8.2.2007 | 19:32
Jæja nýr dagur
Í dag er fimmtudagur og ég sit hér í herberginu mínu og hlusta á kántrí plötu sem ég náði mér í á bókasafninu í síðustu viku. Ég bara skil ekki hvernig bókasafn í littlum bæ í Danmörku getur verið betra er borgarbókasafnið í höfuðborg Íslands. Mér datt líka í hug að sjá hverni Tinni er á dönsku. Hann er skemmitlegur. Ég mæli samt ekki með því að lesa fyndna Tinnabók þegar maður er með harðsperrur í maganum. Ég mæli reyndar heldur ekki með því að keyra í strætó um götur Fredericia þegar maður er með harðsperrur í magavöðvunum.
Það hefur ekki mikið gerst hér upp á síðkastið. Eins og kom fram í síðasta bloggi fór Berglind til Íslands. Hún fór bara ein. Hún og kærastinn(Jakob) eru hætt saman. Engin skilur reyndar hvernig þetta samband endtist í meira en tvo daga. Þar sem Jakob er þekktur fyrir að fara helst ekki frá tölvunni nema til að borða og sofa. Berglind er síðan búin að vera að kvarta yfir því hvernig Jakob er og þetta vandamál hans með tölvuna. Síðan er hún að uppgötva að ein stelpan hér er algjör tík. Stelpan er reyndar farin að hanga utan í Jakobi síðan hann og Berglin hættu saman. Þetta er búið að vera mikið mál. En þetta mun gleymast á morgun. Berglind kemur samt ekki til baka fyrr en á miðvikudaginn. Mamma hennar saknar hennar svo rosalega að pabbi hennar lætur hana koma heim með flugvél fyri afmæli mömmunar. Berglind á að vera óvænt afmælisgjöf.
Það kom upp lús í skólanum í mánudagin. Tvær stelpur voru með lús þá og ein bættist síðan við á þriðjudaginn. Það hefur samt ekki dreifst neitt meira. Sem betur fer. Sumir voru samt orðnir alveg hryllilega hræddir á þriðjudaginn. Lýs geta ekkki stokkið á milli fólks.
Í gær í dansi héldum við áfram að gera ballet æfingar. Og síðan teygðum við rosalega og ó boj, það var sárt. En hryllilega gott samt. Cheri ætlar að þjálfa okkur svo að við enda annarinnar þá munum við geta farið í splitt og spígat. Það verður spennandi að sjá hvort það tekts.
Í gærkvöldi var ég bara að horfa á sjónvarpið. Horfði á frumsýninguna á nýju þáttaröðinni um Aðþrengdu eiginkonurnar og horði síðan á glæpamynd með George Clooney og Jennifer Lopez, þar sem hún er lögga og hann glæpamaður.
Í dag var síðan Culture Club. Þar ætlaði Torben að vera með fyrirlestur. Okey það átti að byrja klukkan hálf tvö. En klukkan hálf tvö voru bara komnar tvær manneskjur það voru ég og Berglind. Við vorum þær einu í dálangan tíma. Torben var að tala við okkur. Hann talaði á ensku því Berglind skilur ekki ennþá alveg þegar það er verið að tala á dönsku. Torben sagði að Ísland hefði heldur betur fulltrúa sína á staðnum. "Iceland is well represented". Hann hafði líka síðan orð á því að það væri engin Dani á svæðinu, bara tveir Íslendingar og Þjóðverji. Síðan komu reyndar Damla og Gabor, Wiktor og Sonia, nýju Nepalirnir, og síðan tveir Danir. Þá spurði Torben hvort það væri eitthvað í tísku að koma bara tveir af hverju þjóðerni. Það var semsag tvennt af öllu. Síðan byrjaði fyrirlesturinn sem var ekki hefðbundinn fyrirlestur. Þessi fyrirlestur var gagnvirkur og fjallaði um að vera kreatívskur í hugsun. Hann var að segja frá því að það er bull og vitleysa að það séu bara einhverjir snillingar sem hafa sköpunargáfu og hafa kreatívska hugsun. Það geta allir verið kreatívskir og skapað. Hann sagði síðan líka að fólk héldi oft að það væri betra að vera búinn að fá sér í glas þegar maður semur lag eða skrifar eitthvað þá skrifi maður betur. En hann sagði að það væri yfirleitt hinnsveginn. Betra að vera allsgáður. Hann talaði af reynslu þarna. Hann var að kvetja okkur til að vera kreatívsk í hugsun og skapa og nota ímyndunaraflið. Ég held ég eigi ekki í vandræðum með það. Ég er jú stelpan sem sá hatt á snjókarli séð ofanfrá þegar henni var sýnt hvítt blað með svörtum punkti á.
Síðan var líka þýskutími í dag með Kingu. Það gengur bara vel og það kemur mér á óvart hvað ég skil mikið þegar Kinga er að tala á þýsku. Ég hef reyndar smá forskot á Dömlu og Moniku líka. Þó að Monika sé búin að vera læra þýsku lengur en ég. Það er skildleiki þýskunnar við íslensku og dönsku sem hjálpar mér. Þetta er bara ekkert mál. Erfiðast finnst mér þetta með sagnir í enda setningar. En það kemur...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2007 | 19:31
mánudagurinn fimmti febrúar árið 2007
Það er mánudagur í dag, það gerðist ekkert merkilegt í dag bara venjulegur dagur. Dagurinn byrjaði í dansi með Cheri, ballet. Balletspor eru ekki auðveld og maður þarf að æfa sig út í það endalausa. Snúa sér í hringi hoppa á tánum og þannig. Maður þarf að hafa eyrun í lagi því maður þarf allt jafnvægi sem maður hefur í líkamanum. Eftir hádegismat var hreingerningar tími. Ég var að sópa á ganginum þegar Torben kom með nýjan nepalskan nemanda og bað mig um að finna eitthvað fyrir hann að gera. Ég var að reyna að finna eitthvað fyrir hann að þrífa, þegar hreyngerningakonan Lone kom ég bað hana um að finna eitthvað fyrir hann. En hún spurði mig á dönsku havð mér findist. Ég stakk upp á klósettinu og það var samþykkt.
Eftir hádegi var svo tími með Jesper. Við erum að undirbúa ferð til Odense, svipaða ferð og vð fórum í til Ferdericiu í síðustu viku. Ég er að undirbúa það að fara á æskuheimili H.C. Andersens. Ég mun segja frá húsinu, en það er nú samt ekki mikið til að segja frá um það, þannig að mér datt líka í hug að segja eitthvað um hann sjálfan. En þar vissi ég ekkert hvað ég ætti að velja að tala um. Ég veit ótrúlega margt um karlinn. Það kom mér á óvart. Það er greinilegt að ég hef lært eitthvað í dönsku tímum fyrir ári síðan þegar við vorum í "tekst analysning" og vorum að vinna með ævintýri H.C. Andersens. Þannig að ég var bara allt í einu búin að skrifa eina þétt skrifaða A4 blaðsíðu í stílabókina mína. Ég veit ég veit meira um þetta en hinar stelpurnar. híhí....í tímanum í dag var Berglind í tölvunni og var að tala við pabba sinn á msn og allt í einu hróðaði hún bara "ó mæ god". Við litum öll beint á hana. Þá var pabbi hennar að segja henni að hann ætlaði að fá flugmiða fyrir hana til að koma heim um helgina. Ekki bara það hann ætlaði að líka að fá miða fyrir kærastann hennar(Jakob). Og hann ætlaði að splæsa. Berglind var alveg að tapa sér og ég, Damla og Jesper horfpum bara með undrun og fannst þetta vera brjálæði. Nú Berglind lýsti fjölskyldu sinni sem venjulegri millistéttarfjölskyldu. Ég vissi ekki að þannig fjölskyldur gætu bara vaknað einn daginn og keypt tvo flugmiða þreimur dögum fyrir flug. Hún fer á fimmtudaginn og kemur til baka á sunnudagskvöldið. Hún var hoppandi um af kæti.
Nú eftir tímann klukkan þrjú ákvað ég að fara í bæinn til að fara til skósmiðsinns. Ég ætlaði að gera það á fimmtudagsmorgunninn í síðustu viku en komst síðan að því að skósmiðurinn opnar ekki fyrr en klukkan 11 en ef ég ætlað að ná í hádegismat í skólanum þarf ég taka strætó klukkan tíu mínútur yfir 11. Þannig að ég náði ekki skósmiðnum þá. En semsagt ég náði í dag. Ég fékk sprei sem á að hjálpa leðrinu í kúrekastígvélunum mínum til að anda og verja það fyrir vatni og skít. Frábært. Ég ætla líka að fá seinna þar til gerða leðursápu hjá henni, svo ég get þrifið stígvélin rétt þegar þau verða skítug.
Þetta var dagurinn í dag...
..."That's all folks"...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2007 | 20:30
helgin búin
Enn ein helgi búin og ný vika að byrja. Þessi helgi er nú bara búin að vera róleg. Allir bara í afslappelsi. Og ég hef notið þess að vera eini Íslendingurinn á svæðinu. Ég er dálítið spæld yfir því að þessu tvær íslensku stelpur séu að koma í mars. Mér finnst þrír Íslendingar vera nokkurnveginn hámark. Torben er búinn að vera að vinna í því að endurbæta snoghøjsku "líkamsræktarstöðina" Hann keypti tvö ný tæki svo nú samanstendur snoghøjska líkamsrækarstöðin af þessum tveimur tækjum. Það er róðrar tæki og síðan þrekhjól. Ég ákvað á laugardagsmorgunninn eftir að ég var búin að útbúa morgunmat með Mikael og Kingu að fella niður Middelfart-Fredericia ferðina mína og prófa þrekhjólið í staðin. Ég komst að einu, mér líkar betur við alvöru hjól utandyra. Það fór stöðugt í taugarnar á mér að hjóla og hjóla og vera bara alltaf á sama staðnum. Það er ekkert fútt í því. En eftir að hafa hjólað í eina klukkustund næstum 35 kílómetra, þá komst ég að því að þetta reynir meira á en sama vegalengd á hjólinu úti. En eftir þetta var ég bara að slappa af. Horfði á sjónvarpið í herberginu mínu. Horfði á tvær mjög Hallmark-legar bíómyndir. Þær voru samt ekki frá Hallmark. Ein var um konu sem ætleiðir barn systur sinnar sem dó rétt eftir að barnið fæddist. Konan ól strákinn upp sem sinn eigin en sjö árum seinna finnur hún út hver faðir stráksinns er. Pabbinn vildi náttúrulega fá að hitta skrákinn sinn og eyða með honum tíma. En mamman var ekkert mjöf hrifin af því og bannaði honum að sjá strákinn þangað til að hann sótti um fullt forræði. Þá leyfði hún honum að umgangast krakkann. En forræðisdeilan hélt áfram. Þangað til þau fóru til dómara sem leysti málið. Dómarinn talaði við strákinn og spurði hvað honum finndist. Honum fannst að mamma hans og pabbi ættu bara að giftast. Síðan sagði dómarinn foreldrunum frá þessu og þeim fannst þessi hugmynd alveg út í hött. En þau enduðu nú samt með því að gifta sig og síðan voru þau hamingjusöm til æfiloka. Hin myndinn var nú milku betri. Í þeirri mynd voru hjón sem voru að skilja, þau áttu tvö börn, strák og stelpu. Karlinum finnst hann þurfa að gera eitthvað með selpunni sinni og þau fara saman í ferðalag um Bandaríkinn. Þetta var barasta sæt mynd. Amma pabbans var indjáni sem var tekin frá foreldrum sínum þegar hún var smábarn og var alin upp hjá hvítu fólki. En indjániblóðið rann samt í fólki í fjölskyldunni. Feðginin finna það í ferðinni. Þau fóru á gömul indjána griðarsvæði og skemmtu sér vel tvö saman að veiða í ám, fara í bátsferðir og bara vera saman.
Í dag fór ég síðan aftur á þrekhjólið og horfði á Torben kenna syni sínum og vini hans badminton. Og eftir það hef ég ekki verið að gera neitt. bara hangsa. Heilinn er að uppgötvað þá staðreynd að ég er að fara á Dolly Parton tónleika í næsta mánuði hefur. Ég þarf að minna mig á það að ég sé að fara. Þetta er bara svo sérstakt. Eitthvað sem ég bjóst ekki beint við að fengi tækifæri til að gera. Ég er að verða spennt og hlakka til. þrjátíu dagar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2007 | 20:04
Maður þarf að gera fleira en gott þykir
Þannig er mál með vexti að entertainer línan er að breytast. Sumu er nú þegar búið að breyta. Jesper, aðalkennarinn okkar hafði spurt okkur hvað okkur langaði til að gera, við sögðum hvað okkur langaði til að gera á línunni. Okey það var gott og blessað og Jesper hélt fund með Torben til að fara yfir þessar hugmyndir og hvað væri hægt að gera. Eitt af því sem við höfðum allar samþykkt sem hugmynd var það að fara í ferðir og fararstjórn/leiðsögn(guide). Þannig að við byrjuðum í því. Jesper ákvað að við skildum byrja á ferð til Fredericiu. Við þurftum að undirbúa ferðina sjálfar og kynna okkur þá hluti og staði sem við ætluðum að sjá vel. Ókey þá var farið á netið. Nokkur neikvæði kom reyndar upp þegar Jesper sagði að við myndum fara til Fredericia. Monika og Damla sögðu að þær hefðu farið þangað svo oft að það væri ekkert gaman og þær hefðu séð allt. Jesper vissi vel að þær höfðu ekki séð allt í bænum. Aðallega bara göngugötuna og miðbæinn. Það voru samt valdir hlutir til að sjá. Monika hinsvegar nennti þessu ekki af því þetta var bara Fredericia og valdi bara einhverja hluti út í loftið. Þar á meðal var bókasafns og leikhúsbyggingin, sem er bara ekkert merkileg. Jæja nema hvað þetta var á föstudeginum fyrir viku og síðan á mánudaginn áttum við að leggja loka hönd á undirbúning, því við ætluðum að fara í ferðina á þriðjudaginn. Berglind var veik á mánudaginn og var í rúminu þannig að hún hafði ekki undirbúið neitt. Monika hafði ekki beint undirbúið neitt. Damla hafði undirbúið sig, en hún var með kvef og hálsbólgu. En þegar þriðjudagsmorguninn kom, þá var Monika veik, Damla veik(greinilega veik. Gat varla komið upp orði, og sí hóstandi). Berglind var enn slöpp en ákvað að drífa sig bara samt í ferðina. Þannig að eina manneskjan sem fór í bæinn og hafði undirbúið eitthvað var ég. Ókey við fórum þá bara þrjú eins og kom fram í síðasta bloggi. Ég hafði undirbúið mig, búin að ákveða nákvæmlega hvað ég ætlaði að segja og kynna mér allt. En þegar við vorum komin úr ferðinni vorum ég, Jesper og Berglind að tala saman. Jesper spurði Berglindi hvort hún hefði ekki lært eitthvað nýtt í ferðinni, en Berglind játaði þá að hún hefði ekki beint verið alltaf að hlusta á það sem ég sagði, svo hún lærði ekkert. Mér fannst það nú spæling en lét það bara vera að láta það pirra mig þá.
En í dag vorum við í fyrsta skipti í tíma með Jesper eftir ferðina. Í tímanum voru ég, Damla og Monika, Berglind fór til Kaupmannahafnar í gær. Jesper hafði nokkur orð um þetta Fredericiu verkefni og línuna. Hann byrjaði á því að segja að ég hefði staðið mig vel í ferðinni og hefði verið mjög vel undirbúin og að hann gæti séð að ég hafði eytt tíma í undirbúninginn og unnið. Síðan fór hann tala um það að Damla hefði nú kannski ekki getað ráðið við kvefið. En tildæmis Monika var nú eiginlega ekkert veik þarna á þriðjudaginn, bara slöpp. Hann sagði að hún hefði bara notað þennan slappleika sinn sem afsökun fyrir að gera ekki eitthvað sem hún hafði ekki áhuga á. Og fundist það vera allt í lagi af því að við erum á "Snoghøj tíma". Snoghøj tími er víst hægari og afslappaðri en tíminn er almennt. Þetta var allveg rétt hjá honum. Við vorum inn í tölvuherberginu að tala saman í dag. Monika var með kveikt á tölvu bakvið sig og var bara eitthvað að senda tölvupósta á meðan Jesper var að tala. Hann benti síðan á það í hvert skipti sem við værum með tíma þarna inni væri hún alltaf með kveikt á tölvunni og væri að spjalla í spjallforriti eða senda tölvupósta, þegar hún ætti að vera að fylgjast með og hlusta. Þetta var líka alveg rétt hjá honum.
Hér kemur smá útúrdúr sem tengist samt þessu efni.
Í morgun vorum við með tíma með Gitte, í dag lét hún okkur gera verkefni, ein átti að velja sér efni til að tala um í tvær til fimm mínútur og hinar tvær áttu að sitja fyrir framan hana. Ein átti að hlusta og hin átti að láta sér leiðast og hlusta ekki. Monika byrjaði að tala, ég átti ekki að hlusta en Damla hlustaði. Síðan talaði Damla og Monika átti að láta sér leiðast og ég átti að hlusta, síðan talaði ég og Damla lét sér leiðast og Monika hlustaði. Þetta var það sem æfingin gekk út á. Að finna hvernig það er að standa fyrir framan fólk og tala og hafa fólk sem er ekkert að hlusta á þig og veitir þér enga athyggli. Mjög góð æfing, en mér fannst þetta ekkert erfitt. Erfiðast fannst mér að ákveða hvað ég ætti að tala um.
Aftur í ræðuna hans Jespers. Jesper talaði um það hversu böggandi og pirrandi það er þegar maður er að gera eitthvað fyrir aðra og manni er ekki veitt nein athyggli. Ég var sammála honum þar. Það getur verið hryllilega pirrandi. Eins og þarna á þriðjudaginn þegar Berglind var ekki að hlusta. Ég var ekki að þessu fyrir Jesper heldur fyrir hana. Til hvers ætti ég að nenna eyða mínum tíma í að undirbúa eitthvað ef því er svo ekki veitt nein athyggli. Hann sagði við stelpurnar að þær væru dekraðar, ósanngjarnar og latar. Hann benti á að þetta var einn af þeim hlutum sem þær(við) höfðu valið að gera. En síðan þegar væri komið að því að vinna þá vildu þær það ekki. Hann sagði að þær langaði til að læra eitthvað en nenntu ekki að eyða tíma í vinnu við að læra. Hann sagði að hann hafði spurt hvað okkur langaði til að gera þegar við ákváðum að breyta brautinni og núna værum við að reyna að gera það sem var á listanum okkar. Hann sagðist vera orðinn þreyttur á neikvæðinni og kvartinu í þeim tveim yfir því að þær séu ekki að læra neitt. Það var þá sem hann sagði að þær væru dekraðar, ósanngjarnar,jafnvel eigingjarnar og oft latar. Stelpurnar bara þögðu vissu ekki hvað þær ættu að segja. Ræðan hans hélt áfram. Jesper sagði að lífið væri ekki dans og rósum og stundum þurfi maður að gera hluti sem maður nennir ekki að gera eða hefur ekki áhuga á að gera. Hann tók til dæmis Media línuna. Ef maður hefur áhuga á flestu en hefur ekki áhuga á Flash, en gerir það samt. Þetta dæmi er nákvæmleg það sem gerðist hjá mér á media línunni. Mér þótti gaman, en ég komst að því að mér líkar alls ekki, bara alls ekki við Flash, fannst það hundleiðinlegt. En lét mig hafa það þessar tvær vikur sem það var, afþví það er hluti af prógraminu. Ræðan hélt áfram í dágóðan tíma. Jesper sagði að þær þyrftu að vera tilbúnar til að leggja harðar að sér og vinna þá vinnu sem þær þurfa að vinna. Stelpurnar lofuðu að vera jákvæðari og gera það sem þær þurfa að gera. Síðan settumst við við tölvurnar og opnuðum netið og byrjuðum að undirbúa ferð til Odense og allir voru að vinna þangað til tíminn var búinn. Og í næstu viku heldur það áfram.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.1.2007 | 20:33
Sittu rétt annars verður hryggurinn á þér hryggur
Miðvikudagur og mér finnst ég vera búin að vera. Það er hollt, gott og gaman að hreyfa sig, það er bara það að eftir 2-3 klukkutíma á dag, þá er ég úrvinda. Það ætti náttúrulega ekki að vera þannig. Maður getur haft þol á mörgum mismunandi sviðum. Til dæmis gæti ég hjólað um 50 kílómertra á dag og ekkert mál. En ég veit ég gæti ekki hlaupið svo langa vegalend. Síðan eru styrkaræfingar enn annað. Í dansi, dönsum við, en við þurfuð að hita vel upp áður og þá hoppum við og skoppum og gerum styrkaræfingar.
Mánudagurinn byrjaði með fundi með Torben. Við ræddum breytingar á entertainerlínunni. Hans hugmynd er að blanda entertainer og life expander brautunum saman í mars. Við erum allar sáttar við þá hugmynd enda margt á listanum okkar yfir hluti sem okkur langar til að gera, líka á þessari life expander braut. Eftir þennan litla fund þá var dans tími. Það var bara frekar auðvelt á mánudaginn. Hopp og skopp eins og venjulega. Það erfiðasta þá var ballet spor sem við lærðum það er að snúa sér rétt eins og ballerína. Svona að byrja á plíe og fara svo upp á tærnar og snúa og missa ekki jafnvægið. Þetta er erfitt. En þetta er að koma. Ég verð bara að passa að loka ekki augunum á meðan ég sný mér. Annars flýgur jafnvægið beinustu leið útum dyrnar.
Eftir hádegi vorum við(entertainer-stelpurnar) með Jesper að lesa um sögu Fredericiu. Ég er búin að komast að svo mörgu um þennan bæ sem við fyrstu sýn virðist ekki vera neitt sérsteklega spennandi. Reyndar á fyrstu mánuðunum hér var ég farin að að uppgötva spennandi hluti á svæðinu. En núna er ég búin að vera lesa söguna um Frederica og búin að komast að einu og öðru. Við áttum að lesa okkur til um hluti sem væri gaman að skoða í bænum, því við erum í einskonar fararstjórn núna. Monika og Damla voru líka að undirbúa með mér. Berglind var veik á mánudaginn.
Þriðjudagurinn byrjaði snemma. Ég vaknaði klukkan sjö því við ætluðum útúr húsinu klukkan hálf níu. Við ætluðum að fara með strætó svo að ef við hefðum farið klukkan hálf tíu þá hefðum við bara fengið klukkutíma í bænum áður en við þyrftum að fara með strætó tilbaka. En Jesper hafði fengið bíl foreldra sinna lánaðann(hans bíll tekur víst bara 2 farþega). Þannig að hann keyrði bara með okkur klukkan hálf níu. En í gær voru Monika og Damla báðar veikar, kvef og hálsbólga og þannig. Við hittumst öll við morgunverðarborðið. Ég var með lýsisflöskuna á borðinu. Vekur alltaf athyggli þessi undarlegi siður. Damla sagði við mig í gær Ég ætti kannski að taka þessa fiskolíu þína á hverjum degi. Fólki finnst lýsi ógeðslegt. En ég mæli nú samt með því. Hvað um það það vorum bara ég og Berglind sem fórum í bæinn með kennaranum. Berglind hafði ekki undirbúið neitt þar sem hún var veik daginn áður og ég vissi ekkert um það sem Damla og Monika höfðu undirbúið. Þannig að ég var bara ein að guida. Við gengum um bæinn, ég sagði þeim frá sögu bæjarinns, tilgangi bæjarinns og öðru sem ég vissi. Mér fannst þetta bara gaman. Og kennarinn, Jesper, sagði að þetta hefðu verið vel undirbúið hjá mér. Ég talaði á enski, því ég hafði undirbúið mig á ensku, en ég talaði dönsku inná milli. Ég talaði þá náttúrulega um Jutland en ekki Jylland. Berglind er að detta í djúpa grifju sem ég og Haraldur vorum næstum dottin í haust. Hún talar nánast alltaf ensku við Danina, sem er ekki gott. En það eru nokkrir Danir sem tala alltaf dönsku við hana og bara neita að tala ensku við hana, hennar vegna.
Saga Fredericia í mjög stuttu máli
Fredericia er bær með um 40 þúsund íbúa,í suðaustur hluta Jótlands.
Það var eftir 30 ára stríðið að Fredericia varð til. Christian fjórða Danakonungi fannst Jótland ekki vera nógu vel varið gegn óvinum. Hann vildi byggja upp varnarvirki. Kónginum fanns þetta frábært tækifæri til að skapa stórborg á Jótlandi. Hann lét byggja stóran virkisgarð. Bygging virkisins hófst 1650, tveimur árum eftir að Christian IV hafði dáið og sonur hans Frederik þriðju hafði tekið við. En síðan gerðist það árið 1657,áður en lokið var við byggingu virkisins, að Jótlandsstríðið braust út og Svíar réðust inn. Virkið gat ekki haldið Svíunum frá og þeir eyðilögðu allt. Þá hófst endurbygging á virkinu bænum sem var mjög strembin. En þetta ástand í bænum varð til þess að mikið frelsi fyrir fólk var í Fredericia. Fólk sem stundaði ólík trúarbrögð hafði sest að í bænum. Þar á meðal hópur giðinga. Bærinn var fyrst nefndur Frederiksodde eftir Frederik III. En hann breytti nafninu á bænum síðarmeir árið 1664 sjálfur þegar hann var undir latneskum áhrifum. Og nefndi bæinn Fredericia. En árið 1848 þá var gerð önnur árás á Fredericiu. Þá var það Slésvík-Holstein. Það stríð er gjarnan kallað baráttan yfir Fredericiu. En virkið gerði gagn í þetta skipti og Danir unnu þessa orustu. Virkið stendur enn þá en notkun á því var lögð af árið 1909. Virkið er elsta og best varðveittasta virki í norður Evrópu.
Jæja og svo áfram. Í gær, þriðjudag, eftir hádegi var svo tími með Gitte. Við gerðum æfingar á svona stórum boltum. Ji minn það tekur á. Hafi maga og bakæfingar einhvertíman verið erfiðar þá er það miskilningur. Á boltunum þarf maður líka að halda jafnvægi. Hún byrjaði á því að kenna okkur að sitja rétt. Það minnti mig á það sem Hafliði enskukennari sagði alltaf þegar maður sat öfugt á stólnum. Hann sagði Sittu rétt annars verður hryggurinn á þér hryggur. Gitte kenndi okkur semsagt að sitja rétt. Hún sagði okkur að sitja eins og okkur finnst vera eðlilegast. Það sem okkur finnst eðlilegt seta er bara ekki rétt. En nú á meðan ég er að skrifa þetta blogg þá er ég að æfa mig í því að sitja rétt. Það er bara ekki hægt að sitja rétt á þennan hátt lengi í einu það er bara ekki þægilegt. Það er erfitt að slaka á. Það sem Hafliði meinti með því að sitja rétt er samt ekki þetta. Hann meinti bara að snúa rétt á stólnum og snúa fram. Gitte ætlar að æfa í okkur magavöðvana, svo þeir verði eins og stál í vor. Ég hef fulla trú á því að það sé möguleiki á því. Allaveganna fann ég til í magavöðvunum í morgun þegar ég fór á fætur. Það var nú samt ekki mikið.
Í morgun var síðan valfag, ég er í ljósmyndun og það er bara gaman. Í dag var ég á skrifstofunni með Elisabeth og Mette að taka myndir. Við tókum óvenjulegar myndir. Það voru tannlæknar með fund hér í dag. Það voru held ég um 40 tannlæknar. Þeir fengu vínarbrauð með kaffinu sínu á meðan við fengum bara gulrætur. Mér finnst þetta ósanngjarnt. Hví fáum við bara eintómar rúsínur og gulrætur með kaffinu?
Seinni partinn í dag eða klukkan 4 var svo danstími. Og ó boj, það voru átök. Í dag voru æfingar í aðalhlutverki. Ótal tegundir af magaæfingum. Ein æfingin var sársuakafull. En rosalega góð. Við gerðum líka armbeygjur og bakæfingar, ótal af þeim líka. Ég vissi strax eftir æfingarnar að ég mun vakna á morgun með verki í magavöðvunum. Klukkan er nú hálf tíu og ég finn að ég er að fá harðsperrur. Ég verð bara að endurtaka þetta í fyrramálið.
Ég held ég láti þetta nægja í bili. Ég set kannski inn nokkrar nýjar myndir á eftir...sé til
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2007 | 21:20
vika í Snoghøj
Ekkert neitt svakalega merkilegt hefur gerst síðan á mánudaginn og þess vegna hef ég ekki bloggað.
Á þriðjudaginn upgötvaði ég hvað ég sakna þess rosalega að vera í badmintoni. Ég skil ekki hvers vegna eina íþróttin sem mér líkar við þarf endilega að vera svona óvinsæl. Ég möl burstaði Berglindi 13-0. Við spiluðum einliða leik. Svo frábær hugmynd hjá Gitte að láta okkur spila badminton í boltaleikjatímanum. Ég velti fyrir því mér hvort hún geti lesið hugsanir. Hinar stelpurnar hafa samt enga eða litla reynslu af badmintoni. Sem mér finnst vera synd...svona góð íþrótt. Allaveganna er þetta góð íþrótt að mínu mati. Gitte sagði samt að við munum gera eitthvað í næstu viku. Ég er samt að pæla í því að biðja hana um að hafa badminton oftar. Það verður hinsvegar einhverntíma í næsta mánuði hugsanalega, badminton keppni. Gitte nefnilega skoraði á hina kennarana á kennarafundi á miðvikudaginn að spila badminton, hún sagði að hún gæti léttilega malað þá. Kennararnir tóku allir áskorunninni. Nemendur mega líke vera með. Ég hugsa að ég taki þátt í þessu og láti Claus taka myndir af þessum íþrótta atburði sem ég held að geta orðið stórkostlegur....
Nú á fimmtudaginn,í gær, þá er frí samkvæmt nýju stundatöflunni okkar. Við fáum frí á fimmtudagsmorgnum á minni línu af því að við erum í dansi á eftir hádegi á miðvikudögum þegar á að vera frí. Þannig að í gær morgun labbaði ég til Erritsø og kom síðan til baka. Þetta er alltaf jafn góður labbitúr. Það gerðist eitt athygglisvert núna í vikunni, það fór að snjóa. Ég vaknaði á þriðjudaginn og sá bara hvíta jörð. Það voru allir voðalega glaðir að fá snjó. En þetta var nú ekki neitt neitt. bara smá og var farið á miðvikudaginn. Annars ef ég vissi ekki betur þá gæti alveg eins verið sumar hér. Grasið er enn sumargrænt. Það eina sem fullvissir mig um að það sé vetur er dagatalið og það að laufin eru ekki á lauftrjánum. Annars er þetta verður sem er búið að vera, eins og venjulegt íslenskt rigningarsumar. Það var bara þarna á þriðjudaginn, nú er aftur farið að rigna og grasið er grænt. Það ætti kannski að vera blátt eins og segir í bluegrass lagi með Dolly Parton þar sem hún er að fullvissa sig um það að hún sé ekki óhamingjusöm, fossar renni upp í móti, dalir séu háir, það sé gaman að gráta, að lygi sé sannleikur, að það sé snjór í hitabeltinu og heitt á norðurheimskautinu, að himininn sé grænn og að grasið sé blátt.
Culture Club tíminn í gær var góður eins og oft áður. Það er bara sorglegt að það séu svo margir sem ekki mæta. En Torben hefur brugðið á það ráð að bara sækja fólk og draga það niður. Í gær kom blúsmaður. Bara einn maður, hann kom með gítara og dóbró...Fyrsta sinn sem ég man eftir að hafa séð dóbró, hann söng líka. Hann heitir Ole Bech. Hann mætti auðvitað í kúrekastígvélunum sínum. næstum hvaða manneskja sem er á möguleika á að fá auka plús hjá mér fyrir það. Hann sagði okkur frá sögu blues tónlistarinnar. Kynnti fyrir okkur Robert Johnson sem hélt að Chicago væri í Californiu. Hann spilaði og söng lög eftir hann síðan talaði hann meira um sögu tónlistarinnar. Og spilaði meira. Hann talaði líka um hvernig blús tengist rokk og róli, rokki og kántríi. Mér fanns hann góður. Síðan eftir að tónleikarnir voru búnir þá fengum við að spyrja spurninga. Hann svaraði einni spurningu sem Torben spurði. Spurningin var, hvernig er að vera blústónlistarmaður í Danmörku? Svarið var hreint og beint ómögulegt. Ole sagði að ef maður er Dani sem er blústónlistarmaður og vilji afla sé peninga fyrir það, þá væri Danmörk vitlausasti staður sem maður gæti verið á. Maður ætti að íhuga að fara til Svíþjóðar eða Noregs þar sem svona tónlist er vinsæl. Hann hefur alltaf verið hrifnastur af blús af öllum flokkum tónlistar, allveg síðan hann var tíu ára. Hann sagði líka frá því þegar hann var yngri og var að fíla blús mest af öllu og hvað það hafi verið erfitt. Fólk skildi ekkert í þessu og þótti þetta nánast ekki vera tónlist til að hlusta á. Fólki fannst hann bara vera einhver furðufugl fyrir að hafa svona undarlegt áhugamál. Að heyra þessa setningu var hápunktur dagsinns hjá mér. Því ég skil þetta svo vel, því mér líður oftast eins með að vera svon kántrí furðufugl. Og ég veit að littla Ísland er ekki tilbúið fyrir kántrítónlist. Og ég efa að það muni gerast á næstunni.
Síðan í dag var tími með Gitte, þetta á að vera einhverskonar sálfræði eða kennslufræði(pædagogik). Hún lætur alltaf gera æfingar og hugsa. Eins og um daginn þá áttum við að segja hverju við erum góðar í og hvað er sérstakt við okkur. Í dag var verkefnið að segja hvað við viljum breyta í fari okkar og lífstíl. Það kom í ljós að við eigum allar eitt sameginlegt. Það að vilja fara snemma að sofa. Við kynnumst hvorri annarri í þessum tímum. Ég vissi til dæmis ekki að alvöru pabbi hennar Dömlu dó þegar hún var sex ára og að tyrkneska fjölskyldan vildi svo ekkert með hana gera því hún er stelpa. En sá síðan að sér ári seinna. Síðan gerðum við annað verkefni sem var öðruvísi en samt flókið. Það hafði með samvinnu að gera. Það var bundið fyrir augun á okkur svo við sáum ekkert. Við fengum síðan reipi og fötu. Við áttum að mynda ferning með reipinu á gólfinu og láta síðan fötuna í miðjan hyrninginn. Við máttum ekki sleppa reipinu og Gitte mátti ekki segja okkur til. Þarna stóðum við fjórar með reipið í höndunum og vissum ekkert hvernig í veröldinni við ættum að geta þetta með bundið fyrir augun. Við vissum að við þyrftum að vita hversu langt reipið væri. Damla stakk upp á því að við strekktum og færum eins langt að veggjunum í herberginu til að sjá hvort reipið næði alla leið. við prófuðum það Reipið náði akkúrat. við giskuðum á að það væri 10 metrar. En föttuðum síðan að það hjálpaði okkur ekkert að nota metrakerfið. Moniku datt þá í huga að mæla reipið í olnbogum, það er að segja í framhandleggjum. Hún mældi og kom í ljós að reipið var 16 olnbogar. Þá vissum við að hver hlið á ferningnum ætti að vera 4 olnbogar. Monika mældi þá bilið á milli okkar allra á reipinu þannig að það væri fjórir olnbogar. Ein okkar var með báða endana á reipinu. Svo strekktum við á reipinu og stoppuðum þegar við höfðum það á tilfinningunni að við stæðum á móti einhverjum. Þá létum við reipið niður. Fundum fötuna og fundum miðjuna. Á meða á þessu stóð sat Gitte og hló. En síðan þegar við vorum allar vissar um að við værum komnar með ferning þá tókum við klútana frá augunum og sáum að okkur hafði tekist það, svona nokkurnveginn. við vorum með ferning, fatan var samt ekki akkúrat í miðjunni. Við ákváðum að gera þetta aftur á húsfundi. eftir hádegismat. Við völdum fjögurra manna hóp. Við vorum allar sammála um að velja fólk sem talar venjulega ekki mikið saman. Við völdum Harald, Chen, Karin og Soniu.
Fólki tókst að pirra Torben á húsfundinum. Venjulega er aðal húsfundurinn þar sem allt þetta leiðinlega er rætt og á föstudögum er bara það allra mikilvægasta, eins og það að ganga frá eftir sjálfan sig. og síðan er venjulega kennari sem segir frá einhverju restina af hálftímanum. En í dag var svo hellingur af kvörtunum. Söngleikjastelpurnar enn og aftur. Nú er of kallt í salnum og þær eru að frjósa þegar þegar þær eru í dansi eða leiklist þar inni. Sem mér finnst skrítið þar sem það er ekki neitt sérstaklega kallt þar þegar við erum að dansa. Hin og þessi atriði tóku yfir hálftímann. En eftir það tilkynntum við þetta verkefni. röðuðum fólkinu í hring svo allir gætu nú örugglega séð og hlegið að Haraldi, Chen, Karin og Soniu. Þau gerðu þetta allt öðruvísi en við höfðum gert. Þau voru ekkert að mæla reipið. Chen sagði bara Soniu að taka báða endana á reipinu. Og svo bösluðu þau við að mynda ferning. Þetta var það fyndnasta sem ég hef séð óralengi. það voru allir skellihlæjandi. Þegar þau töldu sig hafa gert "ferning" setti Chen fötuna í "miðjuna". Haraldur var þá ósammála um staðsetninguna á miðjunni. Chen setti fötuna nálægt Haraldi en Haraldur sagði að það gengi ekki vegna þess að hann væri í horninu. Hvaða miðja, í hvaða horni í hvaða ferningi? verð ég að segja. Miðjan hans Chens var ekki í neinu horni þvi þessi ferningur þeirra hafði bara eitt horn og það var bara hvergi nálægt Haraldi. Siðan við að fá þessi mótmæli frá Haraldi fór Chen að laga ferninginn á gólfinu og guð minn góður það var fyndið. Hann gerði illt verra. En síðan voru þau sammála um að þetta væri komið hjá þeim. Við þurftum þá að segja þeim að þetta væri hvergi nálægt því að vera ferningur. Þá stóð Karin upp með uppástungu. að þau stæðu öll þar sem þau gætu fundið hvert annað og myndað þannig ferninginn og bakkað síðan öll jafnmörg skref aftur á bak. Þessi hugmynd hennar virkaði og þeim tókst að mynda ferning. Þessi tilraun er gerð til þess að sjá hvernig fólk hagar sér í hóp. Og til að sjá hverjir vilja stjóra og segja öðrum hvað á að gera og hverjir eru þeir sem vilja taka fyrirmælum. Ég hélt að Karin mundi byrja strax að stjórna hinum. Þannig er hún oftast, en ég held vegna þess að hún var í hóp með fólki sem hún talar ekki venjulega við þá hafi hún haldið aftur að sér. Það kom mér líka á óvart að Chen skuli hafa tekið fyrstu skrefin í verkefninu og farið að segja hinum hvað þau ættu að gera. Þetta er svo merkilegt og athygglisvert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.1.2007 | 21:52
ný vika
okey það er mánudagur og maður er rétt búinn að jafna sig á síðustu viku þegar nýja vikan kemur. Úff. "Ætlar Torben að gera útaf við okkur?" er spurning sem hefur komið upp á línunni. Svarið er samt auðvitað nei. Síðasta þriðjudagur var erfiður eins og fram kom í síðasta bloggi. Á fimmtudaginn var síðan danstími númer tvö. Þá var það ekki kennarinn frá akademíunni heldur bara hún Cheri. Torben ætlar að borga henni fyrir að vera danskennarinn okkar. Cheri er sko nemandi á söngleikjabrautinni. Kennarinn frá akademíunni kemur ekki meir. En það er allt í fínasta lagi. Cheri er alveg jafn frábær. hún hefur verið meira og minna dansandi síðan hún var smákrakki. Cheri er líka alveg jafn miskunarlaus hvað varðar magaæfingar. En það er bara fínt. okkur veitir ekkert af þeim. Ég er reyndar farin að gera þær á morgnanna áður en ég fer í sturtu, ég ætla að láta þessar æfingar verða ekki jafn erfiðar og þær voru á þriðjudaginn og það hefur barasta gengið. En síðasta vika var ekki harðsperrulaus fyrir entertainment stelpurnar. Við vorum allar með harðsperrur alla vikuna. síðan kom helgin og ég jafnaði mig og síðan kom bara allt í einu mánudagur og allt byrjaði aftur. Ég er ekki viss um að ég fái harðsperrur á morgun, en gæti samt vel gerst.
Ég horfði á Söngvakeppni Sjónvarpsinns á netunu um helgina. Og verð að segja að ég fann til í eyrunum að hlusta á sumt af þessu. Ái Ji minn...Ef lögin sem verða flutt næstu tvo laugardaga verða ekki betri, þá á Ísland ákaflega lítinn sjens í Júróvisíon á þessu ári. Ég held að keppnin sé að verða tilbúin fyrir að íslensku feðginin rústi þessu.
Í morgun var semsagt dans aftur með Cheri. Og já, dansinn sem við lærum hjá henni er Grease dans. Það er Hand-djæf. Dansinn flotti sem Sandy og Danny og allir hinir dönsuðu í danskeppninni á skóladansleiknum í bíómyndinni. Stelpunum finnst nú frekar hallærislegt að vera að dansa Grease dansa. En ég verð að viðurkenna að ég fila það. Ég er bara manneskja sem fíla Grease. og mér finnst Grease ekki úreltur söngleikur, bíómyndin er ekki úrelt heldur.
Eftir hádegi var síðan tími með Jesper. Við vorum bara að tala um framhal línunnar, þar sem komið er í ljós að engin okkar hefur áhuga á að fara til Spánar að vinna frá maí og út október, frá 10 til miðnættis sex daga vikunnar. Þannig að við þurfum ekki að fara eftir kennslubókinni og getum nokkurnvegin gert það sem okkur dettur í hug. Við byrjuðum á því að tala um hvað okkur langar til að gera. Það komu auðvitað hinir og þessir útúrdúrar, þar á meðal fórum við að tala um rafmagn. Og allt í einu fanns mér ég vera eitthvað rafmagnsnörd eða allaveganna innstungusérfræðingur. Rafmagnsumræðan var upphaflega hvaða straumur er í Danmörku og hvort hann væri annar en í Póllandi. Síðan einhvernvegin færðist umræðan yfir í innstungur. Ég sagði að það væri engin jarðtenging í dönskum innstungum. Jarðtenging!! Stelpurnar göptu, þeim datt ekki í hug að ég vissi eitthvað um jarðtengingar. Þær höfðu allaveganna aldrei haft neina vitneskju um þennan hlut. En hvað með það Jesper vissi um jarðtengingar og við fórum að útskýra. Danksar innstungur bjóða reyndar margar upp á eina tegun jarðtengingar en engar eða allveganna fáar hafa jarðtengingu. ólíkt því sem er á Íslandi. Þetta er bara einn af furðulegum hlutum sem ég bara tek eftir án þess beint að taka eftir því. Jæja útúrdúr. Við töluðum um hvað okkur langar að gera. Við töldum upp hina og þessa og þessa hluti sem komu í hug okkar.Listinn er langur en á honum er meðal annars: kvikmyndagerð(hugmynd frá Jesper), meiri dans, söngur, almannatengsl, þýska, leiklist, fara í stuttar ferðir um Danmörku, nudd, læra á gítar eða á eitthvað annað hljóðfæri.(Það kom í ljós að Dömlu langar eins mikið að læra á gítar og mig, þannig að ég vona að það verði valið), pilates, ljósmyndun, sálfræði/uppeldis og kennslufræði. Við getum náttúrulega ekki gert þetta allt. En á morgun þá munum við ræða málin betur og fara yfir hvert atriði á listanum og velja hvað leið við förum. Ég er spennt að sjá hvað gerist. Ein uppástunga sem kom líka upp í dag, sem er öllu mikilfenglegri og það er að fara í skólaferð með línunni okkar til Íslands, af því að meiri hluti þeirra sem á línunni eru, eru Íslendingar. Explorer-línan fór í svona ferð til Póllands núna fyrir jólin þar sem meiri hluti fólksins á línunni var þá Pólverjar. Monika sagðist ekki vera viss um hvort hún væri tilbúin til að fara til Íslands. Eftir smá tíma var loksing hægt að toga ástæðuna uppúr henni. Hún hafði áhyggjur af því að Íslendingar mundu ekki geta talað ensku við hana ef hún færi til Ísland. Við Berglind vorum nú fljótar að leiðrétta þennan misskilning um landið okkar. Hugmyndinni um nokkurra daga ferð til Íslands var vel tekið og ákveðið var að íhuga málið. Það er það sem ég segi Íslendingar eru að ná yfirvöldum hér.
Reyndar er öllu verra að það koma tvær íslenskar stelpur í byrjun mars. Stelpan sem ég nefndi um daginn heitir ekki Þórunn heldur Þórdís, fyrir utan hana kemur svo önnur stelpa en ég man ekki hvað hún heitir. Maður ætlar sér að fara eitthvað í burtu frá Íslendingum en síðan fyllist bara allt af Íslendingum. hvað á þetta að þýða?
Ég er búin að bæta við nýju albúmi með myndum frá Entertainer-brautinni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.1.2007 | 15:46
Ji minn!! Eitt skref á mínútu
ég ætla að byrja á gærdeginum eða öllu heldur gærkvöldinu og síðan ætla ég að útskýra "ji minn-ið" þarna í fyrirsögninni. Í gærkvöldi vorum við á línunni minni með spurningakeppni fyrir skólann. Við höfðum skipulagt keppnina. Ég var með þvílíkan sviðskrekk í svona um 2 tíma áður en keppnin átti að byrja. Keppnin átti að byrja klukkan 9 og ég átti að byrja að tala. Útskýra leikinn og reglurnar og síðan að byrja á spurningum og síðan tóku stelpurnar við. En um leið og ég stóð fyrir framan allt fólkið þá hvarf sviðskrekkurinn allveg. Gufaði bara upp á sekúndubroti. Þetta var bara minnsta mál. Ég kom textanum frá mér á ensku og íslensku. kennarinn leyfði okkur að sleppa þýskunni því þetta var fyrsta skiptið. Mér fannst rosalega skrítið að standa og segja eitthvað á íslensku fyrir bara eina manneskju. Sérstaklega þar sem ég veit að Haraldur skilur fullkomlega ensku. Ég tók eftir því að ef ég sagði fyrst eitthvað á ensku fyrst og síðan á íslensku var hann hvort eð farinn að ræði svarið við spurningunni við liðsfélaga sína. Þá bara tók ég upp á því að byrja á íslensku og síðan ensku. Fólki fannst hryllilega fyndið að heyra íslensku. Það er bara eitthvað Dönunum hér finnst það bara fyndið þegar þeir heyra íslensku. Það var extra fyndið í gærkvöldi að því Haraldur var eina manneskjan sem skildi hvað ég var að segja. Það var næstum þvi það sama þegar Damla var að segja spurningar á ungversku þar sem Gabor var einni aðilinn sem skildi. Þetta var ekki svona fyrir Moniku þegar hún talaði á pólsku enda voru 3 aðrir Pólverjar viðstaddir. En sama sagan með íslenskuna endurtók sig náttúrulega þegar röðin var komin að Berglindi. Spurningakeppnin gekk bara mjög vel, tók bara um klukkutíma og þá var það búið. Og þar sem við vorum bara með 4 hópa þá tók það ekki langan tíma að fara yfir svar blöðin.
Það hefur heyrst að önnur íslensk stelpa sé á leiðinni og muni koma hingað. Einhver ókunnug stelpa sendi Haraldi sms um daginn segjandi hæ og það að hún ætli að koma hingar og vera nemandi frá mars byrjun. Ekkert okkar þekkir hana að veit nein deili á henni nema það að hún heitir Þórunn Hlín. Mikið held ég að Danirnir muni stynja yfir nafninu Þórunn.
En nú er komið að útskýringu á fyrirsögninni. Dagurinn byrjaði klukkan níu eins og venjulega en í dag vorum með þýsku með Torben klukkan níu til tíu. Klukkan tíu var svo danstími í tvo tíma. ó boj ó boj. Það voru fyrst uphitunaræfingar magaæfingar og bakæfingar. Eftir þetta fannst mér þetta vera orðið komið gott. En þá var dansinn eftir. Við dönsum við Thriller lagið með Michael Jackson. En þetta er samt ekki dansinn hanns. Kennarinn kallar þennan dans skrímsladansinn. Kennarinn er ung kona sem er kennarin í Söngleikja akademíunni í Fredericia, svo það er ekki amalegt. Við lærðum sporin og endurtókum rútínuna aftur og aftur. Ég átti erfiðleikum með sama partinn aftur og aftur. Fór út af sporinu alltaf á sama stað. En kennarinn er rosagóð og hefur þolinmæði og virkilega kennir manni. Hún bara benti mér á hvað ég var að gera vitlaust og gerði þetta nokkrum sinnum með mér. þangað til ég náði þessu. Ég ætla samt að æfa þetta, kannski í kvöld og örrugglega á morgun. Hún hjálpaði Berglindi líka sem átti í erfiðleikum með annað spor.
Nú þessi tími var þangað til rétt fyrir tólf. Klukkan tólf var hádegismatur og síðan var húsfundur. Á húsfundinum var hitt og þetta mikilvægt rætt eins og venjulega. Torben byrjar alltaf að tala á fundunum hann er alltaf með punkta sem hann þarf að ræða. Eitt sem hann sagði í dag. Að hann er ekki ánægður með partíheit á sumufólki. Hann var vaktkennari núna um helgina. Það hafði verið drykkjupartí á föstudeginum og aðeins rólegra partý á laugardeginum. Hann vill ekki að fólk drekki sig svona pissfullt í skólanum(Sjálfur drekkur hann ekki áfengi). Hann sagði að það hefði ekki verið fögur sjón þegar hann kom inn í skólann á laugardaginn til að útbúa morgunmat og svona. Hann sagði að það hefði verið búið að æla víðsvegar, sérstaklega samt í blómapottana. Hann þurfti að þrífa þetta allt. Hann bað fólk um að gjöra svo vel haga sér betur og hafa hemil á sér. Annað mál sem kom upp um helgina. Það er einhver sem "notar" klósettið í ganginum mínum. Notar er innan gæsalappa, því aðilinn notar vissulega baðherbergið en ekki klósettið. Og það er ógeðslegt. Það er búið að setja upp stórt merki á baðherberginu. Það stendur að það eigi að pissa í klósettið en ekki á gólfið og að síðan eigi maður að sturta niður. Torben sagði að hann hefði haldið að þetta væri ekki mikið mál. En það er bara fólk sem virðist vera ófært um að sturta niður. Þetta eru ekki skemmtileg málefni til að ræða um. En það er nauðsynlegt til að stöðva þetta.
Það var líka margt annað rætt á fundinum eins og það að Torben er búinn að kaupa nýja rátera þannig að kemur líklegast þráðlaust internet í herbergið mitt seinna í dag, eða í fyrramálið, það verður nú fint. Haraldur á afmæli í dag. Einhver hafði fundið íslenskt lag í söngbókinni, sem ég hafði ekki séð áður. Það kom í ljós að það var Sofðu unga ástin mín, en textinn var náttúrulega á dönsku. En af tilefni að afmælinu var þetta lag sungið Torben byrjaði á því að spila lagið á píanóið til að prófa, hann hafði aldrei heyrt þetta lag áður. um leið og ég og Berglind höfðum áttað okkur þá byrjuðum við að syngja á íslensku sungum fyrstu tvö erindin. Fólki fannst þetta ótrúlegt. En síðan þegar Torben var búinn með þessa littlu æfingu sína þá var byrjað aftur á laginu, sungið á dönsku. Danirnir fengu loksinns að finna hvernig okkur útlendingum líður á hverjum einasta húsfundi þegar það eru lög sem við höfum aldrei á æfinni heyrt áður.
Eftir húsfundinn var svo íþróttatími fyrir okkur á minni línu, eða það er að segja bolta leikir. Þetta var um klukkan eitt. Gitte lét okkur fyrst hita upp og síðan spiluðum við badminton, jeij íþrótt sem ég er góð í. Og aftur voru upphitunaræfingarnar það erfiðasta. Gitte sagði bara hreint og beint út að við værum ekki í nógu formi. Hún vill að við komum í tímana hennar Body-Balance, sem er held ég mest styrktaræfingar, sérstaklega ég og Berglind. Venjulegar íslenskar stelpur sem eru grannar en gætu vel misst smá af maganum. En núna vantar klukkuna tuttugu mínútur í fimm og ég er dauð uppgefin, eða eins og Monika orðar það algjörlega flöt. Hún segir flöt af því að það sem maður vill gera að leggjast út af. Ég ætla að reyna að gera núna maga og bakæfingar í herberginu mínu á morgnanna áður en ég fer í sturtu og niður í morgunmat. Ég er nokkuð viss um að ég vakni með harðsperrur á morgun. En í augnablikinu finn ég ekki fyrir neinu nema þreytu og ég hreyfði mig hægt. um það bil eitt skref á mínútu held ég. Ég bara get ekki meira. Og ég hlakka til að borða kvöldmat, ég vona að það verði eitthvað gott. Torben og Mikael hafa mikið verið að elda kvöldmat upp á síðkastið. Þeir eru hrifnir af spagetti bolognese uppskriftinni frá ítölsku ömmu Mikaels. Það er gott en ekki svona oft. Reyndar gerði Torben smá breytingar á uppskriftinni um daginn og setti eitthvað svakalega sterkt í.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.1.2007 | 14:27
Sunnudagur í leti
Ég nenni ekki að gera neitt i dag. Það er bara einhvernveginn þannig dagur í dag. Það er brjálað veður úti núna. Það var ágætt í morgun en það hefur versnað verulega.
Ég hef verið að reyna að læra utanað spurningakeppni sem við á línunni minni eigum að halda hér í skólanum á morgun. Við eigum að geta sagt allar spurningar á 3 tungumálum. Fyrir mig og Berglindi er það á ensku, þýsku og íslensku. Monika á að geta sagt þetta allt á ensku, þýsku og pólsku og Damla hefur þetta á ensku frönsku og ungversku... Fyrir mig erfiðast að læra textann og spurningarnar á þýsku. Ég er samt komin með þetta svona nokkurn veginn. In welchem Land ist La Stampa eine nationale Zeitung?
Annars snýst línan mín um hótel skemmtun. Við erum í uppeldis og kennslufræði á föstudögum og smá sálfræði er með inní því. Annars erum við að læra að skipuleggja allskonar leiki. Læra að skipuleggja íþróttakeppnir. Við lærum hin og þessi leikjakerfi og leikjaplön. Það er bara ágætt.
Ég bara veit ekki allveg hvað ég að gera við mig í dag. Ég er vön að fara í langa hjólatúra á sunnudögum en get það ekki í dag vegna veðurs. Ég bara sit hér í tölvuherberginu með fartölvuna mína og er að gera ekki neitt. Það er ekki enn komið netsamand í herbergið mitt. þannig að ef ég vil tölva þá verð ég að gera það hér. Það er samt bara fínt að vera í návist aðra þó að allir séu þögglir með nefið ofan í tölvuskjám.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2007 | 20:27
Ný önn í Snoghøj er byrjuð
Jæjæ, þetta blogg mun ekki ekki eingöngu vera um Ísland og Íslendinga. Það eru bara nokkrir nýjir nemendur og þar af er bara ein stelpa það er hún Berglind. En af því það eru nýjir nemendur byrjar nýtt spurningaflóð um Ísland. Og við þurfum að svara þeim. Allir strákarnir nema einn eru Danir. Sá sem er ekki Dani er Nepali.
Mánudagurinn var mjög afslappaður. Fyrir hádegi var bara smá fundur með Torben, síðan var frír tími til að gera hvað sem er. En eftir hádegi þá átti leiklistarkennarinn að sjá um okkur. Hann var með okkur í leikjum svo við mundum kynnast eitthvað. Torben hafði sagt á fundinum fyrr um daginn að hann sæi hvernig hópurinn skiptist. Gamlir nemendur sátu á einum stað og nýjir nemendur á einum stað. En þarna seinni partinn þurftum við að vinna saman. Samt hefði verið gaman ef það hefði verið fleiri en tvær stelpur á svæðinu. Það vorum bara ég og Berglind. Monika þurfti að fara í bankann í Fredericia. Við gerðum látbragðsatriði, fórum í myndastyttuleik og margt annað. við áttum að vera tvö og tvö og binda fyrir augun á öðrum aðilanum og leiða hann um skólann. Og síðan var okkur skipt í tvo hópa og við áttum að labba í kringum skólan í hópnum blindandi. Það var erfitt. Minn hópur tapaði því hinn hópurinn svindlaði. þetta var frá klukkan hálf tvö til klukkan fimm.
Í gær var fyrsti dagurinn á línunni með venjulegum tímum. Maður ætti kannski að setja venjulegum innan gæsalappa. Það er takmarkað hvað þetta getur verið venjulegt. Alla veganna finnst mér ekki mjög venjulegt að hafa bara tvo aðra nemendur á sömu línunni. Það erum bara ég Berglind og Monika. Damla kemur hinnsvegar á morgun. Hún ætlar víst að vera með okkur. Kennarinn heitir Jesper en hann er ekki úr Kardemommubænum. Þetta er annar Jesper. Hann byrjaði á því bara að spjalla við okkur og síðan fór hann að tala um línuna og hvað við værum að fara að gera. Mér finnst þetta bara hljóma spennandi. Við eigum að skipuleggja þema daga fyrir krakka á hótelum. Finna upp á leikjum og þannig. Þetta var fyrir hádegi. Eftir hádegi vorum við í íþróttasalnum. Þar var okkur kenndar reglurnar í blaki. Engin okkar er fyrir íþróttir, en það var bara fínt að gera þetta svona rólega. Og kennarinn Gitte er góð, hún kennir okkur leikinn. Þannig að ég hef ekki áhyggjur af þessu.
Í dag er miðvikudagur og það er valfagsdagur. Ég valdi ljósmyndun. Jesper sér um það líka. Það er held ég bara spennandi. Í morgun talaði hann um mismunandi myndavélagerðir. Síðan talaði hann um ljósop og þannig. Síðan lét hann okkur gera verkefni um uppbyggingu mynda. Monika hafði komið með Rússneska myndavél með sér. Gamla rússneska myndavél, ég man ekki hvað hún heitir. En ég hef heyrt nafnið aftur.
Ég ætla að láta þetta nægja í bili, ég skrifa kannski eitthvað meira á morgun
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Úlfhildur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar