skrifað: Laugardaginn 12. júlí 2008

Íslenskt mál: Kannast einhver við orðið jarki?  Ef ég segi að jarki sé líkamspartur, hvar á líkamanum er hann?

 

 

Hvar á ég að byrja? Ég kom til Svíþjóðar í gær. Ég lenti á Arlanda um klukkan eitt, tók síðan snabbtåget/ hraðlestina Arlanda Express inn í bæinn. Síðan var að koma mér á Nordjobb. Einhvern veginn tókst mér að gera 15 mínútna labb að eins og hálfs tíma göngu. Ég nefnilega gekk á vitlausan stað en endaði síðan á skrifstofunni hjá Nordjobb. Hjá Nordjobb hitti ég Jessicu hún sér um Nordjobb í Stokkhólmi, hún gaf mér upplýsingar og kort af bænum. Eftir þetta splæsti ég bara í leigubíl heim. Ég held að það sé ódýrara að taka leigubíl hér en í Reykjavík. Herbergið mitt er svona tíu sinnum stærra en ég bjóst við. Ég er líka með prívat klósett og sturtu, sem ég bjóst heldur ekki við. Ég kannski tek myndir af þessu seinna. Í gærkvöldi fór ég síðan út í leit að matvöruverslun. Hana fann ég ekki, en ég fann 5+ bíóhús, endalaus kaffihús og veitingastaði. Ég endaði á að fara á McDonalds.  McDonalds hér er sko allt annað en heima. Hér er þetta ekki eins skyndibitalegt, meira eins og fínt kaffihús, með flottum borðum og stólum og bekkjum. Þetta var svona tveggja tíma atriði, mikið labb. Þegar ég kom heim var ég dauðþreytt og fór bara að sofa.

Í morgun vaknaði ég svo snemma fór í sturtu og fór út að finna lestarstöðina. Ég hafði grandskoðað þetta á kortinu bæði í gærkvöldi og í morgun áður en ég fór út. En mér tókst nú samt að villast. Ég þurfti að gerast túristi og taka upp kortið. Nokkrar götur gekk ég með kortið uppi til að leiðrétta þær villur sem ég hafði gert. Þetta tók svona hálftíma. Ég gerði semsagt 10 mínútna labb að hálftíma labbi. Lestarferðin tók síðan bara 4 mínútur. Ég fór á sænskunámskeið hjá Nordjobb klukkan 9. Námskeiðið var frábært. Það eru náttúrulega langmest Finnar. Við erum tvö á námskeiðinu sem erum ekki frá Finnlandi, hinn er danskur strákur. Kennarinn er sænskur maður sem er spænsku kennari, enn kennir líka útlendingum sænsku. Við vorum öll látin kynna okkur fyrir hópnum, sem er svona 18-20 manns. Ég sagði hvað ég heiti hvaðan ég er, að ég eigi mömmu og pabba, að ég sé í menntaskóla á Íslandi og að ég hafi áhuga á tungumálum. Þegar ég sagði það, spurði kennarinn mig hvaða tungumál ég talaði. Ég taldi upp íslensku, dönsku, ensku, smá færeysku og pínu þýsku. Hann sagði að þetta væri tilkomumikill listi. Hann kallaði íslenskuna latínu Norðurlandanna. Það er nú ansi flott að íslenskunni manns sé líkt við latínu, mér finnst það alla veganna. Öllum finnsku stelpunum og kennaranum finnst alveg ótrúlegt að ég hafi aldrei lært neitt í sænsku. Stelpurnar sem ég talaði við gátu ekki heyrt í mínu tali að ég hafi aldrei lært neitt. Líka framburðurinn hjá mér er réttur. Öll þessi skrítnu kokhljóð sem eru í orðum eins og t.d. sjukhus, sicka, själf og ýsmis önnur skrítin sænsk hljóð. Ég held að aðalástæðan sé það að hún Laura sem var með mér í Færeyjum talaði sænsku við mig. En af og til í dag, datt ég inn í dönsk orð. Ég notaði t.c. tøj og fordi, sem eru ekki notuð í sænsku. Þegar námskeiðið var búið klukkan korter yfir fjögur fór ég heim. En ég var samt ekki komin heim fyrr en um sex leitið. Því ég villtist á leiðinni heim af lestarstöðinni í hverfinu mínu, eins og í morgun. En ég fann samt réttu leiðina. Svíar fá ekki verðlaun fyrir vegmerkingar. Götur eru illa merktar, lítið um skilti sem segja til um nöfn gatnanna. Bara smá skilti á húsveggjum. Götuheiti er miklu meira áberandi í Reykjavík. Mér finnst núna Íslendingar vera meistarar í götuheitaskiltum. Það hjálpar heldur ekki að allar göturnar hérna líta nákvæmlega eins út! Húsin eru annaðhvort svona ljósgul eða rauð. Um tíma í dag langaði mig til þess að kaupa málningu og segja “vesgú, málið nú húsin í mismunandi litum!”

 

Þessir löngu, óþarfa útúrdúrar hjá mér, hafa haft áhrif á fæturna á mér. Þeir líta ekki beint vel út. Blöðrur á öllum mögulegum stöðum. Ég get varla staðið í vinstri fótinn núna, ég er með tvær risablöðrur sem standa út eins og horn. Önnur á tá og hin utan á fætinum. Ég veit ekki hvernig ég ætla að fara í skó í fyrramálið til að fara aftur á sænskunámskeiðið. Ég er svona að vona að þær hjaðni yfir nóttina, en ég efast samt um það. Ég get ekki sagt annað en að ég er þakklát fyrir smæð Reykjavíkurborgar, engar yfirstíganlegar vegalengdir, jafnvel þó að maður villist í öllum götunum niðri í bæ(sem ég hef gert), maður er alltaf snöggur að finna götu sem maður þekkir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergþóra Jónsdóttir

Ég veit að þú veist að ég veit hvað jarki er, og þess vegna ætla ég ekki að svara spurningunni.  Kannski að tönturnar fái að spreyta sig fyrst og koma með einhverjar guðdómlegar útskýringar.

Verst með blöðrurnar - en þær fara nú með tímanum.

Knús í bili,

Mamma

Bergþóra Jónsdóttir, 13.7.2008 kl. 18:00

2 identicon

Hæ hæ

Gott að heyra frá þér.

Eru Svíar 10 dögum á undan okkur í tíma? Fif(f)an! Ég varð alveg rugluð enda enn að hókusa pókusa Asíutímann yfir í íslenskan. Held ég geymi að svara jarkanum þar sem ég veit og vil ekki vinna svona auðveldlega. Blöðrurnar þarftu að sótthreinsa sem fyrst og fá þér viðeigandi plástra, bitte schnell!

xxxxxÓlöf

Ólöf Jónsdóttir (IP-tala skráð) 13.7.2008 kl. 19:51

3 identicon

Veit ekki betur en að jarki sé á fætinum, þú veist ytri hliðin á fætinum. En ég er þó ekki viss, hefur eitthvað með fæturna að gera.

ímsílíms (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 01:24

4 identicon

Hæ, hæ.

Ég veit alveg hvaðan þú hefur þessa óratvísi. Ég ætla ekki að segja þér það. Hún er ekki frá afa þínum. Já jarkinn er utanverður fóturinn og ilin er innanverðu, tábergið og tærnar eru að framan og hællinn að aftan. Það er sagt oft við krakka að þau megi ekki ganga á jörkunum, þegar þau eru að leika sér að ganga þannig að iljar snúi saman. Absolut plástra á blöðrurnar.

Gangi þér vel, afi

Jon Hallsson (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 14:59

5 Smámynd: Úlfhildur Flosadóttir

Mikið á ég vel upplýsta fjölskyldu!!

Jarkinn er einmitt ytri hliðin á fætinum. Mér datt í hug að bera upp þessa spurningu því í þankagangi mínum leiðir stundum ein hugsun til annarrar. Ég fékk blöðru á jarkann og var að hugsa að ég þyrfti að fara út og kaupa plástur, og fór því að hugsa um jarkann og plástra. Þá minntist ég þess að hafa eitt sinn verið í Apótekinu í Austurveri að biðja um plástra sem gott væri að setja á jarkann. Konan, fullorðin kona á besta aldri, vissi ekki hvað jarki væri. Ég varð nokkuð hissa. Í mínum huga var alveg sjálfsagt að þekkja þennan líkamshluta á fætinum, rétt eins og maður þekkir muninn á tám og hæl og rist og il, eða eins og maður þekkir öll 5 nöfnin á fingrunum, og síðan, lófa og handarbak.

Ég velti því fyrir mér hvort þetta orð sé almennt ekki í orðaforða fólks. Alla veganna sé ég núna í þessari athugasemd minni hér, að villu púkinn samþykkir ekki orðið jarki.

Bara smá íslenskupælingar.

Úlfhildur Flosadóttir, 14.7.2008 kl. 19:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Úlfhildur

höfundur

Úlfhildur Flosadóttir
Úlfhildur Flosadóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • nóvember 022
  • nóvember
  • flutningar 041
  • flutningar 035
  • flutningar 033

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband