24.10.2009 | 23:12
Að mestu MH hugleiðingar
Vegna fjölda áskoranna ætla ég mér að reyna að halda áfram að blogga og blogga reglulegar en ég hef gert síðustu misseri. Annars finnst mér ég nú ekki hafa mikið að segja. Mér finnst dagarnir líða allir nokkurn veginn eins. Ég vakna, fer í skólann, síðan heim, læri heima, horfi á sjónvarpið og fer að sofa.
Annars er frá því að segja að ég ætla mér að útskrifast sem stúdent úr Menntaskólanum við Hamrahlíð nú í desember og er ég smátt og smátt að undirbúa mig fyrir það. Mér finnst skrítið að hugsa til þess að ég sé að verða loksins búin með menntahaldsskólann. Það er innanvið tveir mánuðir þangað til ég útskrifast og þrír mánuðir þangað til ég fer vonandi í háskóla. Svakaleg tilhugsun hvort tveggja. Ég er ánægð með að tíma mínum í MH sé brátt að ljúka en það er líka viss söknuður. Þessa dagana hugsa ég mjög mikið um tíma minn í MH, það er einskonar uppgjör. Þó að oft á tíðum hafi mér fundist MH vera grautfúl stofnum sem gerir fólk algjörlega gráhært, þá er finn ég samt fleira jákvætt við skólann, sérstaklega þegar ég hugsa til allra kennaranna. Ég tel mig hafa haft í langflestum tilfellum frábæra kennara sem er færir í sínu fagi. Ég fullyrði það að MH hefur mjög góða tungumálakennara á sínum snærum! Ég tel mig hafa hlotið sérstaklega góða íslenskukennslu, en finnst sorglegt hvað margir eru samt svo áhugalausir um íslensku að allt það sem kennararnir segja fer innum annað og út um hitt. Ég vil bara þakka öllum kennurunum fyrir!
MH er skóli með áfangakerfi, sem þýðir að maður er í raun búinn með stúdentspróf í stökum greinum á mismunandi tíma. Ég lauk við þýsku síðasta vor og ef ég á að segja satt þá líða dagar sem ég veit ekki hvað ég á að gera af mér í þýskuleysinu. Fyrir þremur árum hefði mig ekki grunað að ég ætti eftir að sakna þýsku. Ég trúi því eiginlega ekki enn að ég skuli vera búin þýsku. Ég lenti eiginlega fyrir tilviljun í þýsku, ég ætlaði aldrei í þýsku og hafði alls engan áhuga á málinu(heilaþvottur um að manni skuli ekki þykja þýska skemmtileg eða áhugaverð nú eða gagnleg hafði haft smá áhrif). Ég fór á málabraut og þurfti að velja mér tvö þriðjumál (kostirnir voru franska, spænska og þýska) og valdi ég spænsku og frönsku. Ætlaði ég mér að læra mest í spænsku(þriðja mál er það kallað) og hafa frönsku sem fjórða mál. En síðan kom babb í bátinn og ég þurfti að hætta í spænsku og tók þá frönskuna sem þriðja mál og neyddist því að fara í þýsku sem fjórða mál. Ég var mjög fúl yfir því að þurfa að vera í þýsku og áhuginn var á frekar lágu stigi. Ári síðar þegar ég kom frá Danmörku og fór aftur í skólann hafði ég val um að halda áfram í frönsku og þýsku eða setja frönskuna í fjórða mál og vera búin með hana og einbeita mér að þýsku sem þriðja máli, sem ég og gerði. Þannig var nú það. Og mjög góðir kennarar urðu til þess að ég fann minn innri áhuga á málinu. Æi mér finnst þetta allt mjög skrítið. Það er ekki nóg að maður skuli vera dönsku nörd, svo þarf maður að fíla þýsku líka. Ég ætlaði nú annars ekki að blaðra um þýsku eða MH í þessu bloggi.
Vikan sem er að líða var stutt í skólanum vegna vetrarfrís síðastliðinn mánudag, en samt var hún löng. Mörg lokaverkefni og þvíumlíkt sem tók sinn tíma. Ég las tildæmis Mýrina eftir Arnald Indriðason og fannst hún alveg ágæt. Ég var líka hópvinnu með tveimur öðrum og stóð sjálfa mig í því að leiðrétta málfar og stafsetningu hópfélaga minna. Stóðu þeir stundum á gati yfir orðtökunum og orðunum sem mér datt í hug. Ég hallast að því að ég sé barasta betri í íslensku en margir aðrir í skólanum, því þetta gerist núna æ oftar.
Um bloggið
Úlfhildur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.