. En hvað um það. Birna er svo sæt við mig að það er ekki eðlilegt. Hún bauðst til þess að sýna mér gamla bæinn. Ég þáði boðið. Ég beið bara eftir henni í lobbíinu. Það var allt fullt af ítölum sem voru háværir. Einn þeirra var í tölvunni að lesa fréttir af ítölskum fréttavef fyrir hina... Þeir fóru samt fljótt ég settist þá í tölvuna og tölvaði. Hálftíminn sem Brina hafði sagt varð klukkutími en það gerði ekkert til ég hafði ekkert að gera. Bara ánægð að komast í tölvu, lengur en í 5 mínútur, geta skoðað tölvupóstinn minn og kíkt á mbl.is. og athugasemdir á blogginu mínu auðvitað. Síðan kom Birna niður og í fylgd með henni var hundurinn hennar. Hann er lítill og sætur og heitir Prins. Við gengum út og gengum yfir í gamlabæinn. Mér finnst þetta alveg ótrúlegt þessi gömlu hús og þessar pínkupons götur. Hún sagði mér að fyrir nokkrum átti að rífa mörg húsanna niður og byggja ný háhýsi. Hverjum dettur þannig í hug segi ég nú bara. Síðan gengum við út á Tinganes, þar sem lögþingið þeirra er. Þar eru rúnir ristaðar fyrir utan. Það er teiknað ofan í þær með krít svo það sé hægt að sjá þær betur. Við gengum síðan lengra og spjölluðum. Sólin fór að skína og það vara barasta fínasta sumarveður. Birna segir að þegar Danir spyrja hvenær Færeyingar noti stuttbuxur og toppa sé svarið það, að þeir hafi aldrei þörf á þeim fatnaði nema í útlöndum, Dönunum til undrunar. Við enduðum síðan í ísbúð í gamla bænum, settumst á bekk við dýrustu húsin í bænum og horfðum yfir höfnina. Mér finnst þetta svo sætt af henni að það lætur mér líða enn verr út af óánægju minni í eldhúsinu. Þetta var eiginlega bara frábær sunnudagseftirmiðdagur sem endaði allt öðruvísi en ég hafði planað.. Hún benti mér síðan á Skansinn hér. Það er svona ns með vita á, svona eins og Grótta, ég ætla að ganga þangað einhverntímann. Eftir þennan undarlega sunnudagseftirmiðdag klukkan um fimm fór ég heim.
Ég var bara eitthvað að dunda mér þangað til það var kominn tími til að hitta Amöndu í bænum, klukkan sjö. Við ætluðum að sjá Þjóðdansa í Norðurlandahúsinu, því hún fær ókeypis miða. Þetta voru danskir og færeyskir dansar. Amanda hafði aldrei séð hvorki færeyska dansa né danska dansa. Ég hef séð og tekið þátt í færeyskum dansi. Vælkomin Ólafur riddararós.. Ég minntist þess þegar Sigga bjó á Akranesi og ég var í heimsókn og við fórum að hlusta á minnir mig færeyskan kór og svo var dansað á eftir. Var það ekki þannig? En hvað um það. Ég og Amanda komum inn í húsið. Það var fullt af fólki. Við vorum ekki bara yngstu manneskjurnar þarna svo vorum við líka öðruvísi að því leiti að við vorum þær einu sem voru ekki í þjóðbúningi. Ég var nú samt á þjóðlegu nótunum í íslenskri lopapeysu. En samt held ég að peysuföt eða upphlutur hefðu átt betur við á þessari samkomu. Það var danshópur frá Danmörku í heimsókn hjá þjóðdansafélagi Færeyja eða eitthvað þannig... Það var danskur kynnir sem talaði dönsku. Mér fannst þægilegt að heyra dönsku talaða af Dana aftur. Ég held að mér þyki vænt um Danmörku og dönsku núna. Mér finnst ég tengjast Danmörku svo. En hvað um það. Það voru dansaðir danskir dansar. Ég hafði aldrei séð danska þjóbúninga hvað þá dansa. Þegar ég sá búningana, þá þekkti ég stílinn frá dönskum málverkum sem ég sá á listasafninu í Århus. Þeir voru allir mjög litskrúðugir. Dansarnir voru hinsvegar skrítnir. Þetta voru náttúrulega hringdansar og þeir voru með hinum og þessum hoppum, snúningum og mest af öllu hneigingum. Þau voru stöðugt að hneigja sig fyrir hvort öðru. Eiginlega fyndið. Hljómsveitin sem danirnir voru með var hinnsvegar afskaplega léleg. Fiðlarinn má æfa sig betur, held ég. Síðan kom færeyski dansinn. Hann þekkti ég nú. Dansararnir byrjuðu en svo bættist náttúrulega við fólk úr salnum, Amanda vildi prófa svo við fórum og vorum með. Við dönsuðum held ég hátt í hálftíma. Ég náði ekki alveg innhaldi textans, bara það að Noregsmenn koma við sögu. Þetta var skrítið en samt gaman. klukkan var um hálf níu(níggju) þegar dansarnir voru búnir. Ég fór þaðan með þjóðlegar hugsanir í kollinum. Ég held að Íslendingar rækti ekki nóg gamlar hefðir og siði. Fyrir utan það að okra á útlendingum sem kaupa ullarpeysur. Við héldum síðan í bæinn á minn heimavöll Hafnía, þar var ítölsk þjóðlagatónlist. Við sáum á leiðinni fólk vera að setja upp græjur, það átti eitthvað að gerast frá 10 til 11. Við ákváðum samt að fara fyrst inná Hafnía, vera í til klukkan hálf 11 og fara svo út að hlusta á hina. Þegar við komum inn þá var ítölsk tónlist og þjóðdans og þjóðbúningar. Dansinn var nánast sá sami og danski dansinn og búningarnir mjög svipaðir. Síðan var bara fjör og músík. Ég hitti náttúrulega Birnu. Hún virðist vera alltaf þarna. Hvenær hún er heima hjá sér og hvenær hún sefur, er ráðgáta held ég. Eftir hálftíma með Ítölunum fórum við síðan út að kíkja á hina. Þá voru tvær stelpur að syngja, þær voru fínar svo við ákváðum að setjast niður á hlusta en síðan var lagið búið og þá kom maður á sviðið að boða kristna trú. Nei því nenntum við ekki. Svo við fórum bara aftur inn í fjörið hjá Ítölunum og vorum til klukkan 11 þegar það var búið. Þá skildu leiðir okkar Amöndu og við fórum heim. Ég var ennþá með hugann við þjóðdansa og þjóðbúninga. Mér finnst þjóðbúningar alltaf flottir.. Ég bara pæli í því hvernig það væri ef fólk hér í vestur Evrópu notaði þjóðbúninga að staðaldri. Allar konur í pilsum eða kjólum, og karlarnir í fínum fötum. Mundi það passa á Íslandi í dag? Nei ég efast um það.
Eftir að ég kom heim fór ég bara að hátta, las viðtalið/greinina við Dolly Parton í danska vikublaðinu sem Marjun lét mig hafa. Það var nú ekkert sem ég ekki vissi, nema það að Dolly og maðurinn hennar eru ekki með neinn sem eldar fyrir þau eða þvær þvottinn eða vaskar upp fyrir þau. En að húshjálpin þeirra kemur einu sinni í viku á fimmtudögum og þrífur gólfin. Er það ekki gott að vita?
Um bloggið
Úlfhildur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.