30.7.2008 | 16:00
bloggidíblogg
Ég byrjaði að skrifa blogg hérna á laugardaginn fyrir viku, en gafst síðan upp. Ekki vegna leti eða hugmyndaleysi, heldur vegna hita. Það var víst 32 stiga hiti. Ég hélt sko að ég væri að fara deyja úr hita. Ég var hérna inni og var að bráðna.Engin orka til að gera nokkurn skapaðan hlut. En mér tókst samt að fara út um 6 leitið, það var farið að kólna örlítið þá. Ég fór þá og fékk mér ís. Ég settist á bekk í garðinum við gosbrunninn og horfði á fólk. Ég sá síðan allt í einu hund koma hlaupandi á undan eiganda sínum og hundurinn fór beinustu leið í gosbrunninn til að kæla sig. Mikið öfundaði ég hundinn. Algjörlega ósanngjarnt að hundar megi kæla sig í gosbrunnum en menn ekki. Síðar gekk fram hjá mér annar hundur með eiganda sínum. Sá hundur var dökkur síberískur Husky. Ég get ekki sagt að ég hafi öfundað hann, með allan þennan dökka feld og um allan líkamann. Mikið held ég að honum hafi verið heitt. Ég fór síðan að pæla í þessu með feld á hundum annarsvegar og feld á mönnum hinsvegar. Við sem erum svo gott sem hárlaus spendýr, erum með heppilegri "feld" en td. hundar. Það er alltaf auðveldara á klæða sig í föt en úr. Maður getur alltaf bætt við fötum, en það sem maður getur farið úr endar ansi fljótt, og því er í raun betra að vera fáklæddari (vera með minni feld) af náttúrunnar hendi. Ef menn væru jafn mikinn feld og hundar, gætum við farið í föt þegar okkur er kalt, en mundum samt alveg lifa af úti bara á feldinum. En við gætum aldrei farið úr feldinum á heitum sumardögum. Það er ábyggilega ekki að ástæðulausu að skrítnu egypsku kettirnir eru hárlausir. Auðveldara að finna leið til að hlýja sér en að kæla sig. Bara smá pælingar.
Vikan hefur gengið alveg prýðilega fyrir utan hita. Á mánudaginn í vinnunni var ekki talað um neitt annað en hitann. Þegar fólk var spurt hvað það hafði gert um helgina, kom alltaf sama svarið hjá öllum; "Ekkert, það var of heitt til að gera nokkur skapaðan hlut."
Í lok síðustu viku fann ég lausn allra vandamála. Þannig er mál með vexti að nýju skórnir mínir eru þægilegir og hentugir í vinni. En þeir meiddu mig á undarlegum stað, ég fékk mjög furðulegt sár, á fimmtudaginn fyrir rúmri viku var þetta sérstaklega vont. En daginn eftir keypti ég í misgripum púða til að setja í skó, ég hélt að það væru einhverskonar plástrar. En svo á laugardeginum fyrir viku datt mér síðan í hug að máta þessa púða í sandalana. Þeir pössuðu vel á staðinn þar sem skórnir meiddu mig, þannig að ég setti púðana þar. Ég fór síðan út í labbitúr út á Karlaplan, og ég fann ekki fyrir neinu, bara eins og að ganga á skýjum. Ef ég hefði nú gert þessi mistök fyrr í búðinni! Og af því að ég fann ekki fyrir neinu í fótunum þá ákvað ég að kíkja á hvað væri hinumegin við húsið mitt. Ég hef nefnilega ekki gert það áður vegna sára og eymsla í fótum. Og viti menn, það er matvöruverslun í 5 mínútna rölt fjarlægð frá húsinu mínu, og ég sem gekk í klukkutíma fyrsta kvöldið mitt hér í árangurslausri leit að matvöruverslun! Mikið varð ég pirruð að hafa verið svona nálægt matvöruverslun allan tímann. Ég finn ekki fyrir neinu neins staðar í fótunum núna, hefi fundið neitt síðan ég setti þessa púða í.Og nú er mig farið að langa til þess að fara út og sjá hluti, jafnvel þó að ég þurfi að sjá þá ein. Ég var búin að ákveða að fara í sólbað í dag en það var ekki hægt því það er grenjandi rigning. Ég greip því í staðinn hlaupaskónna mína og íþróttafötin of fór í World Class. Já worldclass er á mörgum stöðum í Stokkhólmi. Stöðin sem ég fór á er allt allt öðruvísi en World Class á Íslandi. Lítil stöð og rólegt. En eitt er skrítið með líkamsræktar stöðvar í Svíþjóð er að maður getur bara fengið árskort. Ekkert minna. Í World Class getur maður reyndar borgað 1 skipti í einu, en þá borgar maður 150 krónur. Of mikið. En stelpan í afgreiðslunni leyfði mér að fara ókeypis inn í dag, sem var fínt. Í World Class heima er hægt að fá eitt skipti, viku passa, mánaðarkort, 3 mánaða kort, 6 mánaða kort, einsárs kort og síðan verið í stöðugri áskrift. Mér finnst það ansi flott, þannig er þörfum flestra mætt. Þegar ég kom heimt fór ég á netið að athuga með aðrar líkamsræktarstöðvar (gym á sænsku, borið fram jim) Ég komst að því að það eru fleiri stórar keðjur sem eru ódýrari en World Class. Ég fann eina sem er í hverfinu mínu, á morgun ætla ég að kíkja á hana.
Eftirhádegi á morgun er ég að hugsa um að fara á safn. Ég er búin að finna öll þau söfn sem ég hef áhuga á að kíkja á. Þau eru 4 talsins. Þjóðminjasafnið, mér finnst þau alltaf spennandi. Ég er líka viss um að það er eitt og annað þar sem er svipað íslenskum hlutum. Ég er viss um að það eru rit rituð á norrænu, sem er ansi lík íslensku. Það var þannig á dönsku forminjasafni sem ég fór á. Ég þurfti ekkert að vera að lesa dönsku þýðinguna sem stóð til hliðar við plaggið sem ritað var á. Ég gat lesið það sem stóð á norrænu án hjálpar og skilið það sem stóð. Ég hef heyrt að það séu víst mikið af færeyskum forminjum í Svíþjóð sem Svíar hafa ekki látið af hendi. Ég veit samt ekki hvort þær minjar séu einhversstaðar til sýnis. Kannski bara í geymslu einhversstaðar. Síðan langar mig að kíkja á Vasasafnið. Kynnast aðeins skipinu sem ég hef heyrt svo mikið um. Norræna safnið, mig langar þangað bara mest af forvitni, það eru skrítnar sýningar þar,t.d. leikfangasýning með gömlum leikföngum, sýning um sænska söngvakeppni sjónvarpsins þar sem fjallað erum eurovisionsögu Svía, dúkað borð, hvernig borðhald hefur verið í tímanna rás og sýning um Sama, þeirra sögu og menningu. Síðan langar mig líka á Náttúruvísindasafnið, þar er meðal annars sýning um þróun mannsins, frá uppahafi til nútímans. Mér finnst þessi sýning hljóma sérstaklega spennandi.
Ég hef mikið verið að hugsa um sænsku kunnáttu mína upp á síðkastið. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um þetta mál. Ég hef sérstaklega hugsað um sænsku í samanburði við dönsku með eyrum Íslendings. Á sumum vígstöðum hefur sænskan betur en á öðrum hefur danskan afgerandi yfirburði. Mér fynnst sænskur orðaforða frekar auðveldur, oftar rökréttari(útfrá íslensku) en danskur. Uppbygging orða og hugsun á bakvið orð er oft nákvæmlega sá sami og íslensku. Svíar tala ekki um briller heldur segja þeir glasögon, sem þýðir gleraugu. Og sólgleraugu eru þá náttúrulega bra solglassögon, åhörande er áheyrandi, avundsjuk og öfundsjúkur og sum orð eru nákvæmlega eins t.d. moppa, með greini moppan, sum orð hljóma eins en eru skrifuð öðruvísi eins og til dæmis það að erfa er skrifað ärva en hljómar nákvæmlega eins. Og það að voga, skrifað våga á sænsku. Svíar telja líka eins og við, þeir byrja á tuginum og koma síðan með eininguna. en þeir hafa ekkert og á millu. 53 verður femmtitre en ekki fimmtíuogþrír og alls ekki treoghalvtreds, eins og Danir gera með eininguna fyrst og síðan tuginn. En þegar kemur að framburði þá vinnur danskan stórsigur. Þó svo að framburðurinn sé það sem vefst fyrir mest fyrir íslendingum þegar kemur að því að tala, þá finnst mér danskur framburður auðveldari, Það eru nefnilega færri snúin atriði í dönskum framburði, það er mest bara þetta flókna R(ég held ég muni aldrei ná því fullkomlega, þó svo að ég hafi fengið 10 í dönskum taláfanga.) og síðan hvernig sum orð enda, endirinn hverfur einfaldlega á sumum orðum. En oftast í dönsku hafa stafirnir oftast viðeigandi hljóð. Mér finnst það bara heppni ef ég hitti á rétt hljóð í sænsku. Ég bara næ því ekki hvernig Sk og sj geta orðið að kokhljóði, einhverju gh hljóði. Fyndnasta orð sem ég hef heyrt í sænsku er sjösjuk. Það eru tvö s í þessu orði en þegar maður seigir það þá er skyndilega ekkert S. T hefur líka undarlegt hljóð, t-ið getur haft s hljóð saman ber tjugu(talan 20). Bókstafurinn A hefur líka fáránlega mörg hljóð og sum þeirra ekkert lík neinu A hljóði. Ég ætla að skrifa hér upp samtal sem ég átti við konu í vinnunni í gær, sem heitir Ing-Marie Þar er mjög gott dæmi um líkindi orða í sænsku og íslensku og skrítinn framburð í sænsku. Framburður er skrifaður í hornklofum.
*I-M: Har du sett en karl? [Har dú sett en korl?]
-Ú: Vad? [vað?]
*I-M: En karl?[En korl?]
-Ú: Jag vet inte vad det är[Jag vet inte va de er]
*I-M: Vet du inte vad en karl är? [Vet dú inte va en korl er?]
-Ú:Nei [Nei]
*I-M: Nå, det är en mann. [No, de er en mann]
-Ú: Jag har inte sett en mann [Jag har inte sett en mann.]
Þar með lauk þessu samtali. Þarna þekkti ég ekki orðið karl, sem er nákvæmlega eins og í íslensku af því að A-ið hljómar eins og O. Hvernig á ég að vita að orð sem hljómar korl er skrifað karl. Hljóðin A og O myndast ekki eins í munninum. O er kringlótt hljóð á meðan A er frekar ílangt.
Annar bókstafur sem hljómar ekki eins og hann er skrifaður, það er G. G hljómar stundum eins og J. Tildæmis í orðinu Gymm, gym er borið fram jim.
Annað erfitt í sænsku er hvernig sum orð kippast. Það eru kippir í sumum orðum. Orðið Jätte kippist mjög mikið. Oftast koma þessir snöggu kippir í enda orðs. Sem dæmi er lestarstöðin T-Centralen. Fyrst er áhersla á T síðan kemur cent bara venjulegt, en síðan kippist í ralen. Endirinn kippist einhvernvegin upp.
Í lestinni heim úr vinnunni í fyrradag var þýsk mamma með 4 börn með sér. 3 stráka svona 10-12 ára og eina stelpu eitthvað eldri. Ég heyrði hvað strákarnir voru að tala um. Það var greinilegt að þeir höfðu verið í Svíðþjóð í smá tíma og verið nokkrum sinnum áður með lestinni á þessari leið. Þeir voru nefnilega að pikka sænskuna upp. Og þeir notuðu nákvæmlega sömu aðferð og ég til að læra hljóðin. Í lestinni kemur nefnilega alltaf rödd og segir hvaða stoppistöð kemur næst og í kvaða lestir er hægt að skipta á viðkomandi stöð. Þeir hlustuðu og endurtóku það sem röddin sagði. Það var greinilegt að þeir voru líka að læra í hvaða röð stoppistöðvarnar koma. Því þeir voru búnir að nefna Gärdet áður en stoppistöðin í Gärdet var komin. Það voru miklar rökræður milli strákanna um það hvernig ætti að bera fram þetta skrítna orð. G-ið er með J hljóði og síðan er kippur í enda orðsins. En síðan kom röddin og þá kom það fyrri áhersland á Gär- er löng og síðari áherslan er á -det og hún er stutt.
Ég ætlaði nú ekki að skrifa svona málfræði pistil. En þegar hugsanirnar koma þá ræð ég ekki við þær
Um bloggið
Úlfhildur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
hmmmm.... þetta gera Persar líka, bera A fram sem O. En við erum líka skrýtin, berum stundum LL fram sem DL og G sem GG..... Kannski við ættum bara að taka upp hljóðstafsetningu eins og Færeyngar?
Bergþóra Jónsdóttir, 4.8.2008 kl. 19:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.