9.8.2008 | 23:35
Við skýjin felum ekki sólina af illgirni
Mikið er ég eitthvað ekki í blogg stuði þessa dagana. bara eitt blogg í viku. Hvað á þetta eiginlega að þýða?
Nú á sunnudaginn fyrir viku hitti ég þessa sætu 5 manna fjölskyldu í bænum. Þau voru svo væn að bjóða mér í hádegismat. Mikið er skrítið að hitta þau í útlöndum. Þegar maður sér fólk annarstaðar en maður sér það vanalega þá er það alltaf eitthvað bogið. Það er eins þegar ég sé fólkið í vinnunni á morgnana eða í lok vinnudags, í sínum eigin fötum. Eftir hádegi, þegar litla fjölskyldan var búin að skila sér á lestarstöðina til að fara í lestina sína, fór ég a fornminjasafnið, Historiska museet. Ég get ekki sagt annað en að það hafi verið algjört æði. Ég var á safninu í rúma 2 tíma og náði ekki að sjá allt. En ég náði að sjá það sem mig langaði mest til þess að skoða. Það var sýning frá fornum tímum, 12.000 fyrir Krist til 1050 eftir Krist og síðan sýning sem var sérstaklega um víkingana, 800-1050. Mér finnst svo ótrúlegt að sænskt forminjasafn hafi minjar frá því 12.000 fyrir krist. Mér finnst bara svo skrítið að fólk hafi verið hér á Norðurlöndunum svona snemma. Það var beinagrind af sænskri konu frá því 9000 f.Kr. hún var líklegast móðir og veiðimaður. Mér finnst líka skrítið hvað mannfólkið var búið að læra og þróast mikið. Það hafði kunnáttu til þess að búa til flókin reiðtygi fyrir hestana sína, höggva nákvæm munstur í málma og tré. Rosalega flott. Víkinga deildin var líka flott. Ég komst að því að sænskar konur á þessum tíma hafa verið eins og þær íslensku, með lyklavöldin á bænum. Í flestum gröfum frá 800-1050, þar sem kvenmannsbein hafa fundist, hafa fundist lyklar af öllum stærðum og gerðum. Þó svo að mér hafi fundist æðislegt á safninu og gaman að skoða allt saman, þá verð ég að seigja það, þegar maður hefur skoðað eitt Norrænt fornminjasafn þá hefur maður séð þau öll. Ég hef núna farið á Þjóðminjasafn Íslands, forminjasafnið í Færeyjum, safnið í Jelling í Danmörku og fornminjasafnið í Svíþjóð. Það verður að segjast að ég hef séð meira og minna sömu hlutina á þessum söfnum. Það er mjög mikið um stein axir af öllum gerðum, og ýmis önnur verkfæri. Fötin eru mikið til eins, síðan eru kirkjuminjarnar líka mjög svipaðar. En auðvitað er margt mismunandi í löndunum. Á Íslandi og í Færeyjum er td. meira af hlutum tengdum sjónum, en í Danmörku og Svíþjóð eru td. alvöru rúnasteinar og eldri minjar. sagan á meginlandinu byrjar ekki bara um 800. Og maður sér líka að víkingarnir í Svíþjóð voru ekki einangraðir og enging moldarbúar. Þeir voru heimsborgarar. Þeir voru með fína skartgripi og borðbúnað utan úr heimi, frá Frakklandi og ýmsum miðausturlöndum og Asíu. Fólkið hefur ferðast og komið með minjagripi og annað heim úr ferðalögunum. Mér finnst alltaf gaman að skoða svona fornminjasöfn, það er eitthvað svo heillandi. Í lokin fékk maður síðan sjálfur umhugsunarefni til að hafa með sér heim til að hugsa um. Það voru spurningarnar Hver mun seigja okkar sögu? Hver mun segja sögu víkinganna á Norðurlöndum sem lifa árið 2008? Eiga húsin okkar eftir að verða grafin upp við fornleyfauppgröft eftir 1000-2000 ár? Mér finnst í rauninni alveg fáránlegt að hugsa um að eigur manns gætu átt eftir að enda sem forminjar og kannski á safni sem forngripir. Enn agalegra finnst mér þó að hugsa um það að maður sjálfur gæti orðið að safnkosti á fornminjasafni!! Hræðileg tilhugsun.
Allt gengur vel í vinnunni. Það er hlátur og gleði í næstum hverjum kaffi og matartíma. Á þriðjudaginn gerðist nokkuð sem mér fannst mjög fyndið. Við sátum nokkur við borð og borðuðum morgunmat. Ég man ekki alveg hvernig þetta byrjaði en einhvern veginn barst talið að nafninu mínu og því að vera -dóttir. Sænska stelpan Fanny, sem vinnur í þvottahúsinu, vissi um þessa hefð á Íslandi að fólk héti ekki ættarnöfnum heldur væri það börn foreldra sinna. En hún spurði mig hvort þetta væri sjaldgæft að fólk notaði þessa leið til að einkenna sig. Ég gat nú svarað því snögglega, nei lang flestir Íslendingar heita eitthvað -son eða -dóttir. Fólk með ættarnöfn er í minnihluta. Þeim fannst þetta öllum skrítið. En síðan tókst mér að fræða alla viðstadda smá um Norræna sögu. Fanny og danski strákurinn Thomas, vissu það ekki að þessi nafna hefð hefði verið líka í Danmörku og Svíþjóð. Danir eru bara komnir ansi langt frá hefðinni, en maður sér leifar, t.d. öll þessi nöfn sem enda á -sen. Svíar eru aðeins nær hefðinni. Fullt af fólki heitir nöfnum sem enda á -son. En það merkilega er að það er eignarfalls S í öllum -son nöfnunum. Þannig t.d. Jensson, Jakobsson. Ég fræddi þau líka aðeins meira, með því að seigja þeim að einu sinni hafi verið sama tungumálið talað á öllum Norðurlöndunum, og að það væri líkt mínu tungumáli, íslensku. Thomas vissi um tilvist Norrænu, en Fanny og Jegana,stelpan frá Aserbaídsjan, vissu þetta ekki. Thomas sagðist hafa verið látinn lesa gömul norræn rit í skólanum, það hefur sjálfsagt verið Snorra-Edda, en hann viðurkenndi að hafa ekki skilið neitt, að þetta tungumál væri ekkert líkt nútíma dönsku. Hann hafi þurft að glósa mjög mikið. Híhí. Ég tel mig vera sleipa í að lesa Norrænu, það eru helst kenningarnar sem er snúnastar og ég skil ekki. Þá spurði Jegana, hvort Ísland væri nálægt Danmörku. Ég svaraði því með því að segja að það tæki 3 tíma að fljúga frá Íslandi til Danmerkur. Þá segir hún, "og þá svona 8-9 tíma að fara með rútu?" Allt norræna fólkið við borðið fór að hlæja, yfirmaður okkar líka. Ég sagði, "Það er ekki hægt að keyra frá Íslandi til annars lands, þetta er eyja." Hún ætlaði ekki alveg að ná þessari staðreynd, fannst alveg mögulegt að væri brú eða göng. Það eru jú göng á milli Bretlands, sem er eyja og Frakklands. Ég útskýrði þá að Ísland væri úti í miðjum sjónum, að það væru engin önnur lönd nálægt. Ég sýndi henni líka á heimskortinu sem hangir á vegg í vinnunni, Þá náði hún því að það væri ekki hægt að keyra. Hún hló þá líka, sá hversu furðulega spurningin hefur hljómað í eyrum þeirra sem vissu um staðsetningu Íslands. Ég nota hvert tækifæri til þess að fræða fólk um land mitt. Það bara truflar mig stundum að við vitum um hin norðurlöndin, vitum jafnvel um nöfn kóngafjölskyldnanna, nöfn á þingmönnum eða ráðherrum, á meðan norrænt fólk í hinum löndunum, veit um tilvist Íslands og veit að höfuðborgin heitir Reykjavík, vita að Björk er frá Íslandi og síðan ekkert meir.
Miðvikudagurinn í vinnunni var hreint út sagt agalegur. Ég var þreytt um morguninn tíminn ætlaði aldrei að líða en síðan fór ég að hugsa um Mary Poppins og þá fór allt á hraðferð þegar heilinn fór að spila fjörug Mary Poppinslög
"In every job that must be done, there is an element of fun. You find the fun and snap, the job's a game. And every task you undertake becomes a piece of cake...
...A spoonful of sugar helps the medicine go down, the medicine go down, the medicine go down, Just a spoonfull of sugar helps the medicine go down, In a most delightful way
...Though quite intent in his pursuit, he has a merry tune to toot, he knows a song, will move the job along"
og síðan náttúrulega "Supercalifragilisticexpialidocious, even though the sound of it is, something quite atrocious, if you say it loud enough you'll, always sound precocious, Supercaligragilisticexpialidocious...
...you know:, you can say it backwards, which is:, Dociousaliexpisticfracticalirupus, but that's going to be too far. Don't you think?, Indubitably!"
Eftir hádegi fór hinsvegar allt í klessu, ég fékk ekki að skúra í matsalnum klukkan 14:30 samkvæmt áætlun því gestirnir þurftu að hafa sinn kaffitíma þar inni, því þeir gátu ekki gert það eins og vanalega í setustofunni, því smiðirnir höfðu borað í vegg klukkan 8:30 um morguninn og þeir höfðu ekki þrifið upp eftir sig og þannig var stofunni lokað. Klukkan 14:30 var ég því bara með Kelly að hjálpa henni með hennar verk og síðan klukkan 15:40 tókum við matsalinn á 15 mínútum, algjört met. Það tekur mig vanalega þrjú korter til klukkutíma. síðan klukkan 16:00 fór ég og tók tvö klósett sem ég átti eftir af mínum dagsverkum á 15 mínútum. Ég var síðan komin út úr húsinu klukkan 16:34. En ég verð að segja að ég var ekki í mjög góðu skapi. Ég var svona klukkutíma að róa mig niður. Þegar ég kom útúr húsinu, þá vildi ég ekki sjá meira af Stockholms Borgerskap. Ég var sko búin að fá meira en nóg. Það versta var að þeir voru með grillveislu á miðvikudaginn fyrir gesti og starfsfólk og fjölskyldur þeirra, sem ég hafði ætlað mér að fara í og borða grillmat. En ég gat ekki fyrir nokkra muni verið einni mínútu lengur þarna. Ég fór í staðinn bara í Nordjobb og horfði á Italiensk for begyndere með nokkrum finnskum nordjobburum á nordjobbskrifstofunni. Ég hef náttúrulega séð þessa mynd nokkrum sinnum áður, en hún er vel þess virði að sjá aftur og aftur. Hún er ein af þessum sætu og góðu dönsku bíómyndum.
Annars lenti ég í leiðindum í gærmorgun á leiðinni i vinnuna. Það var grenjandi rigning, ég labbaði 5 mínútur út á lestarstöð en þegar ég var komin þangað áttaði ég mig á því að ég hafði gleymt lestarkortinu og peningum heima, þannig að ég var neydd til að fara heim og ná í það. Ég var gegnumblaut þegar ég kom síðan í lestina, og þegar ég kom í vinnuna. En hún Fanny er svo sæt við mig, hún laumaði fötunum mínum í þurrkara seinnipartinn þannig að fötin mín voru þurr þegar ég fór heim. Ég launaði henni með því að hjálpa henni í þvottahúsinu þegar ég var búin með öll mín dagsverk. Hún var ein í þvottahúsinu eftir hádegi því samstarfskona hennar í þvottahúsinu fékk að fara fyrr heim. Fanny var dálítið stressuð yfir öllu því sem hún þurfti að gera áður en hún lokaði þvottahúsinu. En það var ekkert mál fyrir mig að hjálpa henni, ég hafði þennan hálftíma í lok dagsins. Ég hefði bara verið að slóra annars.
Ég hef tekið eftir því að Svíar eru ekki eins og Íslendingar þegar kemur að regnveðri. Þeir eru alveg hryllilega túristalegir. Þeir fara í regnföt og stígvél!!! Þeir fara ekki bara í regnjakka heldur líka í regnbuxur yfir venjulegu buxurnar. Og það versta er að þeir fara í svona pokalegar flíkur,kannski helst eins og Ponsjó, en samt meira bara svona eins og stórir plastpokar með gati fyrir háls, hettu og ermum. Svíar nota líka regnhlífar. Í gær í hádegismatnum í vinnunni spurði ég Kelly í hvernig verslun maður kaupir regnhlífar. Hún svaraði þá, sjálfsagt í samskonar búðum og þú mundir fara í á Íslandi. Eh? Regnhlífar og Ísland, ég held ekki. Ég man ekki eftir að hafa séð regnhlífar til sölu neins staðar heima. Ég held nú að flestir Íslendingar noti ekki regnhlífar. Ég held að þeir sem prufi að regnhlífar séu túristar, sem vita ekki betur eða innflytjendur sem eru ekki enn búnir að aðlagast íslensku veðri fullkomlega. En Kelly benti mér síðan á búð þar sem ég gæti keypt regnhlíf á leiðinni heim. Það var nákvæmlega það sem ég gerði eftir vinnu. Ég fór með Thomasi að kaupa regnhlíf, þegar við sáum körfuna með regnhlífunum í búðinni, gátum við ekki annað en að brosa, engar einlitar regnhlífar. Bara aðeins skrautlegar og takkí regnhlífar. En við völdum okkur samt regnhlífar, þær skástu. Ég brosi alltaf þegar ég horfi á regnhlífina mína. Ég verð að segja að mér finnst hún ekki vera sérstaklega falleg. En það var annaðhvort þessi eða rósótt. Ég hef tekið mynd af regnhlífinni. Fyrstu regnhlífinni sem ég hef keypt í lífi mínu.
Í dag fór ég á safn. Á náttúruvísindasafnið, inni í því er líka náttúrugripasafn. Ég var þarna safninu í svona tæpa 4 tíma, svo margt að skoða. Fyrst saga jarðarinnar. Það var byrjað á að sýna hvernig land myndast. Talað um eldgos, jarðskjálfta, hveri og goshveri og þannig lagað. Síðan var heimskort þar sem rauð ljós lýstu þar sem er eldgosa/jarðskjálfta og hvera-virkni. Evrópa og Norður Ameríka nánast tómar heimsálfur, en síðan hrúguðust punktarnir á litla Ísland. Enda að finna allskonar jarðvirkni á íslandi, flekaskipti lika. Við erum líka með upprunalega Geysinn!!! Hver á sænsku er gejser. En 4 milljarða árasaga jarðarinnar var rakin, það voru risaeðlur, risaeðlubein og loðfílabein sem hafa fundist og síðan voru líkön af risaeðlum. Það var ein vélræn risaeðla sem svaf, það var skilti við hana þar sem stóð, "Ekki vekja mig, ég hef sofið í 100 milljón ár."
Síðan var önnur sýning þar sem saga mannsins var rekin. Mér finnst alltaf svo skrítið að í raun erum við bara apategund! við erum prímatar. Forfeður okkar voru allir töluvert lægri í loftinu en við nútímamennirnir. Það voru sko líkön í raunstærð a safninu rosalega flott og raunveruleg. Margir þeirra voru líka með langar hendur og stutta fætur. Homo ergaster var fyrsti maðurinn með handleggi og fótleggi í sömu hlutföllum og Homo sapiens(við), hann var líka fyrstur til að yfirgefa Afríku. Síðan var evrópski maðurinn, Neanderthalsmaðurinn. Þeir voru lægri en homo sapiens og með stærri heila. Samt var heilinn í þeim ekki jafn þróaður og fullkominn og heili Homo sapiens. Mér finnst svo skrítið að það hafi verið til önnur mannategund. Og að sú mannategund hafi verið í samkeppni við menn(homo sapiens.) Það væri mjög skrítið ef maður sæi veru í dag sem liti út eins og maður en væri ekki í raun maður, maður í skilgreiningunni homo sapiens.
Eftir sögu mannsins sá ég fjölbreytni náttúrunnar. Þar voru fjölmörg dýr, skordýr, fiskar, spendýr, pokadýr og fjöldinn allur af fiðrildum. Þar sá ég litla kengúru, uglur, krabba, og í glugga fyrir dýr í útrýmingarhættu sá ég síðan tvo lunda. Ég bara vona að þessi dýr sem voru í glugganum með lundunum hafi dáið áður en þau komust í útrýmingarhættu. Ég vona að Svíar séu ekki að aflífa dýr í útrýmingarhættu til að setja a safn. En annars munar ekki mikið um tvo lunda, alla veganna ekki við Ísland. Fiðrilda veggurinn var æði, fiðrildi af öllum stærðum og gerðum, í fjölmörgum litum. Þeir voru heldur ekki með fiðrilda fordóma, því, það voru líka svona lítil og ómerkileg fiðrildi eins og finnast á Íslandi, lítil og brún eða hvít.
Eftir fjölbreytni náttúrunnar var síðan líf við pólana, Norðurpólinn og Suðurpólinn. Þar voru ýmiss kunnugleg dýr. Þar voru hvalir og fuglar sem búa líka a Ísland, það voru líka selir og síðan var rebbi, hann var merktur sem grænlenskur refur. Þessi tiltekni refur getur hafa komið frá Grænlandi, en tegundin heitir Heimsskautarefur. Það var líka ísbjörn og a vegg við hliðina á honum var plaggat á norsku frá Svalbarða þar sem er sagt hvað maður eigi að gera ef maður rekst á ísbjörn. Þetta plaggat hefði geta komið að góðum notum á Íslandi fyrr í sumar. Ég komst að því að ég mundi ekki vilja rekast á nokkuð dýr frá Suðurskautslandinu, þau eru öll risa risa stór. Selirnir eru risar í samanburði við seli frá norðri og ég mundi alls ekki vilja hitta suðurskautslenskar rostung!! Ég varð nú bara nógu hrædd við þann sem situr uppstoppaður á safninu. Hann er sko risa stór. Það voru náttúrulega líka mörgæsir, þær voru nú ekkert skelfilegar. Bara sætar.
Þar næst kom sænsk náttúra, þar sá ég ýmis dýr, suma fuglana þekkti ég og sum landdýrin þekkti ég. Flest landdýranna hafði ég ekki séð með berum augum áður.Ég hafði séð dádýr, mink, kanínur, mýs, hreindýr og björn, ég held að það sé allt og sumt. Myndir af öðrum hafði ég séð áður þannig að ég þekkti þau, það voru tildæmis, elgirnir, villisvín, hérar, bjórar og meginlandsrefirnir. En síðan voru dýr sem ég vissi ekki að byggju í Svíþjóð, ég vissi ekki að væru birnir, lynx-kettir og úlfar. Það voru margir úlfar á safninu. Mikið rosalega voru nafnar mínir fallegir. Hvernig geta svona falleg og krúttleg dýr sem mann langar til að faðma að sér og leika sér við, verið svona hættuleg rándýr? Síðan voru dýr sem ég hafði aldrei heyrt um áður eins og þvottabjarnarhundur. En eitt dýr sá ég og hafði ekki glóru um hvað var, sá ekki merkingu við það. Þeir voru litlir loðnir með dökkan feld,og með tvær hvítar rendur á enninu. Ég held ég hafi séð mörð líka. En ég er ekki viss, í þekkti hvorki nafnið á sænsku né ensku. Ég skemmti mér frábærlega á safninu í dag. Alveg frábært. Ég held ég hafi bara einu sinni komið á Náttúrugripasafnið heima. Það var fyrir svona 10 árum, gæti jafnvel verið lengra síðan.
Á morgun er ég að pæla í að kíkja á Vasa eða á Nordiska museet. Sé til, ég er líka að hugsa um að fara í dagsferð eitthvert, svo ég geti nú sagt að ég hafi séð eitthvað af Svíþjóð fyrir utan Stokkhólm. En ég er bíða eftir góðu veðri. Nenni ekki í dagsferð útúr bænum í grenjandi rigningu. Kannski það verða skárra veður næstu helgi. Á meðan sólin lætur ekki sjá sig, þá er ég bara með regnhlífina mína.
Um bloggið
Úlfhildur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hæ sæta
Skemmtilegt blogg. Ótrúlega er gaman hjá þér! Frábær safnalýsing.
Ég verslaði mér nýja regnhlíf í Kína því mér datt ekki í hug að taka þá dönsku með mér. Þú hlýtur að hafa upplifað regnhlífanotkun í DK? Kínverska regnhlífin er ljós með svörtum doppum og var sú skársta sem ég fann : )) Hvort áttu þessa bláu eða gulu? Ég held að ég geti þá arfleitt Kristínu Grétu að rauðu regnhlífinni minni sem hún elskar og vill alltaf leika með þegar hún kemur til mín. Hvenær kemur þú heim?
Knús.
Ó.
Ólöf Jónsdóttir (IP-tala skráð) 11.8.2008 kl. 01:40
Skemmtilegur pistill hjá þér elsku darlingurinn minn.
knús og kreist
mamms
Bergþóra Jónsdóttir, 12.8.2008 kl. 18:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.