14.7.2008 | 20:44
þrumur og eldingar!!
Jæja bloggtími. Det är dags att blogga lite
Í gær var ég aftur á sænskunámskeiðinu. Námskeiðið var betra á laugardaginn, en samt alveg fínt. Eftir námskeiðið fóru margir af Nordjobburunum saman út, ég fór með. Við fórum í matvöruverslun, keyptum nesti og settumst síðan í almenningsgarð og spjölluðum. Í gær var ein norsk stelpa á námskeiðinu, hún kom líka með okkur í garðinn. Það kemur mér eiginlega á óvart hvað Finnarnir eru duglegir að tala við þau okkar sem tölum ekki finnsku. Flestir Finnarnir hérna eru reyndar aðallega hér til þess að tala sænsku. Ég talaði við norsku stelpuna, hún heitir Kristina og hefur verið hér í tvær vikur,finnska stelpu sem heitir Odessa sem kom á frjádaginn eins og ég, ég hitti hana á skrifstofunni hjá Jessicu, aðrar finnskar stelpur sem hafa verið hér í tvær vikur, ein heitir Tiina, önnur Hanna-Kaisa og síðan var önnur en ég náði ekki alveg nafninu á henni, það var eitthvað finnskt sem er erfitt, en nafnið byrjar á byrjar á T. Síðan voru tveir strákar, Joonas frá Finnlandi og Tomas frá Danmörku. Þetta var bara gaman. Ég og Tiina ætlum að reyna að gera eitthvað saman, hún er svolítið þreytt á að vera alltaf með Finnum. Ég skil það alveg. Ég varð líka stundum dálítið þreytt að vera alltaf með íslendingum í Danmörku.
Eftir þetta fór ég síðan heim og kveikti á tölvunni, því Jessica sagði mér að það ætti að vera internet tengin í herberginu mínu, mikið rétt það er internet og það "funkar bra." Um kvöldið slappaði ég bara af, las smá í túristabókinni minni um Svíðþjóð og Stokkhólm, þar sagði meðal annars að í Svíþjóð væri ekki hægt að borga fyrir áfengi með kreditkorti því þinginu og ríkisstjórninni finnst rangt að fólk geti keypt áfengi fyrir peninga sem það á ekki til staðar. Ég lagaði mér síðan pakkasúpu í eldhúsinu hér.
Nú í morgun vaknaði ég snemma, fór út. Fór út á lestarstöð og keypti mér mánaðarkort í almenningssamgöngurnar, því ég sá fram á að það yrði of dýrt að nota klippikortið sem ég er með núna. Mánaðarkortið get ég notað eins mikið og ég þarf í 30 daga, ansi smart verð ég að segja. Ég fór með lestinni þangað sem ég á vinna á Södermalm, ég vildi mæla hve langan tíma það tekur mig að fara frá mínum dyrum og í vinnuna, svo ég viti hvenær ég þurfi að leggja af stað á morgun. Ég sé fram á að þurfa að leggja af stað um 45 mínútum áður, sem þýðir að ég þarf að leggja af stað útúr húsi uppúr 7. Hryllilega snemma. Ég þarf að vakna fyrir klukkan sjö. Heima þá vakna ég 3 mínútur yfir sjö til að vera komin í skólann klukkan 8. Aftur smæð Reykjavíkur.
Ég setti líka plástra á þær blöðrur sem eru enn til staðar, í morgun. Ég finn að líkaminn er á fullu að vinna í því á láta þetta gróa, smá svona léttur fiðringur af og til.
Á hádegi fór ég með Nordjobburum í sólbaðsferð. Við hittumst á ákveðni lestarstöð. Þaðan labbaði Jessica með okkur, 7 Nordjobbstelpum, á sólbaðsstaðinn. Ég á ekki til orð yfir æðisleika staðarins. Hann heitir Fredhällsklipporna og er á vestur enda Kungsholmens í Stokkhólmi. Þetta eru klettar, ekkert brattir, það eru mest bara klappir í þessum klettum. Og á klöppunum situr og liggur fólk og sleikir sólina, síðan er líka hægt að stinga sér til sunds í hafinu. Þetta var nákvæmlega eins og maður sér í öllum sænsku barnamyndunum. Ég gæti alveg ímyndað mér svona á Saltkráku. Ég man líka að í þáttaröðunum um Skjerjagarðslækninn, þá sat fólk einmitt á svona klöppum við sjóinn. Þetta var alveg æði. En því miður þá fattaði ég ekki að taka myndir. Ég verð bara að fara aftur seinna. Ég var miklu brúnni en allar finnsku stelpurnar. Hverjum hefði dottið í hug að Íslendingur væri sólbrúnni en Skandínavi. Híhí. Þær voru líka allar stöðugt með sólarvörnina uppi. Hún á nú alveg að duga í svolítinn tíma, nokkra klukkutíma.Eftir sólbaðið fór ég heim og varð síðan svo skyndilega þreytt að ég lagði mig og þegar ég vaknaði var kominn tími til að borða kvöldmat.
Ég ákvað að fara út og finna eitthvað ég var of löt til þess að laga eitthvað sjálf. Allur hitinn hérna 23°C gerir mig svo dasaða. Ég rölti í sólskyni út á Karlaplan og fann mér þar hamborgara. Ég settist niður og borðaði innandyra. En síðan þegar ég var að fara út aftur þá var allt orðið skýjað og svo búmm!!! Þrumur og eldingar! Algjört úrhelli. Alveg ótrúlegt. Ég stóð í smá tíma undir skyggni á verslunarmiðstöð og vonaðist til að það mundi fljótt stytta upp, en síðan gafst ég upp, það var líka aðeins minna regn þá stundina og gekk áfram. Alla leiðina heim héldu þrumurnar áfram og regnið féll til jarðar eins og hellt hefði verið úr stóru baðkari. Þetta gerði ekki mikið til, rigning var heit, en ég varð náttúrulega hundvot. En það var samt ekki samskonar bleyta og þegar maður lendir í hellidembu heima. Heima er rigningin þyngri og einhvernvegin blautari. Ef maður getur talað um mismunandi bleytustig bleytu. Þegar ég kom inn fór ég bara í náttföt og nú sit ég á rúminu og tölva. Bara þægilegt, en ég ætti bráðum að fara að halla mér, ég hef á tilfinningunni að morgundagurinn verði langur, eins og reyndar allir dagarnir hér hafa verið.
Um bloggið
Úlfhildur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk ástin mín fyrir kortið - það var gaman að geta rakið slóðina þína. Ég sé líka að það er ekki svo langt á þessa strönd frá Hornstull sem er rétt við vinnuna þína, og lestir nærri báðum stöðum. Þú talar um langa daga, þeir virðast allavega svakalega viðburðaríkir. Hvað ertu lengi að labba heiman frá þér niðrá Karlaplan?
knus och kram
mamma
Bergþóra Jónsdóttir, 15.7.2008 kl. 00:04
Þú og þín sólbrúnka, skamm skamm skamm. Sólaráburður endist nefnilega EKKI í nokkra tíma, láttu mig vita það elskan mín. Þessar finnsku vita greinilega alveg hvað þær eru að gera. Um leið og maður byrjar að svitna þá byrjar sólarvörnin að leka af manni. En núna má mamma þín fara að passa sig, ekki máttu verða brúnni en hún!
ímsílíms (IP-tala skráð) 15.7.2008 kl. 01:54
Halló halló stoppa hér!!!
Sólaráburður dugar EKKI lengi og þú verður að passa húðina á þér. Nýjustu rannsóknir sem ég las í Kína sýna að fólk ber ekki nóg á sig. Fólk heldur að einhver skeina dugi. Aldeilis rangt. Í rannsókninni segir að fólk ÞURFI að bera oft á sig og maka mjög reglulega á sig sólarvörn. Þú kaupir ekki nýja húð utan á þig eftirá elskan mín! Ég tek því heilshugar undir varnaðarorð Íms og mæli með að þú notir FINNSKU AÐFERÐINA.
ást Ó.
Ólöf Jónsdóttir (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 18:02
Vörnin ætti nú að duga lengur en 10 mínútur, stelpurnar báru á sig á svona tíu mínútna fresti. ég hef aldrei heyrt að maður eigi að bera sólarvörn svo títt á sig. Annars fer ég varlega í sólinni, ber á mig sólarvörn og aftersun sem kælir húðina og er oft líka með Aloe Vera
Úlfhildur Flosadóttir, 16.7.2008 kl. 20:22
Æ ég er náttúrulega bara öfundsjúk að þú getir orðið svona útitekin og brún : ) Þú veist náttúrulega að ég verð bara bleik og freknótt. Er komin með nógu margar freknur fyrir minn smekk, og þessvegna keppist ég við að bera á mig áburð, samt ekki á 10 mínútna fresti.
ímsílíms (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 15:05
Bara svona bæ ðe vei, þá var ég orðin brúnni en hún mamma mín þá þegar á Íslandi. Mont mont. Grikklandsbrúnkan hennar er farin að dofna. Fólk er misjafnlega viðkvæmt fyrir sólinni. Sumir eru með sterkara skútukarlagen í sér en aðrir
Úlfhildur Flosadóttir, 17.7.2008 kl. 19:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.