ólíkar matarvenjur Íslendinga og útlendinga

Jæja ég hef ekki skrifað neitt í nokkra daga núna, ég hef verið svo þreytt í lok hvers dags í vikunni sem leið að ég hef ekki haft orku til að pikka einhver orð inná tölvuna. En nú er ég endurnærð og tilbúin  að skrifa.

Málefni dagsins hjá mér er ólíkar matarvenjur. Þó að danskur matur sé gjarnan líkur íslenskum mat þá hef ég tekið eftir því að matarvenjur Íslendinga og útlendinga eru ólíkar. Ég ætla að byrja á morgunmatnum. Á morgnanna er boðið upp á jógúrt, einhverskonar abt-mjólk, þykkmjólk og kornfleks og síðan haframjöl og púðurskykur til að setja útá jógúrtið, abt-mjólkina og þykkmjólkina. Mér finnst þetta alveg fínt þó að mér finnist skrítið að setja Ota haframjöl eins og maður notar í hafragraut út á þykkmjólk. En það er brauðið sem ég botna ekki í. Á morgnanna er líka boðið upp á brauð, hvítt brauð og síðan maltbrauð eða normalbrauð en eina áleggið sem er notað er sulta og ostur. Allir Danirnir og hinir útlendingarnir setja sultu eins og ekkert sé á brauðsneiðina hjá sér. Ég get skilið marmelaði en ekki sultu. Ég þarf altaf að smyrja mér samloku til að hafa til að borða á milli hádegismatar og kvöldmatar, og það er alltaf samloka með osti, mikið er ég orðin þreytt á samlokum með osti. En á sunnudögum er gjarnan meira úrval, í dag var líka boðið upp á tómata, gúrku og spægipylsu. En þetta með sultuna skil ég ekki, fyrir mér er sulta eitthvað sem maður notar með kjöti og vöfflum. 

<>Síðan kemur kvöldmatur. Það sem mér finnst furðulegast þar er að fólk saltar á piprar matinn alltaf með saltinu og piparnum úr staukunum á borðinu. Bæði Danirnir og hinir útlendingarnir gera þetta. Mér finnst matinn hér aldrei vanta salt eða pipar, ég nota örsjaldan extra salt eða pipar á neitt, það eina sem ég nota salt á eru kartöflur,popp og í hafragraut. Þetta finnst mér furðulegt. Ég sá einn Ungverjan um dagin setja salt á brauðið hjá sér, ji minn, mér hefði aldrei dottið það í hug. Síðan annað þegar fólk er búið að borða og situr enn með diskana sína á borðinu þá gengur enginn frá hnífinum ofan í gaffalinn , heldur bara skilja bara hnífapörin einhvern vegin eftir á disknum. Ég veit svosem að þeim finnst mínar matarvenjur líka undarlegar, ég uppgötvaði það um daginn þegar allir góndu á mig stappa bita af steiktum fiski í raspi við kartöflurnar á disknum hjá mér, þau voru öll hvað á það að þýða að stappa þetta tvennt saman af öllu því sem hægt er að stappa saman. Og líka það að ég blandaði haframjölinu vel við þykkmjólkina í morgunmatnum í stað þess að skilja haframjölið ofan á þykkmjólkinni og borða þannig.  Eitt sem ég hef líka tekið eftir með kvöldmat, eg það er kjötmeti þá er sjaldnast sósa með og aldrei sulta. Ég átta mig ekki á því hvað það á að fyrirstilla. Furðulegt

<>Það var eitt sem stórundraði mig um daginn. Það var í morgunmat held ég á fimmtudaginn. Ein ungverska stelpan drekkur altaf mjólk á morgnanna, en á fimmtudaginn fékk hún sér mjólk í glas en spýtti síðan mjólkinni og sagði að þetta væri eitthvað skrítin mjólk. Ég sá á fernunni að mjólkin var ekki útrunnin þannig að ég varð forvitin og náði mér í glas og smakkaði. Ég komst að því að það sem var í fernunni var bara venjuleg nýmjólk og ekkert skrítið við hana. Stelpan hafði bara aldrei drukkið nýmjólk. Mér fannst þetta svo undarlegt, hvernig er hægt að komast hjá því að kynnast nýmjólk. Fyrir mér er nýmjólk ein sú venjulegasta og eðlilegasta mjólkurvara sem til er. Jafnvel þó að ég sé léttmjólkurmanneskja þá er nýmjólk samt venjuleg mjólk. Þetta kom mér svo á óvart.

Það var lamb um daginn í kvöldmat. Dönunum og útlendingunum fannst ekkert athugavert við lambið.. Það var vel matreitt og var þannig séð gott en kjötið var bara ekki gott. Þetta var Ný-Sjálenskt lamb.  það var bara ekki rétt lambabragð af þessu lambi. Mikið eru íslensk lömb bragðbetri og þar á eftir koma grísk lömb.

Þar sem skólinn er frekar alþjóðlegur þá er boðið upp á mjög alþjóðlegan mat. Á laugardeginum fyrir viku voru Ungverjarnir með kennaranum að elda ungverskan mat og á Sunnudaginn fengum við ungverkst langos í morgunmat. Á miðvikudaginn verður japanskur og kínverskur matur sú japanska verður í eldhúsinu ásamt kennaranum og matreiðslu hópnum að elda japanskt og smá kínverskt. Mig langar einhvern daginn til að fá að elda íslenskan mat. Harald langar að hafa Þorramt, kæstan hákarl, svið og hrútspunga. En ég held að það verði sagt pass við því með öllum greiddum atkvæðum ef það verður eldaður íslenskur matur. Ég vil hafa eitthvað venjulegra sem fólk getur borðað., Steikta ýsu í raspi með soðnum kartöflum og þúsundeyja sósu, eða lambakjöt, eða ef ég vil hafa mjög íslensk.. hangikjöt og uppstúf, en þá þyrfti ég að fá kjötið frá Íslandi og ég mundi vilja Ora baunir líka. Ég sé til. Samt held ég að það gæti verið gaman að gera eitthvað, því útlendingar vita almennt ekkert um Ísland og þaðan af síður hvað er borðað á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnast þessar matarpælingar mjög fyndnar. Hefur þú virkilega aldrei fengið þér jarðarberjasultu eða bláberjasultu ofaná brauð mín kæra. Hvar ólst þú eiginlega upp? Ég skora á þig að setja nú smá sultu á ostasamlokuna þína, þú sérð ekki eftir því. Það besta er auðvitað ef það er feitur ostur einsog Brie eða Camembert, að fá sér sultu ofaná það.

Þegar ég fluttist til USA þá kynntist ég auðvitað mörgum matarsiðum í fyrsta sinn, og einn af þeim var hnetusmjörs og sultu samloka. Mér fannst þetta bara alger óþverri og gat ekki skilið að fólki gæti þótt þetta gott. Nú, ég er auðvitað fyrir löngu farin að borða þessa "comfort" samloku með bestu lyst, þetta er einsog að fá sér ristað brauð með osti og marmelaði á íslenskan mælikvarða. Núna er reyndar í uppáhaldi hjá mér möndlusmjör á rískökurnar mínar, mmmmmmm. Það er semsagt um að gera að prófa allt þetta nýja, því ef svona margir eru að setja sultu á brauðið sitt þá hlýtur að vera eitthvað til í að það sé gott. Myndir þú t.d. ekki vilja sannfæra fólk um ágæti hangikjötsins með uppstúfinu, eða þá plokkfisksins.

ímsí

ímsílíms (IP-tala skráð) 17.9.2006 kl. 20:16

2 identicon

Hmm...mér finnst undarlegast af öllu hvað þér finnst matarvenjur annarra undarlegar! Sulta á brauð m/osti ER eðlilegt, en þú ert eflaust ekki vön því heiman frá þér. Ég held að það sé nú þekkt fyrirbæri á öllu Íslandi, tala nú ekki um á ákv.landssvæðum þar sem danir og frakkar vöndu komur sínar til hér um árið. Það er eiginlega skrýtið að við notum ekki meira haframjölið eins og danirnir. Mjög eðlilegt hjá þeim að strá því yfir jógúrtið/ymer eða hvað það nú var. Þeir eru líka duglegir að búa til sitt eigið múslí!. Æ ekki bjóða upp á þorramat. Reynið að fá góðan fisk þó það geti oft reynst erfitt í DK. Lax með soðnum kartöflum og sítrónu + gúrku og tómötum nú eða íslenskt lamb. Þú veist að það er hægt að fá ísl. lamb í DK!! Fylgstu með auglýsingum allra verslanakeðja. Fakta var oft með ísl og SuperBrugsen svo ég tali nú ekki um ISO, en ég er ekki viss um að ISO sé þekkt hjá þér. Aldrei að vita nema þú finnir lambið góða mín.

ólöf Jónsdóttir (IP-tala skráð) 17.9.2006 kl. 21:35

3 Smámynd: Úlfhildur Flosadóttir

SuperBrugsen er einmitt næsta matvöruverslun, ég var þar í gær í Erritsø og Fakta er líka þar.

Úlfhildur Flosadóttir, 17.9.2006 kl. 22:16

4 identicon

Halló Úlfhildur

Amma er stórhneyksluð að það skuli ekki vera GÚRKA á boðstólunum eða tómatar á morgunverðarborðinu eða ekki eitthvað grænmeti í þessu græna frjósama landi sem Danmörk er.
Ömmu fannst þetta vera stórskemmtileg umfjöllun um mataræðið í Snoghöj. Eru danir svona nískir að þeir tími ekki að hafa álegg á brauð? Hvað um egg og síld? Síld var fátækramatur í byrjun síðustu aldar. Soðinn hafragrautur (besti morgunmatur sem völ er á í heiminum) getur ekki verið svo dýr að það sé ekki hægt að bjóða upp á hann. Ég skil það núna hvað danirnir sem dvöldu hjá okkur í vor voru yfir sig ánægð með morgunmatinn, sem þeim var veittur. Þau hafa sennilega aldrei kynnst öðru eins tíu sortum af áleggi og fimm sortum af brauði ekta íslensku smjöri o.s.frv. Ég held að þetta sé níska í dönum varðandi morgunmatinn. Mér finnst þeir ekki heldur hugsa um hollustuna í mataræðinu. Nóg um það.

Bless í bili
amma og afi

Jón Hallsson (IP-tala skráð) 18.9.2006 kl. 02:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Úlfhildur

höfundur

Úlfhildur Flosadóttir
Úlfhildur Flosadóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • nóvember 022
  • nóvember
  • flutningar 041
  • flutningar 035
  • flutningar 033

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband