7.6.2007 | 12:43
Sjöundi dagurinn - langur dagur (enn og aftur)
Dagurinn byrjaði, eins og fram kom í síðasta bloggi, ekki sérlega vel. Byrjaði hreinlega illa. Eina lausnin við ógleðinni var bara að fara út að labba og fá frískt loft í lungun. Og viti menn eftir smá labb með ipodinn í eyrunum var mér farið að líða ögn betur. Ég byrjaði bara að ganga um í bænum. En síðan fann ég skógræktina í Þórshöfn. Stór og fallegur garður. Alveg hreint æðislegur. Það var líka heiðskírt og heitt. Örugglega nálægt 20 gráðum. Af veðrinu sem hefur verið hér síðustu dagana að dæma, þá held ég að við Íslendingar séum verr staddir hvað veðrir varðar en Færeyingar. En síðasta sumar á Íslandi var nú ekkert venjulegt. Rigndi allt sumarið á meðan restin af Evrópu fékk ekki dropa yfir sumarið. En hvað um það, það var gott veður hér og ég gekk í hringi í garðinum og settist síðan af og til á bekk og horfði á aðra spóka sig. Um hálf þrjú rölti ég svo bara heim. Ég lagði mig í um klukkutíma og hafði mig bara til fyrir vinnuna eftir það.
Ég kom á hótelið klukkan 4. Þar beið mín enn meiri laukur og meiri sviði undir nöglunum. Ég græt hinsvegar ekki yfir þessum lauk. Það var í fyrradag(mánudag) að Birna kom í eldhúsið til að fá sér ís. Ís tvo daga í röð, mér er farið að þykja það bratt. (Svona varð ég í Danmörku, borðaði sætindi svo örsjaldan að mér finnst alveg rosalegt að borða sætt tvo daga í röð.Það er af sem áður var.) En það vildi þannig til að ég stóð að plokka utan af laukum við hliðina á ískistunni og hún brosti og spurði hvort ég gréti nokkuð og vildi sjá augun í mér. Ekki neitt athugavert við augun í mér. Seinna í gær var ég hinsvegar að skera rauðlauk og þá hágrét ég. Það var nánast táraflóð. Mér finnst alltaf skrítið hvernig þetta gerist. Í gær lærði ég líka að skrautskera epli. Það var erfitt en síðan gekk það okey. Ég er búin að ákveða hvað ég ætla að panta mér í eftirrétt ef ég borða einhvern tímann á veitingastaðnum á Hafnía. Kanilfyllt epli. Þau litu hryllilega vel út. Annars er eiginlega ekkert sem ég get gert á kvöldin. Það er bara verið að elda mat. Það eina sem ég gerði í gærkvöldi var að plokka af lauknum, skera gulrætur, gúrkur, rauðlauk (allt danskt grænmeti) og síðan eplin. Það var í stórum dráttum það sem ég gerði. Jú ég skar líka tómata. Síðan tók ég langa kvöldmatarpásu og talaði við uppvaskarann, sem er nýr. Hann spilar á selló og hann hefur komið til Íslands einu sinni til að spila á sellóið sitt. Hann sagðist hafa spilað í Reykjavík og í bæ með s-i. Ég fór að spyrja hann frekar um það, bær með s-i. Hann sagði þá að það væri kirkja í bænum. Ég varð nú ekki vísari við að fá þær upplýsingar. Síðan kom það bærinn var nálægt Reykjavík. Ég giska að hann hafi spilað á Seltjarnarnesi. Næsti bær sem ég mundi eftir með s-i var bara Selfoss. Sandgerði, Stykkishólmur, Súðavík, Sauðárkrókur, Siglufjörður og Seyðisfjörður voru allir út úr myndinni. Hann er bara að safna sér inn peningum því í haust fer hann í konunglegan tónlistarskóla í Kaupmannahöfn. Eftir pásuna mína hélt ég áfram að mestu bara að bíða og gera ekkert. Síðan var klukkan bara orðin hálf tíu og þá var eldhúsinu lokað og þá var farið að þrífa. Ég þurrkaði bara af borðunum og gekk frá nokkrum hlutum og þá var ég búin. Hápunktur dagsins var að tala við strákinn í uppvaskinu. Það eru mest uppvaskararnir sem tala við mig. Ég sagði stráknum að ég væri að hugsa um að hætta í eldhúsinu og fara í uppvask í staðinn, því eldhús vinna ætti við mig. Honum fannst það fyndið. Ég sé ekki hvað er fyndið við það. Ég ætti ekki að vera að vinna með hnífa. Fingurnir á mér eru að detta í sundur, það er bara mesta furða að ég get pikkað á lyklaborðið. Nei nú ýki ég... en ég er með skurð á 8 fingrum af 10, fleiri en einn skurð á nokkrum fingrum. Þó að ég noti aðferðina sem Magni kenndi mér til að skera mig ekki, þá tekst mér samt að skera mig. Klukkan 10 fór ég síðan í lobbíið og settist við tölvuna. Ég vil ekki hanga þar, því tölvan er fyrir gesti en ekki mig. þannig að ég er þar algjört hámark 20 mínútur. Ég setti in bloggin mín og fór síðan bara heim.
Ég lagaði norska Knorr bollasúpu og skellti Gretchen Wilson á fóninn og sötraði súpuna mína og geispaði. Ég var svo þreytt að ég gat ekki einu sinni sungið með inni í mér með uppáhaldslaginu mínu á disknum. En síðan þegar diskurinn og súpan voru búin fór ég bara að hátta og fór að lesa í Félagsskapi kátra kvenna. Bók í uppáhaldsbókaseríunni minni Kvenspæjarastofa númer eitt. Ég les venjulega ekki mikið. En þegar kemur að þessum bókum þá fæ ég ekki nóg. Það var líka þannig með DaVinci lykilinn. En ég gleymdi henni heima. Ég ætla bara að klára hana í haust. Eftir tvo kafla af Mma Ramotswe datt ég út og sofnaði
Orð dagsins er íslenskt en ekki færeyskt. Það er "Allt í lagi". Majrun sagði mér hvernig þetta kom inn í færeysku. Hún sagði að það hefðu Færeyingar farið til Íslands til að vinna í fiski og lært að segja allt í lagi.. Síðan hafi þetta fólk komið heim, segjandi allt í lagi og talandi um molakaffi. Þeir hafi síðan kennt öðrum Færeyingum orðin og þau hafi orðið að tísku orðum og fests í málinu. Ég hef hinsvegar heyrt færeyinga nota Allt í lagi líka á annan hátt en við. Ég hef heyrt þá kveðja hvorn annan með því að segja allt í lagi. bara svona eins og bless.. Ég veit vel að við íslendingar ljúkum stundum samtölum, einkum símtölum, með því að segja "allt í lagi, bless/bæ" En ég hef aldrei heyrt það án bless eða bæ
Um bloggið
Úlfhildur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.