19.5.2008 | 00:59
Vorönn 2008 í stuttu máli
Hvernig mér gengur að rekja viðburði úr daglegu lífi mínu fjóra mánuði aftur í tímann í stuttu máli, kemur í ljós í þessu bloggi.
Jæja, ég ætla að byrja á skólablaðri, það er líklegast að ég muni eftir því sem gerðist þar. Í janúar byrjaði ég í eftirtöldum áföngum: íslensku, þýsku, náttúrufræði, dönskum taláfanga og enskum yndislestri. Eitt sem ég hef komist að á síðustu mánuðum er að það er til fullt af drepleiðinlegum bókmenntum!
Í íslenskuáfanganum lásum við Sjálfstætt fólk efir Halldór Laxness. Þó hún sé klassísk og möst lestur fyrir Íslendinga, fannst mér hún frekar leiðinleg. Hún var samt mun skemmtilegri en Brennu-Njálssag.(Mér fannst Njála bara leiðinleg saga og óspennandi) Sjálfstætt fólk var samt meira spennandi partur áfangans. Hinn helmingurinn var bókmenntasaga, þar uppgötvaði ég leiðinlegar bókmenntir. Sumt var skemmtilegt en annað hundleiðinlegt. Það er samt auðveldara að fást við bókmenntasöguna, þó svo að maður þurfi stöðugt að vera að túlka kvæði og vísur, og maður verður að túlka þær rétt. Það er víst mikilvægt.
Það er nú ekki mikið að segja um þýsku. Þýska er nú nokkurn veginn alltaf eins. Maður lærir málfræði og orðaforða. En ég tekið eftir því að dönskukunnátta mín hjálpar mér oft við þýskan orðaforða. Oft eru orð mjög lík ef ekki eins í þessum málum. Mér finnst samt alltaf svo skrítið að ég skuli vera í þýsku. Ég ætlaði aldrei að fara í þýsku, hef satt að segja mjög takmarkaðan áhuga á þýsku. Ég ætlaði að taka spænsku og frönsku, en enda síðan með því að læra mest í þýsku. Ég er núna búin að læra jafn mikið í þýsku og frönsku, ég get samt miklu meira í þýsku en frönsku. Ég get bara rétt sagt nokkrar setningar á frönsku, get sagt miklu meira á þýsku.
Náttúrufræði eða það er að segja efnafræði, eðlisfræði og stjarnfræði, er áfangi sérstaklega fyrir nemendur á mála-og félagsfræðibraut. Frekar óspennandi áfangi að mínu mati, en hann kom mér samt á óvart. Hann var mun áhugaverðari en ég hafði nokkurn tímann búist við. Í byrjun áfangans var byrjað á efnafræði. Og satt best að segja leist mér ekkert á blikuna, þegar ég komst að því að efnafræði og eðlisfræði eru full af jöfnum sem þarf að leysa og reikningi. Reikningur og stærðfræði er ekki mín sterkasta hlið!!! En síðan varð þetta allt í lagi. Ég var með góðan kennara sem útskýrir hlutina tekur dæmi upp á töflu og útskýrir síðan aftur ef maður spyr. Ég hef ekki miklar áhyggjur af að ná þessum áfanga. Ég held að ég nái áfanganum, kannski ekki með ofsa góðri einkunn en alla veganna ágætri eða sæmilegra.
Danski taláfanginn var fínn. Mikið af misskemmtilegum talæfingum. Við fórum í leiki, héldum partí með skreytingum, veitingum og skemmtiatriðum, á skólatíma. Rektor og áfangastjóri voru heiðursgestir. Við fengum líka að spreyta okkur í leiklist. Það var nú furðulegasti hluti áfangans. Ég kynntist leiðinlegum bókmenntum þar líka. Áfanganum lauk síðan með munnlegu prófi, mér gekk vel í því prófi, ég fékk 9. En það er samt ekki lokaeinkunn.
Í yndislestri las ég 5 enskar bækur. Í annarbyrjun fékk ég lista yfir bækur bækur sem ég mátti lesa. Eftir að ég fékk listann, fór ég að kíkja í bókaskápa heimilisins eftir bókum á listanum. Ég fann til margar bækur af listanum.
Fyrsta bókin sem ég las var Jailbird eftir Kurt Vonnegut. Mér fannst hún barasta góð. Fyrsti helmingur bókarinnar var frekar langdreginn en samt ekkert slæmur. Seinni helmingurinn var spennandi. Mér fannst söguþráðurinn góður. Ég mæli jafnvel með henni.
Yndislestur er utanskólaáfangi, maður les semsagt bækur heima og kemur síðan í viðtal til kennara og segir frá bókinni sem ég las. Í fyrsta viðtalinu mínu, spurði kennarinn mig um hvernig bækur ég læsi helst. Og hvort ég læsi mikið. Ég sagði bara eins og er, ég les eins lítið og ég kemst upp með, semsagt eiginlega bara það sem er nauðsynlegt fyrir skólann. Ég les venjulega svona eina bók á ári bara af því að mig langar til þess. Ég les nokkurn veginn hvað sem er. Kennaranum fannst, held ég, mjög skrítið að ég skuli velja bækur algjörlega af handahófi, án þess að vita nokkuð um höfundinn eða innihald bókarinnar. Það var þannig með Jailbird. Það er bara þannig sem ég les bækur. Ég bara tek upp einhverja bók og byrja að lesa.
Nema hvað, næsta bók sem ég las var líka valin af handahófi, var Billy Liar eftir Keith Waterhouse. Ég hef bara eitt orð um þá bók að seigja, Leiðinleg!!! Hún var leiðinleg frá fyrstu blaðsíðu til síðustu. Eftir að hafa lesið þessa hræðilegu bók ákvað ég að reyna að velja bók ekki af handahófi.
Ég endaði með Farewell to Arms eftir Ernst Hemmigway. Mér fannst hún mjög góð. Hún hélt mér við efnið allan tímann. Mjög spennandi og kom mér sko á óvart. Ég er mjög ánægð með að hafa lesið hana. Í viðtalinu um Farewell to Arms, spurði ég kennarann hvort ég mætti lesa bók sem væri ekki á listanum. Ég fékk leyfi til þess eftir að ég hafði sýnt kennaranum bókinni.
Fjórða bókin var sem sagt The Terri Clark Journals: Phases and Stages. Það er bók með dagbókaskrifum kanadískrar kántrísöngkonu sem ég hlusta mjög mikið á. Þar talar hún um sitt daglega líf og hvað sem er annað. Þetta var mjög skemmtileg og áhugaverð lesning. Terri Clark kom mér mjög á óvart. Af tónlist hennar að dæmi hafði ég haldið að hún væri svona partímanneskja, en annað kom í ljós. Hún fór snemma að sofa, fær systkinabörn sín í heimsókn til lengri tíma, sér teiknimyndir í bíó. Og eldar mat með hvítlauk. Hún segist ekki geta lifað af án hvítlauks, að hún noti mjög mikinn hvítlauk í allt sem hún heldar. Hver sem er fær stóran plús hjá mér fyrir þannig ást á hvítlauk.
Fimmtabókin sem ég las var Persuasion eftir Jane Austen. Hún var líka mjög góð. Eiginlega bara eins og ég bjóst við. Hún á margt sameiginlegt með Hroka og hleypidómum (líka eftir Jane Austen). Svipað umfjöllunarefni. Ekkill með þrjár ógiftar dætur, sem þurfa allra helst að giftast ríkum mönnum úr góðum fjölskyldum svo að fjölskylda þeirra geti haldið þeirri tign sem hún hefur.
Nú er skólablaðrinu lokið, svo ég ætla að hefja annan kafla þessarar bloggfærslu.
Ég hóf nýja árið í janúar með það í huga að bæta eigin heilsu og lífstíl og breyta slæmum venjum. Það hefur tekist upp að vissu marki. Fyrstu 2 og hálfan mánuð ársins var ég mjög góð.
Ég uppgötvaði að ég hef gaman af því að hlaupa. Ég rúllaði aukatímum í skólanum upp á met tíma, með morgun hlaupum á brettum skólans. Ég keypti góða hlaupaskó og naut hverrar einustu mínútu á brettinu. Ég prófaði meira að segja líka að fara í WorldClass en mér fannst það ekki alveg ganga. Það var alveg þriggja klukkutíma prósess að fara þangað.
Á sama tíma og ég var á þessum hlaupum, tók ég smá til í matarræðinu. Ég gerði nokkuð sem mér finnst ekkert sérstaklega kúl að viðurkenna, en ég las sjálfshjálpargreinar og aðrar greinar um næringu, heilsu og fitness. Ég byrjaði á að skrifa niður allt það sem ég borðaði, allt saman. Ég borðaði fullt af hollum mat, ávexti, rauð greip sérstaklega og epli sérstaklega. Ég lærði mjög margt um hvað ýmsar matvörur gera fyrir líkamann. Mér finnst þetta mjög áhugavert. Mér gekk mjög vel í öllu þessu þangað til að páskarnir komu, þá fór allt í steik. Í fríinu hætti ég að skrifa niður hvað ég borðaði, borðaði líka óhollar. Eftir páska tókst mér ekki alveg að koma matarkerfinu aftur í gang. Aukatímarnir í skólanum voru þá líka búnir, þannig að ég var ekki lengur að hlaupa. Matar og næringarsytemið mitt hefur gengið svona upp og niður síðan um páskana.
Annað í sambandi við betri venjur sem hefur gengið vel. Í byrjun árs ákvað ég að reyna að breyta svefnvenjum mínum. Það er hægara sagt en gert. Ég ætlaði að hætta að fara seint og sofa og hætta að leggja mig seinni partinn. Ég er hætt að leggja mig seinni partinn, eða geri það alla veganna mun sjaldnar. Ég bjóst við að það yrði erfitt að sleppa því að leggja mig seinni partinn. Lausnin er einfaldlega að finna sér eitthvað að gera, eða bara sleppa því að leggjast upp í sófa, frekar að sitja bara í sófanum, því ég mun ekki sofna sitjandi. Það er hinsvegar mun erfiðara að fara snemma að sofa. Snemma telst vera rétt fyrir miðnætti. Venjulegur svefntími er oftast um eitt. Ég miða við að sofa 7 tíma, þannig að ég reyni að fara að sofa sjö og hálfum tíma áður en ég þarf að vakna. En það gengur bara ekki alltaf. Þó svo ég fari ekki alltaf snemma að sofa, þá hafa samt verið framfarir. Ég sofna núna yfirleitt um leið og legg höfuðið á koddann, sem er mjög undarleg tilfinning, þar sem venjulega ligg ég andvaka í svolítinn tíma, oft klukkutíma. Það er eins og það slokkni bara stundum ekki á heilanum í mér. Það er ekki sérstaklega þægileg tilfinning að geta ekki sofnað þó svo að maður sé þreyttur og vilji sofna. Böggandi. En eins og ég segi þá er þetta nú hætt að vera þannig :)
Jæja þetta voru helstu atriði síðustu mánaða sem ég man eftir í kvöld. Það er nú samt takmarkað í hversu stuttu máli umfjöllunin um þessa mánuði er
Um bloggið
Úlfhildur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.