24.10.2009 | 23:04
áður óbirt ókláruð bloggfærsla frá Svíþjóð. frá 17. ágúst 2008
og ég man ekki neitt af því sem ég hef gert síðan síðasta laugardag....Ó jú, nú man ég.
Ég fór á Nordiska Museet á sunnudaginn. Ef ég á að seigja eins og er þá hafði ég ekki miklar væntingar. En ég fór engu að síður og gekk frá Östermalm út á Djurgården þar sem safnið var. Ég er farin að geta gengið án þess að villast, sem er líka gott því kortið mitt hefur séð betri daga, ef satt skal seigja ætti það að vera á gjörgæsludeild fyrir kort, svo slasað er það. En hvað um það ég gekk semsagt til Djurgården og fór á safnið. Og það var sko gaman á safninu. Maður getur séð ýmislegt óvenjulegt þarna á ýmsum sýningum. Fyrst var grímu sýning. Allskonar grímur frá ýmsum tímumm sögunnar. Það voru grímur sem voru notaðar af fólki á grímudansleikjum, fangagrímur sem voru notaðar i fangelsum, hokkí og skilmingahjálmar með grind fyrir andlitinu og ýmsar aðrar gerðir af grímum. Næst var sýning með leikföngum, sem sænskir krakkar hafa leikið sér með. Elsta dótið var frá byrjun 20. aldarinnar og það nýjasta frá byrjun 21. aldarinnar. Það voru bílar, púsl, spil, flugvélamódel, heilu hersveitirnar sænski herinn eins og hann lagði sig var þarna í tinformi, það voru líka hinir og þessir aðrir tindátar, það voru líka dúkkur og þar var Barbie fremst í flokki. Næsta sýning á safninu var hápunkturinn fyrir mig, það var dúkkuhúsasýning. Það er einginn furða að Svíar séu þekktir fyrir hönnun og húsgögn því sænskar mömmur hafa útbúið alveg ótrúleg dúkkuhús fyrir börnin sín allt frá 17. öld. Elsta dúkkuhúsið var var frá 17. öld og það nýjasta var frá lokum 20. aldarinnar. Maður getur séð hvernig dúkkuhús hafa þróast. Mörg af eldri húsunum byrjuðu líf sitt sem venjulegir skápar með glerhurðum, en fengu síðan annað hlutverk sem dúkkuhús. Öll húsin voru veggfóðruð og teppalögð með alvöru. Og öll húsgögn voru alvöru lika, ýmist keypt úr leikfangabúðum eða smíðuð heima. Í einu húsinu voru gullkertastjakar og ljósakrónur og ýmist annað úr alvöru gulli og borðbúnaður úr silfri. Eitt húsið var opið eldhús og borðstofa, það var eitt af elstu húsunum. Þar voru foreldrar að verki sem fanst upplagt að dóttirin gæti lært húsverkin í eldhúsinu og leikið sér í leiðinni. og það sást á þessu húsi að það hafði verið mikið leikið með það. Saga hvers hús var sögð, hver eigandi hafði verið. Við sum húsin stóð að eigandinn hafði ekki mátt leika með dúkkuhúsið sitt, bara fengið að horfa. Mér finnst það sorglegt. Ég held að það hafi örugglega einhverntíman fallið tár fyrir framan þessi læstu hús. Það er auðvitað skemmtilegra að fá að snerta og leika sér í stað þess að horfa bara á úr fjarlægð. Það var samt búið að leika með flest húsin. Nýjasta húsið frá 1990 og eitthvað, sem er Dallas draumarhús,hefur aldrei átt eiganda, það fór beint á safnið, en er samt alveg með húsgögnum og öllu. Mér fannst þetta alveg æðislegt.
næst var sýning á skóm frá hinum og þessum tímum. það voru háhælaðir skór, stígvél, sandalar, barnaskór, klossar. Og allt voru þetta notaðir skór. Sumir nokkur hundruð ára gamlir. Maður getur séð hvernig fólk tekur ástfóstri við ákveðið par af skóm, það var eitt par af tré klossum, sem sást á að eigandi hafði gengið á þeim þangað til hann var kominn í gegnum þykkasta tré hlutann, undir táberginu. Það hlýtur að hafa tekið þó nokkur ár!! En ég veit ég geri það sama, geng á mínum skóm þangað til það er enginn sóli eftir, það eru bestu skórnir.
Næst var sýning með týsku. Það voru dæmi um kvenna og karla týsku frá 18. öld til 20. aldar. Og ég get bara sagt að ég fæddist á réttum stað á réttri öld. Ég held ég hefði ekki þolað alla kjólana frá 18. og 19. öld með korselettunum og krínólíninu.
Næst á dagskrá var síðan sýning um hefðir, sænskar hefðir það er að seigja. Flestar hefðirnar sem farið var í gegnum þekkir maður nú frá Íslandi, eins og skýrn, fermingu, brúðkaup, jarðarfarir, páska, föstudaginn langa, skýrdag, uppstigningardag , sprengidag, öskudag, bolludag og jól. En síðan eru miðsumarshátíðin og Lúsíumessa.
Um bloggið
Úlfhildur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.