6.4.2007 | 18:13
Dagur tvö - misskilningur?
Það er annar í páskafríi í dag, annað nafn yfir þennan dag er föstudagurinn langi.
Í gær þá tók ég til í herberginu mínu, enda ekki vanþörf á. Ég kláraði loksinns flutninginn inn í herbergið, 4 mánuðum á eftir áætlun. Betra er seint en aldrei. Ég þreyf hvern einasta krók og kima og breytti síðan smá í herberginu, færði borðin tvö til. Miklu betra svona. Ég hef betri aðgang að glugganum og skúffunum undir rúminu og að korktöflunni þar sem dagatalið mitt hangir. Ég hefði átt að láta mér detta þetta í hug fyrr. Ég hengdi líka upp myndirnar mínar Ég bara fann einhverja þörf fyrir það að breyta. Ég held það sé vorið sem hefur þessi áhrif. Í gær borðaði ég líka nammi. Ég hafði keypt svona haribo poka. Ég finn að líkaminn minn er ekki jafn vanur sætindum og hann var. Yfir allan daginn var ég nartandi í nammið og fram í kvöld líka. Um kvöldið var síðan ís. Ég fékk mér ís og síðan líka pop. Um ellefu leitið var ég orðin eirðarlaus. Þó var ég ekki búin að borða svo mikið af sætindum. Nammi pokinn var bara um það hálfnaður, og minna af ís en ég er vön að borða, þegar ég borða ís. Þetta var bara of mikill sykur fyrir einn dag. Minna heldur en ég var vön að þola.
Í dag gerði ég svo eiginlega ekkert. Jú ég vaknaði snemma og útbjó morgunmat með Jesper. Ég sá um allt þetta venjulega og hann steikti beikon og hrærð egg. Síðan eftir að hafa borðað, þá settist ég við tölvuna mína til að horfa á Passions. Engin af dönsku sjónvarpsrásunum sem ég næ sýna sápuóperur. Ég bara næ því ekki, Tvær aðal dönsku stöðvarnar sýna ekki sápuóperur. Fólk veit ekki af hverju það er að missa af. Þar sem ég er vön að fylgjast með 2 til 3 sápum heima, og vantaði eitthvað algjörlega gagnslaust en spennandi að horfa á(sápu). Þá fór ég á netið og fann sápuna Passions frá amerísku NBC sjónvarpstöðinni. Þeir sýna hana á netinu. Ég er búin að fylgjast með Passions á hverjum degi síðan fyrir nokkrum vikum. Og ég er algjörlega dottin inn í þetta.
Eftir Passions þá fór ég út í göngutúr, bara fínasta veður, passar að vera úti á peysunni. Þegar ég var svo komin inn aftur þá fór ég að góna á sjónvarpið. Tvær Hallmark myndir í röð. Aðra myndina var ég búin að sjá áður á Hallmark hina hafði ég ekki séð áður. Báðar myndirnar voru týpískar Hallmark myndir.
Síðan var kominn kvöldmatur. Fyrsta lambið sem ég borða í Danmörku árið 2007.(ekki satt man það núna, þetta er annað skiptið, auðvitað var lamb með íslenku kjötsúpunni) Það þarf virkilega að kenna dönum að borða lambakjöt. Það eru fleiri dýr til heiminum, en svín og kýr! En lambið núna var gott, það bragðaðist ekki eins og gömul ær eins og síðast fyrir jól. Það var eldað að nepölskum sið. Einn af Nepulunum kann að elda. Þetta var mjög gott. Lambið var í einhverskonar kjötsósu. Biku, sá sem eldaði kynnti matinn, hann sagði að sósan væri ekkert mjög sterk. Síðan benti hann á auka sósu og sagði að hún væri mjög sterk. Ég fékk mér bæði aðal sósuna sem kjötið var í og sterku sósuna, síðan voru náttúrulega hrísgrjón. Ég hélt að meginlands fólk frá Danmörku væri vanara skrítnum útlendum mat en Íslendingur. Samkvæmt því sem gerðist í kvöld þá held ég það hafi verið mesti misskilningur. Danirnir 5 sem voru hér lögðu ekki í sterku auka sósuna. En ég held að þeim hafði fundist þau vera við það að spúa eldi eða eitthvað. Allaveganna hurfu rúmir 4 lítrar af vatni ofan í þau á augabragði. Mér fannst þetta undarlegt. Ég fékk mér helling af sterku sósunni og venjulegt magn af vatni nægði mér, svona eitt og hálft glas. Kannski hefur þetta ekkert með landafræði eða menningu að gera, kannski er ég bara ónæm fyrir svona sterkum mat, kannski hef ég borðað of mikinn tyrkneskan pipar um dagana. Ég veit það ekki. En ég hef samt tekið eftir því að Danirnir borða erlendan mat á undarlegan hátt( alla vegana að mínu mati). Þegar það er píta í matinn þá setja þau ekki grænmetið og kjötið í brauðið heldur borða innihaldið með hníf og gaffli á disknum og hafa brauðið til hliðar eða borða það eftir á. Ég hafði aldrei séð það áður með pítu. Síðan setja Danirnir heldur ekki smjör og salt á maískólfana. Hvað um matarvenjur annarra, mér fannst maturinn í kvöld mjög góður. Frábært að fá lamb.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.4.2007 | 09:33
Páskafrí
Ég er búin að vera svo dugleg að borða ekki nammi, snakk og sætindi hér í Danmörku en nú er undantekning. Ég fór í bæinn á mánudaginn, fór í Føtex og hrúaði í innkaupakörfuna hjá mér sætindum. Ég keypti allskona nammi og snakk líka. Ég keypti líka Páskaegg. Ég er spennt að sjá hvernig dönsk páskaegg eru. Þau líta allaveganna vel út. Þeir eru hinnsvegar miklu meira í páskahérum hér en páskaungum. Páskaeggið mitt er með páskahéra úr hvítu súkkulaði(held ég) utaná. Mér finnst maður bara þurfa að borða nammi og sætindi á páskunum.
Ég er líka búin að sjá það að danskar sjónvarpsrásir gera það sama og íslenskar rásir um hátíðir, það er að sýna danskar kvikmyndir. Þeir ætla hinnsvegar að sýna einu leiðinlegustu mynd sem ég man eftir að hafa séð, Gamle mænd i nye bile. Ég bara geri eitthvað annað.
Fyrir utan það að úða í mig nammi og góna á sjónvarp, þá ætla ég líka að lesa í Da Vinci lyklinum. Þetta er ekki nánda nærri því eins erfið lesnig og ég bjóst við. Ég held ég sé búin að lesa 1 þriðja af bókinni nú þegar. Það skemmir samt pínulítið að ég er búin að sjá myndina og veit hvað mun gerast. En þetta er samt spennandi.
Ég er líka að hugsa um að hlusta á Spurningakeppni fjölmiðlanna og heyra hvernig henni mömmu minn gekk með Mogga liðinu. Þetta er svona um það bil það sem ég ætla mér að gera um páskana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2007 | 19:36
...Hvítu vinir það er komið vor
Nú er kominn apríl. Það er 2. apríl í dag, það þýðir að ég á afmæli eftir bara 10 daga(ji minn hvað árið var fljótt að líða), það þýðir líka að ég fæ að faðma mömmsuna mína eftir 9 daga. Það þýðir einnig að það er komið vor. Vorið er komið, það eru komnar hérna fínustu hvítar anímónur hér í nágrenni skólans.
Það er hinnsvegar matsatriði hvort það er vor eða sumar. Mér finnst vera hásumar. Það hefur ekki rignt hér í óratíma og núna síðustu vikuna er búið að vera 15 stiga hiti og glampandi sól, sko alveg hægt að vera berfættur úti á bolnum á ströndinni. Það er einmitt það sem ég gerði á laugardaginn. Ég hékk úti á bekk við ströndina, hlustaði á mávana og kvak í einstaka önd sem synti framhjá, hlustaði á sjóinn, sleikti sólina og las DaVinci lykilinn. Ég hef orðið fyrir smá vonbrigðum, ég hélt að það yrði erfitt að lesa viðamikla bók eins og Da Vinci lykilinn á dönsku, en það er bara ekkert erfitt. Frönsku setningarnar inn á milli eru heldur ekki svo erfiðar að skilja. Ég er hinnsvegar mun lengur að lesa eina síðu á dönsku en á íslensku eða ensku.
Ég gerði líka eitt annað á laugardaginn. Gitte var vaktkennari og hún stakk upp á því að við life expander stelpurnar mundum breyta til í stofunni með hliðsjón af Feng Shui. Jú við gerðum það. Við umturnuðum ÖLLU. Stofan er núna öll breytt og allir eru sáttir. Við höfðum hinnsvegar ekki fengið leyfi frá Torben fyrir þessum breytingum. Hann er búinn að vera á Ítalíu síðan í síðustu viku. Gitte var samt búin að spyrja okkur hvort við værum til í að breyta í stofunni fyrir 2 vikum. Hún bara ákvað að vera ekkert að segja Torben frá þessum ráðagerðum. Torben kom heim í gærkvöldi. Það gerðist svo í morgun að við sátum að borða morgunmat þegar Torben gengur inn. Hann leit út fyrir að vera hissa eða ringlaður þegar hann kom inn í borðstofuna úr stofunni. Hann kom að borðinu þar sem ég sat með Guðrúnu, Camillu og nokkrum Dönum. Hann spurði svo:"Hvað hefur komið fyrir öll húsgögnin í stofunni?" Við fórum að hlægja. Danirnir bentu á okkur(Mig, Guðrúnu og Camillu) og sögðu"Spurðu þær" Við játuðum á okkur glæpinn. Torben fannst þetta bara fínt, hann á samt eftir að sjá listan sem við gerðum yfir hluti sem okkur finnst vanta og þurfi að kaupa. Sjáum til.
Annars er ekkert merkilegt búið að gerast hér. Guðrún er búin að uppgötva það að ég neita ekki tilboðum um ís. Henni finnst ís svo góður. Og hún hefur núna tvisvar dregið mig með sér í ísbúð. Ég sat með Guðrúnu í media herberginu. Hún var búin að sannfæra mig um að koma með henni, Berglindi og Camillu í ísbúðina. Berglind og Camilla voru með bílinn hans Torben í láni vegna verkefnis sem þær voru að vinna, þær ætluðu síðan að koma að sækja okkur og fara í ísbúðina, en síðan hringdu þær og sögðu að það mundi ekki vera nægur tími til að koma að sækja okkur því þær þyrftu að skila bílnum. Þarna sátum við spældar yfir því að fá ekki ís. Við nenntum ekki að ganga yfir brúna því höfðum gert það fyrr um daginn. Allt sem við höfðum sagt þarna var á íslensku, Joan media kennarinn sat á öðru borði rétt hjá okkur. Ég hafði sagt eitthvað um það að mig langaði í ís, því það væri svo gott veður, en ég nennti að ganga yfir brúna. Við höfðum þá rætt hvort við ættum að nenna í ísbúðarferð. Joan kom þá að borðinu og sagði við mig á dönsku" ef þú villt ís, þá verðurðu að ganga yfir brúna" Ég gapti, hvernig vissi hún hvað við vorum að tala um. Venjulega skilja danir ekki orð í íslensku. Það er semsagt komið í ljós að Joan skilur helling í íslensku því hún bjó á Íslandi í eitt ár. Lítill heimur sem við búum í.
Það truflar mig að hafa ekki myndavél til að taka myndir. Það er búið að vera svo extra fallegt hér í öllu sólskininu. En ég er með síðustu myndirnar sem ég tók, og ég er búin að setja þær inn í albúm hér. Og síðan fallegu brúar myndirnar mínar sem John vildi kaupa af mér þegar hann prentaði þær út fyrir mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.3.2007 | 22:46
Villikötturinn
okey það er langt síðan ég bloggaði síðast en það er margt sem hefur gerst síðustu dagana. Ég byrja á fmmtudeginum í síðustu viku. Við vorum öll rekin út úr skólanum á fimmtudaginn því einhver frægur danskur söngvari sem ég veit ekki hver er, ætlaði að koma hingað og halda tónleika. Það var uppselt á tónleikana og fólkið sem kom ætlaði líka að borða kvöldmat hér. Það hafði borgað heilan helling fyrir að koma á tónleikana og fyrir matinn. Það þurfti að gera allt tilbúið fyrir kvöldið þannig okkur var bara hennt upp í rútu til Århus. Við lögðum af stað klukkan níu og þegar við vorum svo loksinns kominn í bæjinn fórum við á safn. Þetta var gott safn, bæði með gömlum málverkum frá 1700 og eitthvað til nútíma listar. Ég verð að segja að mér þótti verkin frá 18. og 19. öld langflottust. Við vorum ekki pínd til að fara á safnið en Mikael mælti eindregið með því og mælti með því að verja um klukkutíma þarna inni. Þegar ég var búin á safninu var klukkan um hálf eitt. Það var bara frjáls tími eftir það. Stelpurnar ætluðu allar að fara að versla, þannig að ég nennti ekki að hanga með þeim. Ég elti Mikael inn í plötubúð. En ég fór úr búðinni án þess að kaupa nokkuð, skildi síðan við Mikael og strákana eftir það og var bara ein. Ég skoðaði í Byttecentralen í Århus. Það vantar þannig búð í Reykjavík. ódýrar, bækur, geisladiskar og kvikmyndir. Síðan ákvað ég að fara aftur í plötubúðina sem ég fór fyrst í. Ég fann nokkuð óvænt þar, ég fann fyrstu seríuna af McLeod Systrunum á dvd. Ekki nóg með það. öll serían kostaði 200 krónur. Ég skellti mér á það. Gat bara ekki látið þetta vera. Ég hafði samt ákveðið daginn áður að kaupa ekkert fyrirferðamikið það sem eftir væri af Danmerkurdvöl minni. En hvað um það. 11 dvd diska sett með uppáhalds sjónvarpsþættinum mínum sem kostar minna einn geisladiskur Íslandi."Nó breiner" fyrir mig. Síðan þegar ég var búin að þessu fór ég að láta mér leiðast. Ég hafði ekkert að gera. Labbaði fram hjá Magasin Du Nord. Ég hafði ekkert að gera þangað inn og ætlaði ekkert að fara þangað inn en fann mig tilknúna því ég er Íslendur og Magasin er jú í eigu Íslendinga. Þannig að ég kíkti þangað inn. Eftir það var ég bara að hangsa. Settist á bekk fyrir utan dómkirkjuna í sól og borðaði nestið mitt, það var samt dálítill vindur. Ég hafði tekið DaVinci lykilinn með mér, ef ske kynni að mér mundi leiðast en það var bara of mikill vindur fyrir lestur utandyra. Ég sendi pabba líka sms til að óska honum til hamingju með afmælið. Mér leiddist enn meira. Mér datt síðan í hug að fara í bíó því ég þurfti bara að vera komin aftur í rútuna klukkan fimm og klukkan var bara um þrjú, en ég veit ekkert hvar bíóið er í Århus þannig að ég bara hangsaði enn meira. Sat á bekknum fyrir utan kirkjuna og fylgdist með fólki. Nú klukkan fimm fór ég aftur í rútuna. Allir höfðu keypt eitthvað. Ég komst síðan að því að Claus og Kudret(sænskur tyrki) höfðu fengið sömu hugmynd og ég um að fara í bíóm, þeir vissi hinnsvegar hvar bíóið var. Það var síðan komið að kvöldmat klukkan um korter yfir fimm. Við fórum í verslunar hús þar sem fullt af tyrkjum og indverjum eru með markaði og verslanir og veitingastaði. Við ætluðum að borða Kebab, skólinn borgaði náttúrulega. Rútubílstjórinn borðaði líka með okkur. Hann læsti rútunni. Dönunum fannst kebabið of sterkt. og þurftu allir að fá vatn að drekka eftir á. Á meðan ég fann ekki fyrir því að þetta væri neitt sérstakleg sterkt. Greinilegt að þessir Danir hafi ekki bragðað kjúkling ala Úlfhildur. Við vorum þarna inn að borða í rúman hálftíma, þegar við komum aftur að rútunni komumst við því að það hafði verið brotist inn í rútuna. Við fengum ekki að fara strax inn í rútuna bílstjórinn sagði að öllu hefði verið stolið. Ég hafði skilið töskuna mína eftir inn í rútunni og fór að vona að þjófarnir hefðu ekki tekið töskuna og allt sem í henni var, ég hefði orðið svekkt ef að McLeod settinu hefði verið stolið. Síðan fengum við að fara inn. Taskan mín var enn í rútunni en hún hafði verið tæmd. Ég hafði skilið hana eftir undir sætinu mínu. Taskan var tóm í sætinu. Það eina sem þjófarnir höfðu áhuga á að taka var myndavélin mín. Restin af dótinu mínu var á gólfinu. Ég var samt heppin miðað við marga aðra. Wiktor frá Póllandi missti vegabréfið sitt. Margir af Neplunum misstu líka vegabréfin sín. Ég skil ekki hvað þeir voru að gera með vegabréfin á sér, og hversu tómur þarf maður að vera í kollinum til að skilja vegabréfið sitt eftir bara á svona glámbekk. Einn af Nepulunum missti líka um 90.000 íslenskar krónur. Hann treystir víst ekki bankanum fyrir peningum. Hann skiptir vonandi um skoðun eftir þetta atvik. Það getur borgað sig að treysta bankanum til að geyma peningana sína. Það er samt svo skrítið. Ég var bara niðurdregin yfir mínu tapi í svona hálftíma eftir að við komum aftur í rútuna. Síðan var það bara búið. Ég held að það trufli mig meira að einhver ókunnugur hafi í leyfisleysi farið ég gegnum dótið mitt heldur en það að einhverju hafi verið stolið frá mér. Svona er raunveruleikinn.
Á föstudaginn horfðum við á Dead Poet Society myndina sem blinda konan mælti með. Hún er alltaf jafngóð. Ég áttaði mig á því að ég hafði séð hana áður. Mundi meira að segja að sá hana í sjónvarpinu hjá afa og ömmu. Eftir hádegi áttum við síðan að vinna verkefni sem heitir "My life as a movie" Þar eigum við að skrifa um líf okkar. Atriði sem standa upp úr eða bara eitthvað athygglisvert sem hefur gerst. og eigum að skrifa þetta sem kvikmynd. Ég kláraði mitt á föstudaginn. Líf mitt er í mjög stuttum dráttum og er 4 síður í tölvu. Ég byrja náttúrulega á því að ég fæddist en síðan er ekkert næstu 5 eða 6 árin eftir það. Ég og Camilla vorum sammála um það er ekki svo margt sérstakt sem maður getur sagt frá, frá því tímabili í lífi manns. Það gerist nokkurnveginn það sama í lífum flestra "ég fór að skríða" "ég gekk í fyrsta skipti" "ég talaði" "ég pissaði í klósett"
Um helgina slappaði ég bara af og horfði á McLeod Systurnar, það tók allan laugardaginn og sunnudaginn líka. Þórdís kom til baka á sunnudagskvöldið.
Í gær fórum við 5 í bíl með Gitte upp í sveit. Skammlingsbakken eða eitthvað þannig. Æðislegur staður. Væri sko alveg til að búa þar. Við áttum þar að ganga, hugsa og leysa verkefni sem fyrir okkur voru lögð. Þetta var mjög góður dagur. Ég var bara dálítið svekkt yfir því að geta ekki tekið myndir, en ég fer þangað bara einhvertíma aftur. Eftirhádegi eða um klukkan þrjú það er að segja uppgötvaði ég tómt herbergi á hinum aðalganginum. Það er herbergi við hliðina á herberginu sem ég bjó fyrst í. Ég var og sein þá að tala við konuna á skrifstofunni til að biðja um að fá að flytja. Ég var missti líka af ritaranum í dag. Þannig að ég ætlað að spyrja hana í fyrramálið.
Við fengum frí fyrir hádegi í dag en ákváðum að dansa með Cheri frá 10 til 12. Eftirhádi áttum við svo að fara til Kolding. Við lögðum af stað klukkan hálf 2. Gitte hitti okkur í Kolding og sýndi okkur bæinn og síðan fórum við á kaffi hús. Klukkan 5 áttum við svo að fara til Stílista. Ég verð að segja að ég kveið fyrir. Stílistinn er líka hárgreiðslu kona og er með hárgreiðslustofu og við vorum á hárgreiðslustofunni frá fimm til átta. Hún benti okkur á hitt og þetta sem við gætum gert við hárið á okkur, hún talaði líka um farða og föt. Ég hafði áhyggjur af því sem hún mundi segja um augabrúnirnar á mér. Hún byrjaði að taka teygjuna úr hárinu á mér og sagði að ég væri með mjög fallegt hár og fullkominn lit á því líka. En hún spurði mig hinsvegar líka hver tilgangurinn væri að vera með sítt hár ef maður er síðan með hárið nánast alltaf upp í tagli. Það er spurning sem ég gat ekki svarað. Henni fannt þykku augabrúnirnar mínar flottar og sagði að núna væri að koma í tísku að vera með þykkari augabrúnir. Mikið var ég ánægð að heyra það. Hún vill að ég noti augnskugga meira, hún setti á mig bleikan augnskugga og svartan eyeliner. Hinnsvegar sagði hún að með hárið í tagli, í gallabuxum, kúrekastígvélum og í svörtum stutterma bol, væri ég ekki beint kvenleg. Ég vissi það svosem. Ég er ekki mikið fyrir farða háa hæla, pils og kjóla. Mér finnst bara óþægilegt að vera í pilsum og kjólum. Þegar stílistinn talaði um kvenleika minnn, þá bætti Gitte einu við sem henni þótti merkilegt með mig. Ég hafði ekki hugmynd um að hún hefði tekið eftir þvi. En það er það að ég er alltaf með langar neglur og naglalakk. Ég get verið með allt frá ljósbleiku upp í eldrautt á nöglunum. Stílistinn sagði að útlitslega þætti henni ég vera svona týpa sem er villt, fjörug og skemmtileg. Eða eins og hún orðaði það, Villiköttur. Mér fannst þetta allt mjög athygglisvert þó ég sé ekki viss um að ég sé að fara í ganga í kjólum og sokkabuxum dagsdaglega. Eftir þetta klukkan átta fór Gitte heim til sín en við stelpurnar fórum á veitingastaði til að borða. Ég fékk mér hamborgara og Sprite. Hamborgarnir á Vitabar eru betri! Eftir mat fórum við bara heim. Og nú sit ég bara í herberginu mínu og skrifa þetta og hlusta á Dixie Chicks
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2007 | 20:33
Feng Shui, Kolding, Dan Brown, kollhnís og Úlfhildur
Það er allt á fullu í Snoghøj þessa dagana. Og ég hef ekki bloggað neitt. Á mánudaginn héldum við áfram í Feng Shui, við höfðum fengið það verkefni að koma í fötum í ákveðnum litum sem tilheyra ákveðnu elementi. Elementið sem mér var úthlutað var málmur, það þýddi að ég átti að koma í hvítu og pastel. Það kom hinsvegar í ljóst að ég á bara örfáar hvítar flíkur og ekki neina einustu í pastel. Síðan í tímanum áttum við að búa til klippimynd með þeim litum og þeim efnum sem tilheyra elementinu. Þegar maður skoðar Feng Shui á þennan hátt þá sér maður dálítið hvernig manneskja maður er, eða kanski öllu heldur hvernig persónuleikinn manns er. Það eru 5 element; eldur, jörð, málmur, vatn og tré. Ég ætla að fara aðeins yfir hvaða litir tileyra hvaða elementi.
-Eldur: Rauðir, bleikir og fjólubláir litir.
-Jörð: Brúnir litir, sand og jarðarlitir
-Málmur: Hvítur og ljósir pastellitir
-Vatn: Svartir, bláir litir
-Tré: Grænir litir.
Ég get séð hvaða elementum ég tilheyri. það er eldurinn og vatnið. Þegar ég hugsa um það þá á ég alls 2 brúnar flíkur, 3-4 grænar flíkur(eitt eru grænir sokkar). Á meðan önnur hvor flík sem ég á er blá og restin er, bleikt, rautt og svart. Mér fannst þetta mjög merkilegt. Þetta passar líkar við það að ég er hrútur og hrútur er einmitt eldmerki.
Í gær fórum við síðan í Kolding. Við áttum að hitta Gitte í Kolding, hún hafði ekki sagt okkur hvað við værum að fara að gera. Hún sagði okkur bara að koma. Og það gerðum við. Við erum bara 4. Þórdís fór til Kaupmannahafnar á fimmtudaginn og er ekki komin til baka ennþá, við höldum að hún komi ekki aftur til baka, nema bara til að sækja dótið sitt. En hvað um það. Við byrjuðum á því að taka strætó til Fredericia og síðan tókum við lest til Kolding. Það tekur 20 mínútur að fara með lest til Kolding. Við áttum að vera komnar á lestarstöðina klukkan hálf 12(Gitte ætlaði að sækja okkur þangað, en við vorum á undan áætlun. Berglind var í símasabandi við Gitte, þegar við vorum sestar upp í lest, og vorum að bíða eftir því að hún færi af stað, þá hringdi Berglind í Gitte til að segja henni að við værum á leiðinni, en hún byrjaði á því að tala á íslensku. Gitte skildi náttúrulega ekki orð af því sem hún sagði en áttaði sig á að þetta værum við stelpurnar. En hvað um það, það var seinkun á lestinni, við þurftum að fara úr lestinni og bíða eftir annari lest. Það var 20 mínútna töf. Þetta er mjög algengt hjá DSB. Tafir þeir eru víst þekktir fyrir tafir. En fólk lætur sig hafa það því það er ódýrt. Við komum svo loksinns til Kolding, fórum þá á kaffihús til að borða hádegismat. Gitte hafði mælt með þessu kaffihúsi og hún ætlaði að hitta okkur þar. Ég pantaði mér samloku með laxi og tzatziki. Þegar Gitte var komin sagði hún okkur hvað við værum að fara að gera. Við áttum að hitta blinda konu, sem Gitte þekkir. Konan er sálfræðingur, hún var ekki fædd blind heldur missti sjónina þegar hún var 23 vegna augnsjúkdóms. Líklega eitthvað svona svipað einsog Bjössi sem var með mér í Hvassó. Mamma hans Garðars sagði allaveganna við mig í fyrra eða hittí fyrra að læknar hefðu sagt að Bjössi mundi verða alveg blindur eftir nokkur ár. Hann er kominn með blindrastaf, þannig að sjónin er orðin minni og minni. En hvað um það konan sagði okkur frá æfi sinni. Og talaði líka um það hvað er mikilvægt í lífinu. Hún sagði okkur það að hún getur séð agnarögn. Hún tók sem dæmi að sjónopið er svona eins og gatið í dönskum túkalli, og að hún sjái bara svart og hvítt, það er að segja ef að hvítur lampi er á svörtu borði þá getur hún séð að það stendur hlutur á borðinu, en getur ekki greint hvaða hlutur það er. En afþví að hún missti sjónina svona hægt þá sést ekkert á augunum í henni að hún er blind. Ég gleymdi því oft á meðan við sátum þarna að tala við hana að hún sæi okkur ekki, því það var eins og hún væri að horfa á okkur. Þetta var mjög athygglisvert. Við töluðum um hvað sé mikilvægt í lífinu og hvað gerir mann hamingjusamann. Hún er sálfræðingur og vinnur við það, á tvö börn og er að fara að giftast sambýlismanni sínum núna í maí... Gitte sagði okkur eftir á að hún þénar um hundrað þúsund danskar krónur á mánuði.
Þegar við fórum frá konunni þá var klukkan um þrjú. Stelpurnar vildu fara að versla. Þar sem ég veit fátt leiðinlegra en að fara í búðir, þá fór ég bara heim. Ég sá samt Berglindi fá sér gat í naflan. Ég fór með lestinni til baka, það var ekkert mál. Ég hafði samt rétt misst af strætó í Fredericiu, þannig að ég fór bara að dunda mér í bænum. Fór í bókabúðirnar, því ég haft eitthvað svo mikla þörf fyrir að lesa. Ég er búin að lesa allar bækurnar sem ég kom með að heiman, nema þessa sem ég byrjaði á en fannst svo óspennandi. Ég komst að því í bókabúðunum, að Danir lesa ekki neitt um Kvenspæjarastofu númer eitt, eða neitt annað eftir Alexander McCall Smith. Þeir vita ekki hverju þeir eru að missa af. Ég fór að kíkja í hyllurnar. Mig langaði til að kaupa bók. Ég er reyndar búin að fynna síðu á netinu þar sem hægt er að niðurhala ókeypis hinum og þessum bókum, það er bara ekki það sama að sitja fyrir framan tölvuna, lesandi klassískar enskar bókmenntir eins og Jane Eyre og Fýkur yfir hæðir, og að sitja með bókina í höndunum. Ég leitaði í hyllunum að einhverju sem mig langaði til að lesa, bæði í ensku kilju hyllunni og í dönsku hyllunum. Velti fyrir mér Harry Potter, en fannst það ekki alveg nógu spennandi. Síðan sá ég Da Vinci lykilinn á ensku í kilju útgáfu, kostaði bara hundrað krónur. Ég velti því fyrir mér, en ég vildi eitthvað sem var meira krefjandi, ekki það að það sé ekki mjög krefjandi að lesa bók eins og Da Vinci lykilinn á ensku, ég vildi bara eitthvað sem var enn meira krefjandi. Þannig að ég snéri mér að dönsku hyllunni. Þá kom maðurinn sem vinnur í búðinni og spurði mig hvort hann gæti aðstoðað mig. Hann hafði séð mig standa fyrir framan þessar tvær hyllur í um tíu mínútur, veltandi hinum og þessum bókum fyrir mér. Ég spurði hann um Da Vinci Mysteriet, jú hann átti það til. Hann sýndi mér bókina í hyllunni þetta var bók með hörðu baki(ég man ekki hvað andstæðan við kilju er), ég spurði hann svo hvort hún væri ekki til í kilju, hann neitaði þvi hún er ekki enn komin út í kilju útgáfu í Danmörku. Ég ákvað bara að skella mér á hana, 150 danskar krónur. Ég byrjaði strax að lesa í gærkvöldi og hún er strax orðin spennandi. Ég veit samt að að bækur eru það síðasta sem ég ætti að vera að kaupa hér. Bækur eru bæði fyrirferðamiklar og síðan vega þær líka mikið. Það er taumlaus skelfing að hugsa um hvernig ég ætla að koma öllu dótinu mínu heim til Íslands. Alveg hreint hræðileg tilhugsun í mínum huga.
Jæja nema hvað, ég var í bænum. Eftir að ég var komin úr bókabúðinni settist ég á bekkin á stoppistöðinni og fór að skipuleggja heimsóknina sem ég fæ í apríl. Hvað ég ætla að sýna mömmu og svona. Ég ætla samt ekki að gefa neitt upp ennþá, það á kannski að koma á óvart. Síðan var kominn tími fyrir strætó til að koma, klukkan var þá tíu mínútur yfir 5, þá labbaði strákur framhjá mér og sagði að ef ég væri að bíða eftir strætó þá væri það vonlaus bið því strætóbílstjórar væru í verkfalli. Djö var ég pirruð þá, ég hafði verið í bænum að bíða í klukkutíma eftir engu. Ég labbaði þá bara heim, ég var líka extra pirruð því ég vissi að ég mundi ekki ná heim fyrir kvöldmat klukkan sex. Að ganga 8 kílómetra á 50 mínútum get ég ekki. Ég er ekki strútur. Ég var komin til Erritsø klukkan sex og þá fór ég bara inn á Burger King og fékk mér hamborgara, franskar og kók. Fyrsta sinn sem ég geri það hér. Þetta var bara ein undantekning. Eftir að hafa snætt þá gekk ég aftur af stað í sólsetrinu og var komin rétt fyrir sjö í skólan. Klukkan hálf átta var svo spænsku tími með Jesper.
Í dag var ljósmyndatími með Jesper. Við vorum bara að klára þema verkefni sem við áttum að klára þegar Jesper varð veikur fyrir 3 vikum. Þannig að það voru bara rólegheit. Eftirhádegi var svo danstími með Cheri. Við gerðum æfingar og dönsuðum það er eitt, sem við vorum að æfa, það er einskonar afturábak kollhnís. Fyrst þegar Cheri var að reyna að kenna okkur þetta í febrúar hélt að þetta væri erfitt. En síðan í síðustu viki tóks mér þetta og ég komst að því að þetta er auðvelt. Og ég get núna gert þetta ekkert mál. Camilla þorir ekki, Berglind og Guðrún, lenda báðar annað hvort á hliðinni eða lenda með magaskell og fæturna í sundur.
Það er mál hér sem pirrar mig mjög, það er málið á ganginum mínum. Enginn gerir hreint. Berglind er núna flutt á annan gang, hún gerði það á sunnudaginn. Og í dag flutti Claus á gamla ganginn minn. Það er reyndar nokkuð sem truflar mig mjög. Í janúar sagði Torben við mig að að nemendur ættu ekki að búa þarna uppi, ég hefði bara átt að suða og suða nógu vel. Það er það sem Claus hefur gert og því fær hann að búa þarna uppi núna. Með Berglindi og Claus í burtu þá eru bara tvær manneskjur eftir sem þrífa, það eru ég og Jónas. Chen þrífur reyndar en maður þarf alltaf að minna hann á það. Síðan í dag þegar ég ég frétti að Claus væri fluttur þá fór ég að hugsa um að flytja. Hann flutti reyndar vegna háfaða og Berglind líka. Við erum með lista niðri yfir það hvar hver býr og listi yfir öll herbergin í skólanum. Það er einn gangur með fullt af auðum herbergjum, en þar eru bara nepalir og sama vandamál sem ég vil losna við á mínum gangi. Þannig að það er ekki möguleiki fyrir mig. Síðan fór ég að hugsa. Gangurinn er sem Camilla, Guðrún og Þórdís búa í er hljóðlátur og engin vandamál. Það eru reyndar engin laus herbergi eins og stendur, en ef Þórdís er að hætta þá gæti ég fengið hennar herbergi, og lifað í svipuðum heimi og ég gerði fyrir jól á þriðju hæð. Ég sé til
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.3.2007 | 20:17
Practically perfect!
Ég hef verið eitthvað svo löt undanfarið að ég hef ekki skrifað neitt, bara nenni því ekki. Mér finnst ég líka hafa ekkert til að skrifa um. Ég ætla að segja í mjög stuttu máli hvað er búið að gerast síðustu dagana.
Við vorum að læra um Feng Shui á mánudaginn og þriðjudaginn. Mér fannst það bara athygglisvert. Jesper er enn veikur þannig að það var ekki ljósmyndatími í gær. Þannig að eini tími gærdagsinns var dans með Cheri. Mér finnst ég vera nánast fullkomin. Nýju stelpurnar eru ekki jafn liðugar og ég. Ég teygt og togað. Ég er samt enganveginn jafn liðug og Cheri. Ég hef efasemdir um að hún hafi liðamót! En ég fæ kikk út úr nýju stelpunum. Eftir dans tímann í síðustu viku voru þær kvartandi yfir harðsperrum og í gær var það svipað. Í æfingunum kvörtuðu þær undan sársauka. Og í dag kvörtuðu þær undan eymslum og harðsperrum. Mér finnst ég vera eins og ég segi nánast fullkomin. Ég er orðin svo vön því að finna til í lærvöðvunum og bara hinum og þessum vöðvum. En ég finn altaf minna og minna til. Ég er nokkurnveginn hætt að fá harðsperrur. Mér finnst bara fyndið að heyra þær kvarta þegar ég finn ekkert fyrir neinu.
Á morgun kemur skyggn kona að tala við okkur. Fyrir hádegi ætlar hún að tala við okkur um skyggnigáfu svona almennt, segja frá þv hvað það er og svona. Og eftirhádegi getum við spurt hana eitthvað sem við viljum vita. Jesper hafði skipulagt þetta, en hann er enn veikur og mun ekki koma á morgun. Torben kom til okkar stelpnanna í hádeginu í dag til að segja okkur það að Jesper kæmi ekki en að hann mundi vera með okkur í staðinn. Þegar Torben var farinn aftur vorum við síðan að tala um þetta. Þórdís vill ekki heyra neitt um framtíð sína. Camilla vill heldur ekkert heyra um framtíðina. Þær eru hræddar um að þær muni trúa því sem konan segir. Mér fannst þetta nú mjög skiljanlegt. En það var nokkuð sem var sagt við borðið, ég vil ekki segja að mér hafi blöskrað við að heyra það, en ég varð allaveganna mjög hissa. Berglind sagði að hún muni hugsanlega ekki mæta því hún hafi verið alin upp við það að skyggnt fólk kæmi frá djöflinum. Og að skyggnigáfa væri eitthvað mjög slæmt og djöfullegt. Hún sagði að hún væri samt smá forvitin um þetta, en það að hún muni hugsanlega ekki mæta. Mér fannst mjög óþægilegt að heyra þetta, sérstaklega þetta með djöfulinn. Ég trúi því að það sé til skyggnt fólk og fólk sem viti eitthvað um framtíðina. Í mínum huga er skyggnigáfa eitthvað náttúrulegt og þar af leiðandi eðlilegt. En ég er samt á því að fólk eigi að taka upplýsinugm frá miðlum og fólki með skyggnigáfur með fyrirvara. Þó að ég trúi að sé til fólk sem er skyggnt og getur spáð um framtíðina, þá veit ég að þó að manneskja segist vera skyggn eða geti verið í sambandi við látna,þá þýðir það ekki endilega að hún hafi þessa hæfileika. Það eru til svikarar. Ég hef heyrt í útvarpinu og séð í sjónvarpinu miðilsfundi, þar sem allmenningur spyr miðil. Og miðillinn "er" í sambandi við látinn ættingja. Miðillinn spyr um nöfn eins og Jón og Sigurður, Guðrún og Sigríður, nöfn sem fynnast nánast í hverri einustu íslensku fjölskyldu. Ég kaupi það ekki fyrir, eina krónu. En ég er spennt að sjá hvernig þetta verður á morgun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2007 | 21:21
Jag vill kenna att jag lever
Það var frétt á Mbl.is í dag sem fangaði athyggli mína. Fyrirsögnin var "Lögregla kölluð úr vegna þrifa á sameign" Mér fannst þetta athygglisverð fyrirsögn svo ég las fréttina. Þar kom fram að maður á miðjum aldri kallaði á lögreglu því nágránni hans hafði hótað honum. Rifrildið milli nágrannanna, sem búa í fjölbýlishúsi í Reykjavík, var um hver ætti að ryksuga stigaganginn í þessari viku. Mér fannst þetta alveg frábært Ég hafði samt efasemdir um hvort þetta hefði virkilega gerst í fjölbýlishúsi í Reykjavík en ekki í Snoghøj. Við erum nefnalega með svakalegt vandamál núna á þessari önn í sambandi við þrif. Ég er að hugsa um að benda Torben á þetta sem lausn. Að fá lögguna til að skipa fólki að haga sér og þrífa. Það er bara vesen með sumt fólk hér. Sumu fólki finnst of mikils til þess að ætlast af þeim, að vaska upp, eða þrífa. Það eru stelpurnar á söngleikjabrautinni. Camilla er nú þegar búin að átta sig á því. Síðan eru það Nepalirnir sem finnst að það séu bara konurnar og stelpur sem egi að þrífa og sjá um heimilið. Það gerðist um daginn að einn Nepalinn var að skúra niðri í barnum, þegar Damla kom niður til að reykja, hún hafði sest niður og reykt sígarettuna sína. Hún segir að Nepalinn hafi ætlað að reyna að drepa sig með augnaráðinu sem hann gaf henni. Hann síðan spurði hvort hún ætlaði ekki að hjálpa honum. Honum fannst hún ætti frekar að gera þetta frekar hann af því hún er kvenmaður. Það er þeirra viðhorf. Konan á að vera á "bakvið" eldavélina. Þetta ástand gengur ekki. Við ræðum þetta mál á hverjum húsfundi, en það er bara þannig að fólkið sem kemur á húsfundina er ekki fólkið sem er að drasla út um allt, og skilja eftir bolla og glös á víðavangi. Það er fólk sem borðar jógúrt úr glösum, og leggur bara glasið bara frá sér á hinum og þessum stöðum. þar sem jógúrtið storknar í glasinu og byrjar svo mygla. Bara að siga lögreglunni á þetta fólk. Því Rikke er að hugsa um að loka eldhúsinu alveg, ef ástandið batnar ekki. Hún er þá að hugsa um að leyfa nemendum ekki að baka kökur eða nota eldhúsið. Ég skil það nú mjög vel.
Ég fór í labbitúr með stelpunu, Guðrúnu, Camillu og Þórdísi, til Erritsø, á bensínstöðina, eftir kvöldmat í kvöld. Við fengum okkur ís, löbbuðum síðan heim aftur. Guðrún keypti ís í boxi, sem við síaðn borðuðum þegar við komum inn. Við settumst við borð í borðstofunni, borðuðum súkkulaði ís og spjölluðum. Ég kom upp fyrir rúmum hálftíma held ég. Þetta var bara fínt kvöld.
Fyrirsögnin í dag kemur úr lagi úr sænsku myndinni Så som i Himmelen. Ég er að læra það utanað. Búin að hlusta á það allnokrum sinnum síðan í gærkvöldi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2007 | 19:10
Sól, sól skín á mig
Ég er enn að jafna mig á ævintýrinu síðasta þriðjudag. Ég er ekki viss um að ég átti mig fullkomnlega hvar ég var og á hvern ég var að hlusta á.
Ég er að venjast nýju íslensku stelpunum. Ég fór með þær í bæinn á mánudaginn fyrir viku, sýndi þeim aðalgötuna og svona, þær keyptu sér allar eitthvað, skó. Þeim finnst gaman að versla. Eins og mér finnst það leiðinlegt. Ég fór samt í búðirnar með þeim. Íslensku stelpurnar heita Guðrún og Þórdís. Og guð minn góður eiga Danirnir erfitt með nafnið Þórdís. Úlfhildur er auðvelt, alveg easy-peasy, miðað við það. Síðan er dönsk stelpa sem heitir Camilla, en hún hefur búið í Ameríku síðan hún var lítil en talar samt alveg dönsku ennþá, hún á samt erfiðara með að lesa og skrifa á dönsku. Þær eru allar á línunni minni Life Expander. Á föstudaginn fóru íslensku stelpurnar til Odense að versla. Því Jesper var veikur og hann átti að kenna okkur allan þann dag. Ég lét bara lítið fyrir mér fara og lá upp í rúmi mest allan daginn, með sára hálsbólgu.
Á sunnudaginn varð mér á í messunni. Ég var að útbúa morgunmat og var að laga kaffi og te. Ég var búin að hella upp á kaffi, venjulegt BKI kaffi (dönunum finnst alltaf fyndið þegar ég segi frá íslensku BKI auglýsingunum þar sem segir "BKI besta kaffi á Íslandi". Þar sem BKI þykir vera lélegt kaffi í Danmörku). Ég var við það fara setja kaffi á könnur þegar kennarinn kemur og spurði hvort ég hefði sett lífræna kaffið(økologist). Ég svaraði því neitandi, þá þurfti að hella öllu kaffinu og byrja upp á nýtt. Við vorum nefnilega með gesti sem neyta bara lífrænna hluta. Ég finn engan mun á lífrænu kaffi og venjulegu kaffi, eða á lífrænni mjólk og venjulegri mjólk.
Í dag þá kom kona til að kenna okkur Feng Shui. Það er flókið og ég er ekki sannfærð um mikilvægi þess að raða öllu í herbergjum upp samkvæmt Feng shui. En þetta er mjög athygglisvert. Við munum halda áfram í Feng Shui á morgun og næsta mánudag.
Það var svo yndislega gott veður í dag. Það er sko að koma vor núna, vonandi endist það lengur en síðast þegar ég sagði að það væri komið vor. Það var glampandi sól og 15 stiga hiti í allan dag. Bara ekta íslenskt sumarveður. Ég fór að þessu tilefni í bæinn, ég hefði nú farið hvort sem er, ég fór í Føtex og á bókasafnið og síðan endaði ég á útsölu í skóbúð og keypti mér stígvél. Það á allt að seljast úr verslunninni, ég held að það sé verið að fara að loka henni. Allir skór voru á 50-100 krónur. Stígvélin sem ég keypti kostuðu 75 krónur, en venjulega kosta þau 450 krónur. Svo ég helf ég hafi gert góð kaup þar. Síðan fór ég bara á stoppistöðina. Þar hitti ég Sid sem er hér í skólanum. Hann er ekki nemandi núna. Hann vinnur við það mála glugga. Hann var nemandi hér fyrir ári síðan. Sid er Ungverji sem heitir Szilard en Danirnir kalla hann Sid. Við spjölluðum um hitt og þetta, skólann og góðan mat. Eftir strætóferðina heim var bara kominn kvöldmatur. Það var týpískur mánudagsmatur, fiskur í raspi með soðnum kartöflum og remúlaði. Ég vil nú samt frekar bara smjör með fisknum og stappa saman við kartöflurnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.3.2007 | 00:34
Dolly, Dolly, Dolly
Jæja loksinns kemur bloggið um Dolly ævintýrið mitt. Ég vildi halda mig við planið mitt um hvenær ég ætlaði að leggja af stað til Horsens. Ég var í líkamsrækt til klukkan þrjú hér á þriðjudaginn, þaut síðan í sturtu og síðan útá strætóstoppistöð klukkan hálf fjögur. Algjört meistaraverk ;)
Síðan var ég komin á Frederica Banegård klukkan korter yfir 4, og var ný búin að missa af lest sem fór til Horsens. Ég beið þá bara þangað til að næsta lest færi þegar klukkuna vantaði 14 mínútur í fimm. Lestarferðin var bara stutt, tók 40 mínútur. Það tók tuttugu mínútur að fara til Vejle og síðan aðrar 20 til Horsens, á meðan ég var í lestinni hringdi svo mamma til að kanna stöðuna hjá mér(Ég hafði sent henni sms yfir daginn, svo hún gæti fylgst með undirbúningum fyrir tónleikana.). Ég kvaðst vera þreytt og geispandi, hún bað mig nú bara um gjöra svo vel að sofna ekki í lestinni. Það voru litlar líkur á því að það mundi gerast. Fyrr en varði var ég svo komin til Horsens Banegård. klukkan var þá rúmlega fimm(tæpir 3 tímar í tónleikana).
Á lestarstöðinni vissi ég ekki hvað ég ætti að gera við mig. Blótaði yfir klósettinu sem þurfti að setja túkall í til að komast inná. Var ekki með túkall. Endaði svo með því að fara í sjoppuna á stöðinni, keypti eitt Bounty stykki svo ég fengi túkall í afgang. Einhverntímann á meðan dvöl minni stóð í lestarstöðinni sá ég hóp kvenna, kannski svona 4-5 miðaldra konur, sennilega saumaklúbbur. Þær voru allar í voða góður skapi, síðan heyrði ég þær spila 9 to 5 úr farsíma einnar konunnar. Þá var ég ekki í vafa um hvert þær væru að fara. Eftir það fór ég að blaða í bæklingum á lestarstöðinni til að finna út hvaða lest ég ætti að taka heim eftir tónleikana. Maður verður að vita það því miða sjálfsalinn getur ekki sagt manni það á kvöldin. Fann út þetta með lestina.
Ég ákvað að það væri kominn tími til að finna út úr hvernig ég ætti að komast í salinn þar sem tónleikarnir voru í. Ég var búin að athuga það á netinu, ég gat tekið annaðhvort leið 3 eða 9. En ég ákvað að athuga það samt á staðnum til að vera viss, þannig að ég fór í sjoppuna/miðasöluna og spurði hvaða vagn ég ætti að taka til að komast til Forum Horsens. Þar fékk ég svarið að ég gæti bæði tekið leið 3 og 9. Ég fór þá út á plan til að finna út úr brottfarartímum vagnanna. næsti vagn fór klukkan korter í 6. Mér fannst það of snemmt. Svo ég fór bara aftur inn á lestarstöðina og beið eftir næsta vagni sem fór klukkan tíu mínútur yfir 6. Ég ákvað að taka hann því næsti vagn eftir það fór 10 mínútur yfir sjö og mér fannst það of naumur tími. Þegar ég kom í vagninn og var við það að borga, spurði ég bílstjórann hvort hann væri ekki örugglega að fara þangað sem ég var að fara. En hann skildi mig ekki. Mér leist ekkert á strætóferðina. En ég horfði bara útum gluggann og fylgdist með. Síðan sá ég allt í einu risa stórt hún með kúptu þaki og mímarga bíla fyrir utan, sem voru lagðir þvers og kruss og upp á köntum á sá fólk í fínum fötum ganga á gangstéttinni í átt að húsinu. Ég ákvað að þetta væri staðurinn og fór úr vagninum á næstu stoppistöð, þurfti reyndar að ganga í tíu mínútur í rigningunni, ég hafði farið úr strætó einni stoppistöð of seint.
Þegar ég var komin inn í íþróttahöllina var klukkan um hálf sjö. Það fyrsta sem ég sá þar inni voru danskar glamúrpíur með eldrauðan varalit, rauðan kinnalit, og eldrautt naglalakk. Næsta sem ég sá var svo fólk sem ef ég vissi ekki betur þá gæti þetta fólk verið nýkomið af kántríhátíð á Skagaströnd í Kántríbæ. Þvílík múndering. Mislitar skyrtur með kögri, buxur með kögri, kúrekastígvél (sum með járni á hælnum) og svo kúrekahattar(sumir einnig með kögri). Ég hef bara séð fólk klætt svona í sjónvarpinu og á myndum. Ég fékk mér sæti upp við vegg í anddyrinu og horfði á fólk sem gekk framhjá mér. Ég borðaði síðan samlokurnar tvær sem ég hafði smurt með mér um morguninn. Ég vildi borða þær þá. því ég hafði pakkað þeim inn í álpappír og ég var búin að sjá málmleitartæki sem verðirnir voru með þegar þeir hleyptu fólki inn á svæðið. Ég vildi ekki að taka þá áhættu að kvöldmaturinn minn yrði gerður upptækur. Mamma hringdi svo aftur til að kanna stöðuna hjá mér. Hún sagðist svo mundi hringja aftur rétt áður en tónleikarnir byrjuðu. Það var farið að byrja að hleypa inn í salinn klukkan sjö. Og klukkan korter yfir sjö fór ég inn á svæðið. Ég hafði ekki farið inn á það fyrr því þar mátti reykja og ég nennti ekki hanga þar. Öryggisvörðurinn tók ekkert upp málmleitartækið. Hann bara bað mig um að opna töskuna mína svo hann gæti séð hvað ég væri með. ég var bara með úlpuna mína, gemsann og ipodinn.
Þegar inn var komið sá ég þrjár stelpur seljandi bæklinga fyrir þessa tónleikaferð. Næst sá ég svo sölubás þar sem hægt var að kauða allskonar Dolly varning. Þar á meðal voru bleikir kúrekahattar, allskonar stuttermabolir, myndir, bæklingurinn og fleira. Ég stóð þarna í dágóða stund og grandskoðaði allt. Ég ákvað síðan að splæsa í bol. kostaði mig 250 danskar krónur. Þegar þetta var búið var klukkan um hálf átta og ég fór bara inn í sal til að finna sætið mitt. Sætið mitt var bara á fínasta stað. Sá beint á sviðið. Dolly er ekki með neina hljómsveit til að hita upp. En það var bara geisladiskur spilaður. Ég fylgdist með fólkinu koma inn. Mér finnst alltaf gaman að fylgjast með fólki á þennan hátt. Þetta var náttúrulega eins og í fuglabjargi þarna inni enda 4500 manns samankomin þarna.
Rétt fyrir átta hringdi svo mamma aftur til að athuga hvort það væri ekki stuð. Jú það var stuð. Tónleikarnir áttu að byrja klukkan átta. En dívan lét bíða eftir sér í tíu mínútur. Á þessum tíu mínútum rígmagnaðist stemningin í salnum og í hvert skipti sem lag kláraðist á disknum sem var spilaður, fór fólk að klappa en ekkert gerðist. Það var tjald fyrir sviðinu, rautt tjald. Það voru ljóskastarar sem vörpuði ljósi á tjaldið, Þannig að það stóð skírt og greinilega Dolly, og síðan voru mismunandi litir. Klukkan tíu mínútur yfir átta, byrjaði svo allt saman. Ljóskastarar í mismunandi litum mynduðu allskonar munstur á tjaldinu og í salnum.
Síðan var tjaldið dregið frá og þar stóð Dolly ásamt hljómsveitinni sinni. Sviðið var fallegt, með mismundandi lituð tjöld í bakgrunninum og síðan voru einhverskonar tröppur sem Dolly kom niður. Hún var ósköp sæt í gulri dragt. Ég las í gær umsögn um tónleikana á danskri vefsíðu, þar sem blaðamaðurinn sagði að honum hafi fundist hún vera eins og páska ungi í svona gulum fötum. Hún byrjaði á að syngja eitt lag, "Baby, I'm Burnin'". Síðan afsakaði hún töfina og sagði að það hafi orðið smá slys og að það hefði komið sjúkrabíll bakvið húsið. Síðan héldu tónleikarnir áfram. Eftir svona tvö til viðbótar var fólk farið að fara fram á gang til að reykja. Ég verð að segja að mér fannst það nú frekar ókurteist. Hún settist við píanóið og spilaði ein og söng lagði The Grass is Blue. Síðan söng hún acapella lagið Little Sparrow. Það var algjört æði, hún var æði. Ég bara datt inn í einhvern annan heim. Það var samt eitthvað fólk blaðrandi á meðan. Mér fannst þetta heldur ekki rétti tíminn til að tala saman. Ég hafði það einhvernveginn á tilfinningunni að Danirnir væru ekki að skemmta sér sem skildi. En ég held að það hafi bara verið vegna þess að þeir þekktu ekki lögin. Einu lögin hennar Dolly sem hafa náð vinsældum í Evrópu eru lögin sem halla meira til popps frekar en kántrís. Það eru lög eins og Jolene og 9 to 5 sem Danirnir þekkja. En hvað um það ég ákvað að láta blaðrandi fólk ekki stela athygglinni minni. Það voru reyndar menn á bekknum fyrir framan mig að reykja og það mátti ekki, þeir voru líka drekkandi. Þeir voru ítrekað varaðir við af vörðum frá salnum sem gengu um gólf. Hún var svona á sviðinu í klukkutíma, talaði á milli laga, en söng samt held ég eitthvað um 14 lög, síðan var komið hlé.
Hléið stóð í svona korter tuttugu mínútur. Ég ákvað að fara fram á ganginn. Og eftir að hafa pælt í því þá ákvað ég að splæsa líka í bæklinginn. Hann kostaði 150 krónur. mér fannst það reyndar ekki svo mikið miðað við það að eitt lítið glas af gosi kostaði 40 krónur. Bæklingurinn sem er reyndar meira eins og bók, er fullur af myndum í lit og er flottur, sé ekki eftir þeim 400 krónum sem hurfu þetta kvöld við minjagripabásinn. Eftir þetta fór ég aftur inn í salinn og í sætið mitt. Og hóf aftur þá iðju að fylgjast með fólki.
Fljótlega voru ljósin svo slökkt og tjöldin dregin aftur frá og þá var Dolly komin aftur, hún hafði skipt um föt. Hún var þá komin í hvítt dress. Eftir hléið virtust Danirnir vera svo miklu hressari. Enda tók Dolly ásamt hjómsveit sinni, fleiri lög sem Danirnir þekktu. Ég þekkti öll lögin og kann flest þeirra utan að. Hún tók vinsæl lög eins og Here You Come Again, Apple Jack, Islands in the Stream(hún fékk einn af bakraddasöngvurunum, sem varð karl til að syngja með sér), og Me and Bobby McGee. Öll þessi lög fengu gríðarlegar undirtektir og fólk bæði söng með og klappaði. En það var ekki fyrr en komið var að 9 to 5 að allt gjörsamlega brjálaðist. Þetta stóra hús hreinlega skalf í látunum. Það var eins og jarðskjálfti. Síðasta lagið var svo I Will Always Love You. Mér finnst Dolly alltaf syngja það betur en Whitney Heuoston. Síðan fór hún af sviðinu og kom svo inn aftur til að syngja aukalagið sem var trúarlega lagið He's Alive. Enn og aftur æði. Þá voru tónleikarnir búnir.
Klukkan var um tuttugu mínútur yfir tíu þegar tónleikarnir voru búnir. Ég trítlaði mér svo út til að finna strætó stoppi stöð. Gatan og bílaplanið var allt stíflað, því lögreglan hafði notað tækifærið til að koma og kyrrsetja bíla sem höfðu ekki verið skoðaðir, þegar svona margir bílar voru samankomnir. Ég fann stoppistöðina og fór að bíða eftir strætó í rigningunni. Þetta var síðasti strætóinn sem ég var að bíða eftir. Hann virtist ekki vera á leiðinni. En síðan sá ég tvær ungar konur á stoppistöðinni hinumegin við götuna, þær virtust ekki vera vissar hvort þær voru á réttum stað. Þær komu síðan yfir til mín og spurðu hvort ég væri nokkuð að fara á lestarstöðina. Jú ég játaði það. Þær spurðu mig hvort ég héldi ég væri réttu megin ég sagðist halda það því ég fór úr vagninum hinumegin. Þær voru ekki sannfærðar því það stóð ekkert um það að vagninn færi á lestarstöðina á skiltinu, þannig að þær fóru aftur yfir götuna. Eftir smá stund fór ég síðan yfir líka. Ég beið, var að hugsa um að taka leigubíl en fannst það algjör óþarfi, ég vildi gefa strætisvagninum tækifæri til að koma. Síðan kom loksins vagninn. Og viti menn, vagninn kom jú þeim megin sem ég hafði upphaflega beðið. Ég flýtti mér bara yfir götuna og vippaði mér í strætóinn sem var á leiðinni á lestarstöðina.
Í strætó hafði ég notað tækifærið til að kíkja í lestarbæklinginn til að finna lest til að taka. jú ég fann hana ég sá að hún mundi fara nokkrum mínútum eftir að vagninn kæmi á stöðina. Þegar ég var komin á lestarstöðina var röð í miðavélina. Ég bara fór í röðina og beið óþolinmóð en fékk síðan loksins miða og hljóð svo að lestinni. Ég rétt náði. klukkan var 23 mínútur yfir 11 en lestin fór 24 mínútur yfir. Sem betur fer náði ég. því þetta var síðasta lest kvöldsins frá Horsens sem stoppar í Fredericia.
ég var komin til Fredericia rétt fyrir tólf. Síðasti strætóinn var náttúrulega löngu farinn klukkan 10 mínútur yfir tíu. Ég bara stökk upp í leigubíl sem keyrði mig heim. Það kostaði mig 133 krónur fyrir 7,5 kílómetra ferð. Hann fór samt ekki bestu leið. Ég er orðin svo mikið heima hjá mér hér á þessu svæði að ég veit bestu og fljótlegustu leiðirnar. Og get verið ósammála leigubílstjóra. En þetta vara bara fínt. Ég var orðin þreytt enda var þetta langur og viðburðaríkur dagur og það var sko gott að koma heim.
Þegar ég var svo komin inn þá hringdi mamma til að heyra í mér og fá stöðuna og til að spyrja mig hvernig hefði verið. Eftir þetta samtal fór ég svo bara að sofa.
Það er einmitt það ég ætla mér að gera núna. Ég er búin að sitja og pikka þetta gríðarlega langa blogg inn í um tvo tíma, held ég. Get reyndar ekki sofið. Svaf í dag, í nokkra tíma. Því ég var með svo mikinn hroll, ég er með hálsbólgu og hausverk og síðan ofan á það er ég líka með hryllilegar harðsperrur frá danstíma með Cheri í gær.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.3.2007 | 21:20
Íslenska innrásin- annar hluti - Litla Ísland?
Í janúar síðastliðnum var greint frá því að þrjú íslensk ungmenni hafi ráðist inn í lýðháskóla á suður Jótlandi. Innrásin gengur vel að sögn nemanda í umræddum skóla. Ungmenning þrjú, sem lögðu af stað til Danmerkur með það í huga að ná yfirráðum í skólanum, hafa fengið liðsauka frá Íslandi. Tvö íslensk ungmenni mættu á svæðið á sunnudaginn. Hinir upprunalegu innrásarmenn vissu af komu nýju Íslendinganna. Og af því tilefni, tóku Íslendingarnir þrír sig til og ruddust inn í eldhús skólans klukkan 3 á sunnudaginn til að laga íslenska kjötsúpu. Þeir byrjuðu á því að skera niður rófur, gulrætur og kál í súpuna. Þegar Dani mætti svo á svæðið, voru Íslendingarnir ekki parhrifnir. Daninn vildi ólmur skottast í kringum Íslendingana, en var ekki tilbúinn til að gera neitt. Þangað til Íslendingarnir sögðu honum að ef hann hjálpaði ekki til, þá þyrfti hann að yfirgefa eldhúsið. Daninn ákvað að vera og hjálpa til. Íslendingarnir kenndu honum líka að borða rófu. Daninn hafði aldrei bragðað rófu áður! Þegar súpan var loksins til búin klukkan hálf sjö, þá var sest til borðs. Dönunum fannst þetta mjög undarleg súpa, sérstaklega þegar kom að innihaldi súpunnar. Þeir spurði hvort Íslendingarnir hefðu bara sett það sem til var í ísskápnum. Danirnir voru líka vissir um að Íslensku ungmennin hefðu sett eitur í súpuna. Súpan var samt borðuð og enginn veiktist. Afgangur af súpunni var svo borðaður í hádeginu í dag. Og að sögn eins Íslendingsins verður aftur afgangur af súpunni á morgun.
Liðsaukin fór ekki að láta í sér heyra fyrr en í morgun. Ný braut í skólanum er samanstendur af fjórum Íslendingum og einum Dana. Það er eðlilegt að Íslendingar tali saman á íslensku, en kennarinn setti þá reglu að það yrði ekki töluð nein íslenska í tíma, bara danska eða enska. Það á eftir að láta á það reyna. Heimildarmaður segist efa að Íslendingarnir muni fara eftir reglunni, en bætir þó við að hún sé mjög hlynnt þessari reglu og muni gera sitt besta til að fara eftir henni. Hún mun gera það fyrir danska nemandann sem skilur ekki orð í íslensku.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Úlfhildur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar