7.11.2011 | 00:58
En það bar til um þessar mundir....
Hmmm hvað skal segja. Ég ætla ekki að segj að nú taki ég mig á fari að blogga á fullu reglulega. En ég ætla samt að blogga. Hingaðtil hefur ekki verið neitt reglulegt Íslandsblogg um dagleg ævintýri mín vegna þess hvað mér finnst lítið gerast, en kannski gerist alveg fullt. Það gerðist til dæmis allveg fullt í dag. Alla vegnna um þessar mundir almennt gerist heill hellingur. Í dag var ég sérstaklega dugleg og ætla ég hér að segja frá því í máli og myndum (ef kisi leyfir það er segja, hann er búinn að ákveða að leggja sig á úlnliðunum á mér þar sem ég sit með tölvuna í fanginu og pikka.)
Hér er fyrsti kasinn, í hann var sett á þriðjudagskvöldið
Og svona leit bókahillan út eftir á.
Í dag var ég svo súper dugleg. Ég tók sko til hendinni(skrítið orðtak). Ég setti drasl í poka til þess að henda. Ég fann skriftarbók frá því ég var sjö eða átta ára og komst að því að ég er ekki enn búin að læra að skrifa svona "ɑ" rétt, hvað 15 árum síðar! En merkilegast er samt að ég skuli hafi komist í gegnum grunnskóla og topp framhaldsskóla á vitlausa a-inu! Aðra bók, mun skemmtilegri fann ég líka, það var sögubók frá svipuðum tíma. Í sögubókina átti ég skrifa eitthvað á hverjum degi eða alla vega reglulega og kennarinn las síðan og skrifaði athugasemdir undir. Ég fór að lesa þessi skrif mín og það var hin skemmtilegast lesning, það sem 7-8 ára mér datt i hug! Það var skáldskapur og bara sögur úr eigin lífi. Í byrjun bókarinnar segi ég frá því hvað mér fannst sumarfríið leiðinlegt. Mér leiddist allt sumarið og ég gekk svo langt að segja að ég skildi ekkert í því hvers vegna sumarfrí væri yfirhöfuð höfð! Hvað var ég að pæla, þetta mundi ég aldrei segja í dag. Fannst mér virkilega svona rosalega gaman í skólanum. Ég skrifaði líka skáldaða framhaldssögu fyrir kennarann. Sagan var um lítinn fola sem sofnaði í haganum sínum og það kom álfkona og setti silfur skeifur á hann og svo barst hann á skeifunum alla leiðina til Bethlehem þar sem hann hitti vitringana þrjá og elti þá þar sem þeir fylgdu pólstjörnunni. Svo horfði hann á vitringana gefa nýbornum konungnum, gull, reykelsi og mirru þar sem hann lág í jötunni. Þar næst vaknaði folinn í haganum sínum og áttaði sig svo á því að þetta var bara allt saman draumur. Mér fannst þetta eiginlega bara frábær saga með tilvitnunum í jólaguðspjallið. Frábærasta frásögnin í sögubókinni var þó nokkuð sem ég hefði alveg eins getað skrifað í dag. En þar segi frá því að ég hafi ekki fundið bókina en nú væri hún fundin en þá vissi ég ekki hvað ég ætti að skrifa og þess vegna skrifaði ég um þennan texta. Þetta toppaði eignlega upptalningu mína á hinum ýmsustu fornöfnum í öllum mögulegum kynjum og tölum, þegar ég var í ritlist í MH og við áttum að skrifa í dagbók í hverjum tíma og mér datt ekkrt í hug.
Ég setti líka ofan í fleiri kassa. Þegar ég var búin að segja bækur eftir uppáhalds rithöfundinn minn í kassa og loka, fór ég næstum að gráta. Ég veit ekki hvað kom yfir mig. Ég sver ég þurfti að berjast við tárin. Mér fannst eins og um væri að ræða einhver svik af minni hálfu. Alveg hræðilegt. Ég var næstum búin að opna kassan aftur og taka bækurnar upp. Tilhugsunin um að sjá ekki bækurnar aftur í bráð var hræðileg á þessu augnabliki, ég skil ekki hvers vegna enda var ég líka mjög fljót að jafna mig. Rosalega getur maður verið skrítinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.9.2011 | 23:50
Lata stelpan sem er ekki nógu dugleg og þarf að leggja harðar að sér
Kastljós kvöldsins hefur komið mér til hugsunar. Umfjöllun um stöðu drengja í grunnskólum, 80% þeirra nemenda sem þurfa séraðstoð eru drengir. Hvers vegna þurfa færri stúlkur á séraðstoð að halda? Ég hef ekki kannað það né lesið mér sérstaklega til um það, en ég leyfi mér samt að draga ályktanir af eigin reynslu. Ég er sannfærð um að það séu allveg jafn margar stúlkur sem þurfi á séraðstoð að halda í grunnskólunum og drengir. Ég tel mig vera eina af þeim stúlkum sem hefði átt að fá séraðstoð en fékk hana ekki. Og ég er sannfærð um að ég hafi ekki fengið aðstoð vegna þess að ég hef rangt" kyn, og á ég ekki við líffræðilegan mun. Vandamálið var í raun ekki skólans heldur samfélagsins.
Það byrjaði á fæðingadeildinni vorið 1988, þegar jafnréttissinnaðri móður minni fannst minn grátur vera fegurri en hinna barnanna (sem er náttúrulega mjög eðlilegt þar sem ég var hennar barn), en á sama tíma fannst henni að drengirnir á deildinni öskra bara, ekki gráta. Þessa daga vorið árið 1988 var ég sett inn í bleikt kynjamunstur. Bleikt plast merki, sem á stendur dóttir, var sett annaðhvort um handlegginn eða fótlegginn á mér svo það færi nú örugglega ekki á milli mála hvernig fólk ætti að koma fram við og hegða sér gagnvart þessari nýju manneskju. Fólk átti að geta gert sér væntingar til mín útfrá þessu bleika merki. Um leið og móðir mín hugsaði um að börnin með bláu merkin öskruðu en grétu ekki pent, var hún búin setja samfélagslegt merki á börnin, sem síðan helst á þeim út allt lífið. Drengir eiga að vera meira áberandi, þeir öskra á fæðingadeildinni, á meðan stúlkur gráta. Ýmis önnur kynbundin einkenni eru sett á ungabörnin, stúlkubörn eru lítil og sæt, drengirnir, stórir, sterkir og myndarlegir. Stelpur eiga að vera prúðar, stiltar, samviskusamar og umfram allt duglegar. Strákar eiga að leika sér aktívt,hlaupa um og hafa hátt, stafla legókubbunum upp í háan turn til þess eins að fella hann niður meið eins miklum hljóðum og hægt er. Ég er nokkuð viss um að sama er upp á teningnum í grunnskólunum, bara í nokkuð annarri mynd. Strákur sem á tildæmis erfitt með lestur, gæti tekið upp á því að fara að láta meira fyrir sér fara og það þykir bara allt í lagi, hann er jú drengurinn sem öskraði á fæðingadeildinni. Strákar eru og verða strákar. En stelpa sem á við sama lestrarvandamál að stírða, hvað gerir hún? Það er jú ótækt að hún fari að vera með læti, ég stórefast um að hún kæmist upp með það í skólastofu. Hún á jú að vera stillt og þæg og hegða sér eins og stúlku ber.
Nú tala ég útfrá minni reynslu og dreg ályktanir útfrá henni. Ég greindist lesblind og með talnablindu á hærra stigi þegar ég var 18 ára, það þykir frekar seint. Út allan grunnskólan fékk ég að heyra að ég skrifaði ekki nógu vel, las ekki nógu mikið, gat ekki reiknað einföld dæmi (allt þetta getur verið einkenni námsörðuleika). Ég var svo viss um að eitthvað væri að mér og þegar ég stakk upp á því að ég gæti átt við lestrarörðuleika að stríða, var ekki hlustað á mig. Því þægar stelpur eiga ekki geta verið svona ófullkomnar og átt við svona stráka" vandamál að stríða. Ég átti bara gjöra svo vel að vera duglegri og leggja harðar að mér. Og þar sem ég var góð stelpa og samviskusöm, potaði ég mér í gegnum skólann á samviskunni. Þetta gekk líka svona í framhaldsskólanum. Þar fékk ég að heyra að ég væri ekki nógu dugleg, að ég væri löt og ætti bara að leggja harðar að mér. Það grunar engan þægu stelpuna sem hefur haft það hlutskipti að vera róleg, þæg og dugleg, síðan hún fékk bleika miðann sinn á fæðingadeildinni.
Í mörg ár áður en ég fékk greininguna mína, grét ég mig í svefn yfir ófullkomnun minni, að vera svona hryllilega löt og ódugleg! Stelpur eru líka lesblindar. Hlustið á stelpurnar, grunið þær, ekki láta umbúðirnar og samviskusemina blekkja!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2011 | 12:46
Hvenær er nauðsyn nauðsyn?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2011 | 00:37
Heimurinn
Jæja, núna finnst mér ég hafa eitthvað að segja. Ég ætla að tileinka þessa bloggfærslu Jamie Oliver. Ég var að horfa á hann í danska sjónvarpinu í gærkvöldi og o my god, ég á ekki til orð. Það er reyndar ekki satt því ég á sko orð. Hann var í Bandaríkjunum og ætlaði að taka til í skólaeldhúsunum eins og hann gerði svo listilega í Bretlandi um árið. Það er sko ekki vanþörf á því að endurskoða matarvenjur fólksins í bænum sem hann fór til og í grunnskólanum í bænum. Ég stóð á öndinni allan tímann! Krakkarnir fengu tvær máltíðir á dag í skólanum, morgunmat og hádegismat. Í morgunmat fengu krakkarnir pizzu, jógúrt og mjólk. Þeir fengu val um þrennskonar mjólk, venjulega mjólk, mjólk með jarðarberjabragði og og mjólk með súkkulaðibragði. Flestir fengu sér súkkulaðimjólkina en enginn venjulega! Ég veit ekki hvort mér var meira brugðið við að sjá krakkana borða pizzu í morgunmat í skólanum eða hafa val um bragðtegundir í mjólkinni! Það þarf vart að segja frá því að margir krakkanna hentu jógúrtinu. Í hádeginu voru síðan kjúklinganaggar, steiktir nota bene, kartöflumús sem innihélt ekki snefil af kartöflum, ávöxt og heimabakað brauð. Enginn snerti við brauðinu og flestir ávextirnir fóru ósnertir í ruslið. Svo kom í ljós að krakkarnir borðuðu gjarnan sama ruslið heima hjá sér í kvöldmat. Ég bara á ekki til orð. Ef barnið mitt þyrfti að fara í svona skóla mundi ég senda það með nesti í skólann á hverjum degi, ekki spurning. Jamie Oliver fór síðan í heimsókn til einnar fjölskyldu þar sem allir eiga við offituvandamál að stríða. Það var nú reyndar ekki furða þar sem mest notaða eldhústækið var djúpsteikingarpotturinn. Frystirinn var stútfullur af frosnum instant pizzum sem allir fjölskyldumeðlimir borðuðu víst mikið af. Þau hentu nú samt djúpsteikingargræjunni og Jamie ætlar að hjálpa þeim að elda hollari mat, sem er líka góður. Það verður framhald í næstu viku bæði frá heimilinu og skólanum. Það versta var samt viðmótið sem Jamie fékk af íbúum þessa bæjar. Það var ótrúlegt. Hann fór í viðtal á útvarpsrás og útvarpsmaðurinn var svo dónalegur. Honum fannst Jamie vera hrokafullur að vilja hjálpa íbúunum að auka lífsgæði og fyrst og fremst lífslíkur. Því það kom fram að þessi tiltekni bær er sá feitasti í öllum Bandaríkjunum og algengasta dánarorsök eru hjartasjúkdómar vegna offitu. Jamie mætti þvílíkri mótstöðu, það varð einskonar fjölmiðlafár í bænum yfir nærveru hans. Viðhorfið var svo lítið "Why fix something that ain't broke". Þetta var í raun sama mál og Al Gore og An Inconveniant Truth og málið með Dixie Chicks, Bush og stríðið í Írak. Mörgum Bandaríkjamönnum finnst, held ég, að eigi að útskúfa fólki sem hefur óheppilegar skoðanir, eða staðreyndir sem gagnrýna besta og ríkasta land í heimi þar sem allt má, elskulega US of A. Jamie Oliver fann samt einn mann í bænum sem tók honum opnum örmum á sá að matarræði fólksins og offita er alvöru vandamál og var það einn prestur í bænum. Samband Bandaríkjamanna við Guð er náttúrlega kapítuli útaf fyrir sig, sem ég mun held ég aldrei skilja, bendi aftur á Dixie Chicks, Bush og írak máilið. Það virðist vera að það séu Bandaríkjamenn sem eru í svo góðu sambandi við Guð að þeir gera allt sem þeir gera í nafni hans (hvort sem þær gerðir geti svo talist réttar eða ekki).
"Sunday morning, heard the preacher say: Thou shall not kill. I don't wanna hear nothing else about killing and that it's God's will" Dixie Chicks - I hope
En hvað um það presturinn segir að það sé vilji Guðs að Jamie Oliver sé þarna kominn til að bjarga fólkinu, og ætlar að predika nýjan lífsstíl yfir sóknarbörnunum sínum. Ég vona að það heppnist. Jamie benti líka á það að Bandaríkin er ekki eina landið sem á við þessa öfugsnúnu samfélagsþróun. Þetta er vandamál í vestrænu ríkjunum almennt. Vandamálið er bara svo stórt í Bandaríkjunum og ég held að Bretland komi þar á eftir, ég er samt ekki viss. Og svo litla elskulega Ísland, við þurfum að passa okkur, því þessi offituvandamál og matarræðis vandamál fara víst ört aukandi. Ég gæti svo sem haldið langa fyrirlestra um skoðanir mínar á málum vestrænnar menningar sem lúta að heilsu og líferni. Ég kippi því bara í liðinn vikuna sem ég ætla að vera forsætisráðherra og laga hina og þessa kvilla landsins. Sá listi lengist og lengist hjá mér að ég held ég verði að endurskoða það hvort ein vika dugi mér til að lækna Íslands mein!
En nú vík ég að aðeins léttari málum. Ég hef algjörlega fundið nýtt áhugamál. Vídeógerð, það er barasta gaman. Hér eru nokkur sem ég nefndi í síðustu viku þar sem ég tala ensku
og hér er það nýjasta, ég tók það upp í dag
Síðan er hægt að finna nokkur fleiri á þessari síðu hér. Og ef þið, lesendur góðir, eruð með einhverjar uppástungur um eitthvað sem ég gæti talað um eða gert í videói, þá eru þær velkomnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2011 | 00:17
stutt blogg
Þó það séu um það bil þrjár vikur liðnar frá síðasta bloggi, er ekki frá mörgu að segja, bara sama sagan aftur og aftur. Ég er bara að bíða. Ég sé núna hvað ég er venjulega alltaf eitthvað út um allt og geri fullt af hlutum alla daga allan daginn (þó að venjulegu finnist mér ég ekki gera neitt). Það er talsverð togstreita að geta allt í einu ekki gert allt það sem maður er vanur vegna svona orkuleysis. Svo kemur samviskan líka inn og segir að ég ætti nú að geta gert meira, þó hausinn og líkaminn séu ekki sama sinnis. En hvað um það. Fyrir helgina ákvað ég að segja mig úr einu námskeiði í skólanum því það er deginum ljósara að ég ræð ekki við að vera í fullu námi akkúrat núna. Námskeiðin sem verður fyrir barðinu er bókmenntasagan sem mér finnst nú annars skemmtileg. Það er bara miklu meiri lestur við hana en þreyttur haus minn ræður við. Á morgun ætla ég að ganga í það að segja mig úr námskeiðinu. Samviskusemin þarf bara að bíða aðeins. Ég verð bara últra dugleg í bókmenntasögunni eftir ár.
Hér til hliðar má sjá í skottið á Zorba þar sem hann var kominn inn í peysu í dag og ég mátti til með að smella af.
Annars hef ég síðustu vikur verið svolítið að leika mér meira með myndavélina mína og púslaði loksins saman vídeói sem ég tók held ég bara á annan í Jólum eða alla veganna á milli jóla og nýárs en hafði ekki klippt það til. Ég gerði það um daginn og hér fyrir neðan er myndbandið. Ég er líka búin að gera nokkur fleiri vídeó þar sem ég tala ensku svo vinir í útlöndum geti líka skilið, en þeim ætla ég að hlaða upp einu af öðru á næstunni. Það hefur reyndar líka hvarflað að mér að prófa að gera svona vídeóblogg, en mér finnst dálítið óþægilegt að tala við sjálfa mig í myndavél, þó það gangi betur núna, en það gerði í vídeóinu hér fyrir neðan sem fyrsta myndbandið sem ég gerði!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2011 | 00:29
Laugardagskvöld
Það hefur nú ekki margt gerst síðan ég bloggaði síðast. Nema kannski að ég gerði Body Balance æfingar í gær og er núna með rosalegar harðsperrur. Það er ansi vont-gott eða gott-vont að setjast og standa upp. Ég sver það, Body Balanceið klikkar aldrei! Ég var í nokkra tíma í dag hjá afa og ömmu en eftir að ég kom heim frá þeim hef ég verið að leika við köttinn. Ég prjónaði líka í fyrsta sinn síðan 2010. Ég bara hef alltaf, það sem af er þessu ári, haft annað hvort ekki skap til eða orku til að prjóna, þangað til í dag. Það er svo gott að halda aftur á prjónunum. Ég held að kettinum hafi líka þótt það gaman.
Hér er afrakstur leiks okkar í kvöld
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.2.2011 | 21:58
Sætur, Jafnsætur, Þriðji
Þegar Gangleri kom til Valhallar hitti hann þar fyrir Háan, Jafnhán og Þriðja sem voru í raun hinn eini og sanni Óðinn. Ég hef hitt Sætan, Jafnsætan og Þriðja en sá er reyndar ekki nefndur Alföður, heldur Zorba.
Ég stend mig engan veginn í bloggfærslum. Síðasta önn í skólanum endaði vel. Prófin fóru að mestu eins og ég hafði búist við. Sá þáttur námsins sem gekk best var mælskulistin sem er einnig mitt uppáhald. Ég held áfram í skólanum á nýja árinu og er nú þegar búin að vera í tæpar þrjár vikur. Ég hef samt mætt mismikið þessar vikur. Ég mæti bara eins og orkan leyfir, ég er ansi þreytt þess dagana og verð útkeyrð við minnsta álag. Álag telst til að mynda að lesa heila síðu í bók, en eftir slíkt afrek finnst mér ég þurfa að leggja mig. Einbeitingin er líka frekar lítil. En ég mæti nú samt í skólan þó ég sé að mestu óundurbúin fyrir tímana, það er að segja, allveg ólesin. En kennararnir sem ég hef talað við ætla að taka tillit til þessa orkuleysis míns. Mér finnst bara allveg nauðsynlegt að fara í skólan þó ég sé að miklu leyti úti á þekju í tímunum. Samt tókst mér að skila inn verkefni í beygingar- og orðmyndunarfræði um daginn og fá fullt hús fyrir, en ég veit satt að segja ekki hvernig mér tókst það.
Svo ég víki nú ekki langt frá mínu eigin íslenskunámi, þá er ég komin í smá vinnu við að kenna útlendingum íslensku í háskólanum. Ég er aðstoðarkennari. Það kom þannig til að fyrir jól var auglýst eftir aðstoðakennara í násmkeið í hagnýtri íslensku fyrir útlendinga og ég sótti um. Jólin og áramótin liðu og ég hafði ekki heyrt neitt og bjóst í raun ekki við að fá svar einu sinni, þar sem ég hafði enga reynslu af kennslu. En svo kom allt í einu tölvupóstur í byrjun janúar, 4. jan., og í honum var ég beðin um að koma í viðtal daginn eftir, sem ég og gerði og fékk vinnuna. Ég fer einu sinni í viku að aðstoða við kennslu. Ég er svo þakklát fyrir að fá þetta tækifæri, ég var án efa ekki hæfasta manneskjan í starfið, rétt að byrja í BA námi og engin reynsla af kennslu. Ég er líka stolt að hafa verið valin. Ég held að þó að ég sé ekki allveg með sjálfri mér þessa dagana, þá hafi þetta tækifæri verið akkúrat það sem ég þurfti í byrjun ársins. Ég er búin að mæta til kennslu þrjá miðvikudagsmorgna í röð, og ég verð að segja að það hefur verið frábært! Þó að það hafi verið spenna og stress í byrjun þá er svo mikil hvíld fyrir mig að vera þarna. Mér finnst ég eiginlega bara allveg vera endurnærð eftir hvern tíma. Þetta eru nokkrar af þeim fáu klukkustundum sem ég er ég sjálf, öll vandamál og áhyggjur, og magnleysi á bak og braut í einn og hálfan tíma í röð. Það er bara svo upplífgandi. Ég held líka að mér gangi bara vel, ég er búin að fara yfir verkefni frá nemendum og allt saman.
Í augnablikinu á meðan ég skrifa þessa bloggfærslu, sofa Sætur, Jafnsætur og Þriðji á maganum á mér með loppur á vinstri framhandlegg mínum. Svoleiðis er hann Zorba, honum finnst gott að kúra þegar hann er þreyttur, en þess á milli er hann mikill fjörkálfur og leikur sér mikið. Hann gefur stóra frænda sínum Blettatígurnum líka lítið eftir, því hann er úrvals spretthlaupari!
Smá mynd af dýrinu að skoða nýju klórustöngina sína.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.10.2010 | 19:58
íslenska er okkar mál
Ég verð að segja að það getur verið hamlandi pirrandi að vita að það eru til tæki, tól, tækni og þjónusta sem maður getur ekki nýtt sér til fullnustu eða jafnvel alls ekki því málsvæðið manns er smátt, þjóðin manns er fámenn eða landið manns er úr alfaraleið í heimsálfunni sem það tilheyrir. Ég held að það sé mikil framtíð í því að koma þessu öllu í lag. Ef það væri lögð áhersla á þessi mál í landinu og ef jafn mikill áróður væri á tungumálum og á raungeinum þyrfti ekki að hafa áhyggjur af íslenskri tungu á tæknöld. Því ef fleiri hefðu betri kunnáttu á málinu og hefðu áhuga (sem kannski gæti náðst með áróðri) þá gætu fleiri unnið við að íslenska tæknina. Það er ekkert sem segir að tæknin þurfi að ógna íslensku máli bara ef við höldum rétt á spöðunum. Íslenskan á ekki bara að vera til heimabrúks!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2010 | 00:09
stórir hringir og hjartalaga
Núna er ég næstum því búin að vera íslenskunemi í mánuð. Á morgun, fimmtudag verður mánuður liðinn. Mikil ósköp líður tíminn hratt, verð ég að segja. Ég er meira að segja búin að skila og fá til baka fjögur verkefni. Það eru verkefni í málfræði og aðferðafræði. Nýjasta verkefnið sem ég fékk til baka var aðferðafræðiverkefni sem ég fékk 3 af 3 fyrir. En það var nú bara einfalt verkefni í gagnrýninni hugsun.
Enn hrífst ég ekki svo mjög af bókmenntafræðinni, en við erum búin að vera að fást við bragfræði og stílbrögð sem er eiginlega bara upprifjun frá því í framhaldsskóla og jafnvel úr grunnskóla. Fyrirlestrartímarnir eru yfirleitt mjög fínir, en það er önnur saga með umræðutímana sem mér finnst vitagagnslausir. Ég fæ alla veganna ekkert út úr þeim og ef ég á að segja satt hundleiðist mér í þeim. Mér finnst þeir að mestu vera vitleysa. En hingað til höfum við verið að túlka ljóð og mér finnst svo margir samnemendur mínir oftúlka ljóðin um of. Ég hef lært það að það er ótrúlegt hvað fólki dettur í hug. Sumt er svo langsótt og vitlaust. En kannski aðhyllst ég bara einfaldar og skýrar túlkanir sem ég á auðvelt með að rökstyðja með hjálp ljóðsins.
Málfræðin er alltaf æðisleg. Það kom sögulegur málfræðingur til okkar um daginn í aðferðum og vinnubrögðum að fræddi hópinn um sögu íslenskrar málfræði og þar varð ég margs vísari. Vissuð þið til dæmis að sterka beyging sagna er frá því 4000 fyrir Krist þegar málið var indóevrópska og að veika beygingin er nýjung úr germönsku frá 1000 fyrir Krist. Ég komst líka að því að um tíma datt táknið ð úr málinu en það var af því að það varð málbreyting í Noregi og ð hljóðið fór, en málbreytingin varð ekkert á íslensku og því varð ð aftur tekið í notkun síðar. Orðið hönd er af svo kölluðum kvenkyns u-stofni og er eina slíka orðið í íslensku. Með því að skoða gotnesku hafa fræðingarnir fundið út hvers vegna orðið beygist svona skringilega í þágufalli(hendi). En það er vegna þess að orðið yfir hönd á gotnesku er handus og u-ið þar kallar fram hljóðvarp þannig að a-ið breytist í e og u í i, eða eitthvað svoleiðis. En það sem mér fannst merkilegast í þessu var hvernig fræðingarnir hafa pælt í þessu og rannsaka einstök orð og finna reglu í hlutunum svona langt aftur í tímann með hjálp annarra útdauðra mála. En hvað um það, ég ætla ekki að skrifa upp allt það sem kennararnir segja eða ég hef glósað niður. Það er ekkert spennandi ;D
Annars hefur mér fundist ég vera heldur heimspekilega þenkjandi upp á síðkastið. Það er held ég öll gagnrýna hugsunin. Ekki það ég sé ekki heimspekilega þenkjandi og beiti gagnrýninni hugsun að staðaldri. Það er nú fjöldi kennara í MH sem predika gagnrýna hugsun og heimspeki. Það eru kennararnir sem staglast á því að þeir séu sko að undirbúa nemendur fyrir hugvísindi á háskólastigi. Ég tel óþarft að taka fram að þeir kennarar sem þetta segja eru flestir tungumálakennarar. (Innskot: Hver deild Háskólans, að minnsta kosta innan hugvísindasviðs, hefur sinn eigin, fílósófíska/aðferða kúrs og fær að velja sjálf hversu mikið er heimspeki og hversu mikið er aðferðafræði eða bara hvað er gert í þessum kúrsum. Í deild erlendra tungumála er kúrs sem byggður er á fræðinni á bakvið heimspekina. Þar er maður látinn læra um heimspekinga, allt frá Sókratesi. Og maður þarf að kunna góð deili á mönnum eins og Descartes eða Derrida, kenningum þeirra og geta borið þær saman. Þetta fannst mér drepleiðinlegt og sá engan(og enn sé engan) tilgang með að geta það. Ég hef alla veganna ekki séð hvernig fræðin um heimspekinga á gagnast mér í minni fræðigrein. Hitt er svo annað mál að heimspeki í reynd er gagnleg en við hana er ekki fengist í deild erlendra mála. Þar prófar maður ekki kenningar. En í aðferðafræði íslenskunnar er meira um að maður sé látinn beita heimspeki sjálfur.) Gagnrýnin hugsun og heimspeki er tvennt nátengt því með góðum vilja er hægt að beita gagnrýninni hugsun á næstum hvað sem er og þá leiðist maður gjarnan út í hringlaga heimspekihugsanir. Hvernig get ég verið viss um að grasið úti sé grænt en ekki fjólublátt? - Svarið við því er auðvitað að ég get ekki alls ekki verið viss um það, en á sama tíma veit ég að það er það af því fyrir löngu hefur fólk sett orð á sjónir sínir. Á einhverjum tímapunkti hefur verið maður, eða kannski öllu heldur menn sem hafa byrjað á kalla þetta grænt og það bara staðið óbreytt. Það er samfélagslega staðfest að gras er grænt, en gætu samt ekki augu allra verið að blekkja þá og það sem við sjáum grænt sé í raun eitthvað annað. Ég gæti meira að segja velt því fyrir mér hvort gras sé rétt heiti fyrirbærisins. Það hljómar kannski óttalega absúrd og langsótt hugmynd en það er ekkert hægt að vera handviss um þetta. Í framhaldi af þessu gæti ég svo hugsað Hvernig veit ég eitthvað eða hvað veit ég. Reglulega hugsa ég um þetta og kemst alltaf að sömu árans niðurstöðunni um að í raun viti ég ekki neitt. En um leið og ég fullyrði að ég viti ekki neitt er ég að gefa til kynna að ég viti eitthvað. Því ég veit að ég veit að ég veit ekki neitt og um leið og ég veit að ég viti ekki neitt hefur niðurstaða mín um að ég viti ekki neitt fallið um sjálfa sig, því ég veit að minnsta kosti að ég viti ekki neitt. Ég hef því þegar öllu er á botninn hvolft einhverja vitneskju. Fyrir nokkrum árum hugsaði ég fyrst í hring og fannst það svo óþægilegt því ég varð bara rugluð af öllum hugsununum og beinlínis bara illt í höfðinu. En eftir því sem ég hugsa meira svona því minna óþægilegt er það. Hitt er svo annað mál að þegar ég hugsa um að mér finnist hringlaga hugsanir ekki jafn hræðilegar, finnst mér það hræðileg hugsun að mér gæti átt eftir að finnast það þægilegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.9.2010 | 00:58
Alls konar
Jæja þá er tími kominn fyrir nýja færslu.
Hér verður reynt að stikla á stóru yfir atburði síðustu 14 daga en atriðin verða að öllum líkindum í einni bendu ef ég þekki mig rétt.
Ég er semsagt búin að vera íslensku nemi í tvær vikur og enn sem komið er, er ég hæst ánægð. Bekkurinn er stór á minn mælikvarða, ég reikna með að það séu um 50-70 nemendur, það koma náttúrulega aldrei allir í tímana. 50- 70 nemendur er nú samt fámennt í samanburði við sumar aðrar deildir skólans. En 50-70 er hins vegar mjög fjölmennt í samanburði við 6 manna hóp í dönskudeildinni. Það voru viðbrigði fyrir mig að koma úr fámenninu í dönsku yfir í fjölmennið. En ég verð nú samt ekkert svo vör við allt þetta fólk. En auðvitað er maður lengur að kynnast öllu þessu fólki eða að þekkja það með nafni. Enn sem komið er þekki ég nú bara hann Vigni sem var í MH. En ég ætla nú samt að kynnast fleirum. Liður í þeirri ætlun er að taka þátt í vísindaferð Mímis á Morgunblaðið þar sem starfsemi þess verður kynnt, þó svo að Moggann þurfi ekki að kynna fyrir mér, ég hef farið tvisvar sinnum áður í svona skipulagðar skoðunarferðir á Moggann. Ég ætla fyrst og fremst í þessa ferð til að sýna mig og sjá aðra.
Upphálds fagið mitt í skólanum enn sem komið er er málfræðin. Mér finnst hún bara miklu áhugaverðari og skemmtilegri en nokkurn tíman bókmenntafræði. Mér finnst mun skemmtilegra að orðflokkagreina en að velta fyrir mér bragliðum. Ég er búin að læra það í málfræðinni að barn eins og hann Matthías Hallur frændi minn er komið með allt hljóðkerfi móðurmálsins á hreint. Ég reikna með að Matthías Hallur sé væntanlega auk hljóðkerfis móðurmálsins kominn með sænska hljóðkerfið nokkur á hreint. Í málfræðinni veltum við líka fyrir okkur hvernig málvitund fólks virkar, fólk hefur nefnilega mismunandi málvitund. Það er að segja það sem einum þykir eðlilegt í málinu getur öðrum þótt algjörlega út í hött.
Ég hef lítið að segja um bókmenntafræðina, hún er fín en höfðar í augnablikinu ekki eins til mín og málfræði. Eða kannski er það bara bragfræðin sem mér finnst leiðinleg en það er það sem við fengumst við í síðustu viku.
Í aðferðum og vinnubrögðum á þriðjudaginn fórum við að skoða Árnastofnun og fengum þar að skoða gömul skjöl sem var mjög merkilegt og gaman að mínu mati. Þar fengum við að sjá rit frá 12 öld og mig minnir að það sé elsta rit sem til er á norrænu máli í öllum heiminum. Ég fæ nú bara hroll við tilhugsunina að ég hafi séð slíkt rit með berum augum. Hin ritin sem við fengum að sjá voru samt heldur yngri. Við skoðuðum líka hljóðritasafnið og komst að því að vinnan þar er endalaus, en þar vinnur fólk við að færa gömul hljóðrit á kassettum yfir á stafrænt form og koma um leið skipulagið á skipulagt óskipulagið. Á fimmtudaginn fórum við síðan vestar í bæinn og skoðuðum Orðabók háskólans. Það var ekki eins skemmtileg heimsókn, eiginlega fannst mér hún leiðinleg á stórum köflum. Skrifstofur eru almennt ekkert mjög spennandi.
Ég er búin að fara tvisvar í þýsku, fyrst fór ég bara í einstaklingsviðtal til kennarans, sem kennir líka eitthvað í MH en hefur samt ekkert kennt mér þar, ég held hann sé mest í öldungadeildinni. Það samtal var bara stutt og fór fram á íslensku. Síðan núna á miðvikudaginn fór ég í fyrsta tímann. Það eru ekki eiginlegir tímar í þýsku en maður þarf að mæta níu sinnum í svokallað Workshop yfir önnina. Í tímann sem ég fór í á miðvikudaginn mættu tveir aðrir nemendur, maður mátti sko velja um nokkra tíma þannig að restin mætti á öðrum tímum. Ég fór nánast dansandi af gleði úr Nýja Garði þar sem þýskan var, því ég var betri í þýsku en hinir tveir nemendurnir sem þar voru. Það gaf mér rosalegt boost. Ég gat meira að segja rætt við kennarann á þýsku og ég held að mér hafi tekist nokkuð vel að koma frá mér því sem ég hafði að segja. Mér finnst mjög gaman að hafa núna átt samtal við Þjóðverja á þýsku. Ég hlakka bara rosalega til að halda áfram í þýsku. Þegar ég svaraði spurningu kennarans um af hverju ég sé í þýsku, fannst honum svarið mitt merkilegt. Ég sagði nefnilega að ég væri þarna eiginlega bara af því mér finnist tilgangslaust að vera búin að verja tveimur og hálfu ári í að læra eitthvað tungumál í framhaldsskóla og gera síðan ekkert við. Þetta er náttúrulega dagsatt, en það var eins og þetta væri ekki svar sem hann heyrði oft. Hann sagði mér þó að hann hefði heyrt skrítnari svör, til dæmis hafa komið strákar komið sem hafi viljað læra málið af því þeir eiga kærustu frá Þýskalandi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Úlfhildur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar